Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. kærlega fyrir hennar svör. Ég átti svo sem ekki von á að hún væri annarrar skoðunar en ég í þessu máli, að mismunur og hagnaður sem verður á nauðungaruppboðum eigi að sjálfsögðu að lenda hjá þeim sem fyrir þeim leiðindaaðgerðum verður en ekki að bera uppi tjón stofnunarinnar vegna annarra eigna sem hafa leitt til þess, jafnvel vegna mistaka, að tryggingin var ekki næg. En ég vona svo sannarlega að í því máli sem hún nefndi sérstaklega, og vissi að ég var með í huga þegar fsp. var lögð fram, leysi hún það þannig að sá einstaklingur fái að njóta þess að mismunur varð og hann geti búið sér til framtíðar heimili og haft einhverjar tekjur svo honum verði þetta kleift.