Lögfræðilegt álit á bráðabirgðalögunum
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ef ég skil þessa fyrirspurn rétt er spurt um það hvaða álita hefur verið leitað vegna fram kominna fullyrðinga á Alþingi, þ.e. eftir að málið kemur fyrir Alþingi. Eftir að málið kemur fyrir Alþingi er það í höndum nefndar hjá Alþingi, fjh. - og viðskn., sem hefur aflað sér álita þannig að ríkisstjórnin hefur ekki séð ástæðu til þess að afla sér skriflegra álita eftir að málið er komið fyrir Alþingi. Ég vek athygli á því að með áliti fjh. - og viðskn. fylgir t.d. álit ríkislögmanns sem er með málið í sínum höndum fyrir dómstóli.
    Hins vegar vil ég til upplýsingar geta þess að áður en bráðabirgðalögin voru sett var leitað álita hjá, að mér telst, samtals tíu lögmönnum. Þar af voru sjö innan Stjórnarráðsins en þrír utan. Á fundi hjá ríkisstjórninni 24. júlí mættu fjórir lögmenn þar sem ítarlega var rætt um setningu bráðabirgðalaganna og að sjálfsögðu voru þau sett á grundvelli þeirra skoðana sem þar komu fram og samþykkt af lögfræðingum.
    Ég efa ekki að hv. þm. hefur spurt um þetta þegar hæstv. sjútvrh. talaði við hann um þetta mál áður en bráðabirgðalögin voru sett og hefur fengið svör þar við slíkum spurningum. Hæstv. sjútvrh. segir mér að því samtali hafi lokið þannig að hv. þm. hafi sagt: Ætli sé um nokkuð annað að ræða en að setja svona lög? Og ég hef ekki staðið hæstv. sjútvrh. að því að greina rangt frá málum, enda hefur því ekki verið mótmælt að við hv. þm. var rætt.
    Ég vil jafnframt geta þess hér að í gær lét ég hringja til hv. þm. og bjóða honum að fá aðgang að öllu því sem hann vildi um fræðast í þessu sambandi. Það gerði minn aðstoðarmaður, Jón Sveinsson, en hv. þm. hafnaði því að koma upp í Stjórnarráð og fá aðgang að slíku. Málið er nú í höndum dómstólanna og ég mun ekki ræða hér þessar álitsgerðir meðan það er í höndum dómstólanna. Hins vegar bauð ég hv. þm. að hann fengi að því aðgang en hann hafnaði því.