Greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 225 hef ég leyft mér að koma með fsp. til hæstv. fjmrh. um greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu. Fsp. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Tíðkast enn að starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana fái greidd laun fyrir svokallaða ,,óunna`` eða ,,ómælda`` yfirvinnu? Ef svo er, hvert er hlutfall slíkra greiðslna á samningsbundin laun?
    Hvaða launaflokkar fá slíkar greiðslur?
    Hver er heildarupphæð slíkra greiðslna frá ríkinu?
    Hverjar eru heildarlaunagreiðslur ríkisins fram yfir samningsbundnar launagreiðslur samkvæmt kjarasamningum?``
    Ástæða fyrir þessari fsp. er fyrst og fremst sú að það hefur lengi verið talið að slíkar greiðslur hafi farið fram í stórum stíl. Er það eiginlega undarlegt að ekki skuli hafa verið, svo að ég muni eftir, reynt að fá upplýsingar um hvernig þessum málum sé fyrir komið. Ég varð vitni að því fyrir stuttu að starfsmaður í ríkisstofnun sagði frá því að samningsbundin laun sín væru 90 þús. kr. á mánuði. Og það var innt eftir því hvað hann fengi í heildarlaun. Ja, ég læt nú ekki troða á mér, var svarið. Ég veit hvernig þetta gengur í kerfinu og ég fæ 140 -- 155 þús. kr.
    Ég gæti komið með fleiri dæmi en tíminn er svo takmarkaður að hann leyfir það ekki. En það hlýtur að vera skylda stjórnvalda, í þessu tilviki hæstv. fjmrh., að upplýsa hvernig þessum greiðslum er komið fyrir. Allir vita að þetta er svona og það á þeim tímum þegar lægst launaða fólkið mun ekki, að mér er tjáð, fá slíkar greiðslur.