Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargott svar. Þó að það eignar- og rekstrarform sem sjáfseignarstofnun nefnist sé kannski ekki ýkja algengt hér á Íslandi þá fer þeim stofnunum fjölgandi sem vinna samkvæmt slíku formi. Til eru sjálfseignarstofnanir sem hafa sérlög, svo sem Skálholtsskóli, sem hefur lög um Skálholtsskóla, og Verslunarskólinn. Aðrar slíkar stofnanir verða að byggja á lögum sem fjalla ekki beinlínis um þær eða þá á samningum og hefðum. Þetta er auðvitað ekki gott og fagna ég því að heyra að einhverju miðar í gerð þessa frv. Sjálfseignarstofnanir eru þó nokkuð ólíkar innbyrðis margar hverjar bæði að takmarki og rekstri. Má nefna að Landakotsspítali er gjörólíkur t.d. Skóla Ísaks Jónssonar. Þetta eru þó tvær sjálfseignarstofnanir sem hvorug hefur lög við að styðjast en bara hefðir og samninga. Því er þörf á að þessi lög verði sett hið bráðasta. En ekki má flana að neinu, þetta verður að gera vandlega svo vel dugi.