Lögfræðilegt álit á bráðabirgðalögunum
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hér á þskj. 227 leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. forsrh. um lögfræðilegt álit á bráðabirgðalögunum. Fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða skriflegra álita lögfræðinga hefur ríkisstjórnin aflað sér vegna fram kominna fullyrðinga á Alþingi og utan þess um að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar, nr. 89/1990, séu ekki í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar?``
    Ég er að vísu búinn að þráspyrja um þetta atriði og hef ekki fengið um það nein svör. Má segja að það sé seint að fá einhver svör nú en þó taldi ég það rétt að hæstv. forsrh. væri
gefið tækifæri til þess í fyrirspurnatíma á Alþingi að svara svona fyrirspurnum.