Greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það brennur á manni þegar maður hefur í mörg ár fengið ómælda yfirvinnu borgaða að heyra að hún sé óunnin. Ég kalla það ósvinnu að segja um okkur sem höfum fengið ómælda yfirvinnu borgaða að hún sé óunnin. Yfirleitt er hún óskaplega vanmæld. Ég veit ekki hvað sá maður sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var að vitna í verður að vinna mikið aukalega en ég held að hann hafi verið að tala digurbarkalega. Í flestum tilfellum mundi slíkur maður hafa unnið miklu meira en launin hans segja til um eða þá hann hefur skrökvað til um laun.
    Það er ekki óalgengt, a.m.k. í þeim hópi manna sem ég hef unnið með, þ.e. skólastjóra, að þeir fái 36 -- 48 tíma á mánuði. En ég fullyrði að þeir sem fá 48 tíma á mánuði vinna miklu meira en 48 tíma í yfirvinnu. Eins er með það fólk sem ég hef kynnst. Það er í rauninni þrælkun á okkur sem höfum verið í svona störfum að nota þetta ómælda yfirvinnuákvæði sem virðist vera í samningum.