Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin. Þetta er hið furðulegasta mál. Með erfðaskrá dags. 16. júlí 1972 er Skógrækt ríkisins gefin verðmæt húseign og andvirði hennar á að renna til ákveðinna verkefna. Nú er árið 1990 og síðan hafa verið margir landbúnaðarráðherrar og fleiri en einn og fleiri en tveir skógræktarstjórar og það hefur ekkert verið gert í málinu. Mér er að vísu kunnugt um að það hafa verið einhver vandkvæði á því að finna land en það afsakar ekki hvernig staðið hefur verið að þessu máli af hálfu hins opinbera. Framgangsmáti opinberra aðila í þessu máli er ekki til fyrirmyndar og hann er ekki til þess fallinn að hvetja fólk til að gefa stórgjafir í almannaþágu eins og hér var gert. Það er sorgarsaga hvernig yfirvöld hafa staðið að þessu máli.
    Í grein sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1972 -- 1973 segir hann orðrétt, með leyfi forseta: ,,Mér er ekki kunnugt um öllu stærri gjöf til átthaganna en þessi er og víst er að engin slík gjöf getur komið sér betur. Það munu þeir sanna sem fylgjast með henni eftir tvo til þrjá áratugi.`` Nú eru að verða liðnir tveir áratugir og það hefur ekkert verið gert.
    Hæstv. ráðherra sagði að þessi eign hefði verið ávöxtuð vel. Ég er að vísu ekki sérfræðingur um leigumarkað og það er erfitt í verðbólgunni að reikna aftur, en þær leigutekjur sem hann gefur upp bara fyrir árin 1981 -- 1990, þ.e. 847 þús. kr., gefa satt best að segja ekki til kynna mjög háa húsaleigu. Og ég get ekki betur séð svona í fljótu bragði heldur en húsaleiga hafi hér verið langt, langt fyrir neðan markaðsverð. Ég efa það ekki að eigninni hafi verið vel við haldið og hún endurnýjuð, en ég efast um og leyfi mér að drga þau orð ráðherra í efa að þessi eign hafi verið ávöxtuð með hagkvæmasta hætti.
    Ég vek líka athygli á því að hæstv. ráðherra greindi ekki frá því þó um væri spurt í fyrirspurninni hverjar leigutekjurnar væru, hann sagði aðeins að það væri samkvæmt ákvörðun fjmrn. Menn eru alveg jafnnær og vita ekkert meira um það. Er leigan 10.000 kr. á mánuði eða er hún 30.000 kr. á mánuði eða 40.000 eða hvað? Hæstv. ráðherra svaraði engu um það.
    Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu ráðherra að nú eigi að taka til höndum í þessu máli eftir þennan langa tíma. Það er ekki seinna vænna. Og mér finnst það satt að segja til vansæmdar hvernig þetta mál hefur verið látið danka í kerfinu og ekki að gert. Þó skal það viðurkennt að það hafa verið einhverjir erfiðleikar á að finna heppilegt land en það var ekkert sem var óyfirstíganlegt, það afsakar engan veginn hvernig að þessu máli hefur verið staðið. En ég vona nú að þeir embættismenn sem þarna eiga í hlut sjái að sér og komi þessu máli í það horf sem gefandi ætlaðist til með erfðaskrá sinni og gjafabréfi frá 16. júlí 1972.