Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Eftir því sem næst verður komist þá eru svör við fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda varðandi leigutekjur eða arð sem Skógrækt ríkisins hefur haft af húseigninni Sunnuvegi 6 í Hafnarfirði frá árinu 1973, frá þeim tíma sem Skógræktinni var með erfðaskrá ánafnað þetta hús, þannig að leigutekjur í gömlum krónum á árunum 1975 -- 1980 eru 515.112 kr. Ástæðan fyrir því að leigutekjur voru ekki greiddar á árunum 1973 -- 1975 virðast vera, eftir því sem næst verður komist, að ákveðið var að ráðstafa húsinu undir fjölskyldur frá Vestmannaeyjum þegar Vestmannaeyjagosið hófst í byrjun árs 1973 og virðist ekki hafa verið innheimt leiga af þeim fjölskyldum úr Vestmannaeyjum sem nýttu húsið á þeim næstu tveimur árum sem í hönd fóru.
    Frá og með árinu 1981 til og með ársins 1990 eru leigutekjur í nýjum krónum 847.893 kr. Þessar tekjur, hvorki söluandvirði hússins sem enn hefur ekki verið selt né leigutekjur, hafa ekki enn verið notaðar til skógræktar í Dalasýslu. Þær hafa fyrst og fremst runnið til þess að mæta gagngerðri viðgerð sem fram fór á húsinu á fyrri hluta þessa tíma, fyrst og fremst þó á árinu 1977 og 1978 og í viðhald eftir það. Og svara ég þar með annarri spurningunni.
    Í þriðja lagi hafa tekjurnar verið skráðar sem sérstakur liður í leigutekjum Skógræktar ríkisins. Þannig hafa þær verið færðar í bókhaldi þeirrar stofnunar.
    Fjórðu spurningunni er þannig svarað að þetta hús er í leigu.
    Fimmtu spurningunni svara ég þannig að leigjandi er Sigurður Blöndal, fyrrv. skógræktarstjóri, sem greiðir leigu fyrir húsið samkvæmt ákvörðun frá ríkisféhirði eða fjmrn. eins og það er ákvarðað hverju sinni.
    Húsið mun verða sett á söluskrá innan skamms, væntanlega á fyrstu mánuðum næsta árs og söluandvirðinu og framreiknuðum leigutekjum sem Skógræktin hefur fengið af húsinu verður með einum eða öðrum hætti varið til að efla skógrækt í Dalasýslu og þá væntanlega einkum í Hörðudalshreppi. En svo hljóðar gjafabréfið eða erfðaskráin á sínum tíma að hagnýta skuli eignirnar í því skyni að efldur verði trjágróður í Dalasýslu og þá fyrst og fremst í Hörðudalshreppi.
    Því má svo við bæta að Skógræktin hefur um nokkurt árabil grennslast fyrir um land sem heppilegt væri til skógræktar og væri þar staðsett sem ákvæði erfðaskrárinnar kveða á um eða hvetja til, en lengi vel hefur ekki fundist eða fengist heppilegt land til ráðstöfunar í þessu skyni, en nú eru horfur á að úr því rætist. Um þetta, þ.e. þessar eftirgrennslanir um land og önnur atriði málsins, hefur verið haft samráð við þann erfingja gefandans, Hákonar J. Helgasonar, sem erfðaskrá kveður á um.
    Það er rétt sem kemur fram í máli hv. fyrirspyrjanda að þetta mál á sér orðið nokkuð langa sögu en ég hygg að á því öllu saman séu eðlilegar skýringar

og mergur málsins sá að þessi eign hefur verið vel forvöltuð og hefur í raun stóraukið verðmæti sitt með þeim viðgerðum og endurbótum sem Skógrækt ríkisins hefur látið fara fram á húsinu, og fullu söluandvirði eignarinnar og þeim tekjum sem eignin hefur skilað á þessu tímabili verður varið til eflingar skógræktar á því svæði sem erfðaskráin kveður á um. Þá yfirlýsingu vil ég gefa hér skýrt og skorinort.