Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að það beri að fagna því sem hér kom fram í máli forsrh. að samkomulag er að takast í svo veigamiklu máli sem auðvitað snýr að því að eftir kannski þrjú ár verða mælarnir ekki lengur tveir í húsi bankanna því að vissulega eru þeir tveir í dag hvað fjárskuldbindingar varðar, annars vegar nafnvextir eða handstýrðir vextir, hins vegar vísitölubinding fjárskuldbindinga. Þess vegna fagna ég þeirri yfirlýsingu, og ég tek undir þau orð hans, að það hlýtur að vera hyggilegra að ná hægum en föstum skrefum í þessu samkomulagi allra aðila og að ljúka þessu verki á tveimur til þremur árum.
    Ég vek t.d. athygli á því að í þessum tveimur mælum bankanna hvað fjármagnið varðar þá eru það aðeins 20% af sparifénu sem lúta hinum handstýrðu vöxtum en 80% af fjármagninu lúta vísitölunum, þær sjá um að hækka á því verðbólguvexti. Hvað útlánin varðar þá eru það 40% af útlánunum sem eru á handstýrðum vöxtum en 60% þar sem vísitölurnar sjá um að hreyfa til vextina.
    Fullyrðing hv. 2. þm. Vestf., sem hér hefur komið fram í fsp. í þinginu um að reiknað væri með tvenns konar hætti, er mjög athyglisverð og ég held að menn verði að skoða hvort hún eigi við rök að styðjast.