Sjávarútvegsbrautin á Dalvík
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Björn Valur Gíslason) :
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 265 leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. spurninga varðandi stýrimannaskólann á Dalvík.
    Kennsla við þennan skóla hófst fyrir um það bil áratug. Þó að þar hafi í upphafi verið um algera lágmarkskennslu að ræða og óvissa ríkt um framhald hennar um tíma er nú öllum ljóst að hér var stigið stórt skref í að auðvelda sjómönnum að mennta sig í þessum fræðum. Ég er ekki viss um að allir geri sér vel grein fyrir því hversu mikið átak það er í raun og veru fyrir sjómenn að setjast á skólabekk. Stýrimannaskólinn gerir ákveðnar lágmarkskröfur varðandi inntöku nemenda og ólíkt flestum framhaldsskólum öðrum er krafist töluverðrar starfsreynslu, þ.e. sjómennsku, við skólann. Því er það svo að stór hluti nemenda í stýrimannaskólum er fjölskyldufólk og hefur um langan tíma verið virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Það þarf því töluvert áræði í raun og veru fyrir þetta fólk að setjast í skólann, að ég tali nú ekki um ef náminu fylgja búferlaflutningar í aðra landshluta.
    Það var því töluverð breyting til hins betra þegar stýrimannaskólinn á Dalvík tók til starfa fyrir norðlenska sjómenn. Það kom fljótlega í ljós að ekki nægði að bjóða upp á hlutanám eins og gert var í upphafi. Því varð það úr að kennsla við skólann var aukin og eru nú þaðan útskrifaðir nemendur með réttindum til að stjórna íslenskum fiskiskipum.
    Jafnframt hefur það komið í ljós að með tilkomu Dalvíkurskólans jókst aðsókn í skipstjórnarnám á landsvísu, þ.e. sá fjöldi sem nam við þennan skóla var hrein viðbót við það sem fyrir var. Er reyndar mikill vafi á að þeir sjómenn sem útskrifast úr stýrimannaskólanum á Dalvík hefðu nokkurn tíma farið í þetta nám ef þessi möguleiki hefði ekki boðist. Þessi nemendaaukning varð síðan til þess ásamt fleiru reyndar að stórlega fækkaði undanþágum til skipstjórnar sem höfðu í áratugi verið mikið vandamál í skipaflotanum, fiskiskipaflotanum sérstaklega.
    Vegna mikilvægis þessa náms og hve nauðsynlegt er að auðvelda landsbyggðarfólki að nema skipstjórnarfræði þykir mér ástæða til þess að spyrja hæstv. menntmrh. hvort, og hvenær þá, þess er að vænta að nemendur geti að fullu lokið skipstjórnarnámi við sjávarútvegsbrautina á Dalvík og í öðru lagi hvaða áform eru, ef einhver, um uppbyggingu og eflingu sjávarútvegsbrautarinnar á Dalvík.