Vextir á lánum Húsnæðisstofnunar
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. kærlega fyrir hennar svör en þar viðurkennir hún það sem fram kom í máli mínu hér áðan að þarna er um óeðlilega háa vexti að ræða fyrir þá aðila sem yfirtaka svona lán þegar þeir hafa keypt íbúð. Það sem er í mínum huga er ekki það hvað meðaltal þessara lána er, það kann að vera rétt að meðaltal alls lánstímans sé 2 -- 3% raunvextir, en fyrir þessa einstöku aðila, sem eru hálfpartinn píndir til að taka þessi lán, er þarna um að ræða 13,75% raunvexti á lánunum miðað við lánskjaravísitölu en 9,18% ef miðað er við byggingarvísitölu en byggingarvísitala hækkaði meira á þessu tímabili sem reikningurinn náði yfir heldur en lánskjaravísitalan.
    Þegar nú er verið að tala um skuldbreytingu við íbúðarkaup í tengslum við vaxtahækkanir sem hugmyndir hafa komið upp um, er þá ekki rétt að tala um vaxtalækkun til samræmis hjá þeim aðilum sem búa við þetta óréttlæti að þurfa að borga eins háa vexti og raun ber vitni? Það er rétt að þarna er aðallega um að ræða lán sem tekin eru á árinu 1975 og 1976 en veitt hefur verið heimild, þó að fáir viti um það, varðandi lán sem tekin eru 1977 og 1978, það má skuldbreyta þeim en ekki hinum lánunum. Ég vildi nú mælast til þess að félmrh. auglýsti það og gerði fólki grein fyrir því að það gæti skuldbreytt þessum óhagstæðu lánum frá 1977 og 1978, ég efast um að margir viti að það sé heimilt, en þar er um enn þá hærri raunávöxtun að ræða heldur en af hinum lánunum, frá 1975 og 1976.
    Ég skora á félmrh., ég veit að hún er að vinna í þessum málum og vonast eftir því að innan skamms liggi fyrir tillögur í þessu efni, hvernig megi koma til móts við þessa aðila sem þarna eru greinilega órétti beittir.