Sjávarútvegsbrautin á Dalvík
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur borið fram fsp. til mín um sjávarútvegsbrautina á Dalvík. Í tilefni af því hefur verið tekið saman minnisblað um þessi mál í ráðuneytinu þar sem það kemur m.a. fram að stýrimannanám fer nú aðallega fram við þrjá skóla, Stýrimannaskólann í Reykjavík, Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og á Dalvík. Einstaka fjölbrautaskólar hafa auk þess af og til boðið upp á fyrsta stig þessa náms eða hluta þess. Fram til ársins 1985 fór nemendum fækkandi í stýrimannanámi. Á þessum árum fór námið svo til eingöngu fram við stýrimannaskólana tvo og á Dalvík en þar hófst þetta námsframboð fyrst árið 1981.
    Í lögum sem sett voru 31. des. 1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum var kveðið svo á að haldin skyldu námskeið fyrir þá skipstjórnarmenn sem starfað höfðu á undanþágu í a.m.k. 24 mánuði hinn 1. jan. 1985. Námskeið þessi skyldu haldin í öllum landshlutum skólaárin 1985 -- 1987 og veittu takmörkuð réttindi þeim sem sóttu þau. Af þessum sökum kom fram mikil eftirspurn eftir stýrimannanámi og skólaárið 1985 -- 1986 var boðið upp á fyrsta stig stýrimannanáms á fimm stöðum til viðbótar við þá sem ég hér nefndi áðan, þ.e. í Gagnfræðaskólanum á Húsavík, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Grunnskóla Eyrarsveitar, Grunnskólanum í Ólafsvík og Heppuskóla. Alls stunduðu þetta nám þann vetur um 146 nemendur.
    Eins og kunnugt er er hvert stig stýrimannanámsins sjálfstætt og veitir tiltekin réttindi. Það er athyglisvert að á síðustu árum eru 60% sem stunda þetta nám á fyrsta stigi. Hinir skiptast á annað og þriðja stig og það er ekki oft sem haldið er uppi kennslu á fjórða stigi, enda er það aðeins fyrir yfirmenn á varðskipum eins og kunnugt er. Á síðari stigum er stýrimannanámið sérhæft auk þess sem það krefst sérstakrar aðstöðu sem kostar verulega fjármuni sem hafa verið tryggðir núna á undanförnum árum í vaxandi mæli eins og kunnugt er, m.a. með bættum búnaði þeirra skóla sem aðallega hafa haft með þetta mál að gera, ekki síst Stýrimannaskólans í Reykjavík.
    Á síðustu árum hafa verið um átta nemendur að jafnaði á þriðja stigi á landinu öllu. Það hefur því verið mat ráðuneytisins að það hafi ekki verið forsendur til að skipta þessu námi á fleiri staði meðan Stýrimannaskólinn getur annað eftirspurn. Hitt er hins vegar alveg ljóst, og það er mín skoðun og ég vil láta það koma fram í tilefni af fyrirspurn hv. 4. þm. Norðurl. e., að ég tel að það eigi að kanna það mjög rækilega hvort forsendur eru til þess að auka við skipstjórnarnámið við sjávarútvegsbrautina á Dalvík, þar sem reynslan þar er góð, og það hefur komið í ljós að með því að þetta námsframboð er til staðar þá eykst um leið eftirspurnin. Og það er augljóst mál að við þurfum á fleira fólki að halda í þessar greinar en útskrifast hefur á síðustu árum.
    Við höfum núna haft að undanförnu í gangi tvö verkefni sem skipta máli varðandi þessa fyrirspurn,

virðulegur forseti. Það er í fyrsta lagi það að við höfum hafið viðræður við sjútvrn. undir forustu fræðsluráðs sjávarútvegsins, sem var sett á stofn með lögum árið 1988 og 1989, um það með hvaða hætti sjávarútvegsfræðslu almennt í landinu verði best fyrir komið. Í þeim efnum horfum við ekki aðeins á Stýrimannaskólann að sjálfsögðu heldur einnig Fiskvinnsluskólann og einnig fjölbrautaskólana í landinu almennt og möguleika þeirra til þess að koma inn í þetta kerfi í heild.
    Í annan stað munum við í tengslum við þessa yfirferð ræða sérstaklega stöðu námskeiðanna sem hafa verið í gangi fyrir fiskverkafólk og ræða þau mál sérstaklega við aðila vinnumarkaðarins.
    Í öðru lagi kemur það þessari fyrirspurn við og umræðunni um hana að í gangi er á vegum ráðueytisins heildarúttekt á búnaði, húsnæði og aðstöðu allra framhaldsskóla í landinu, með hliðsjón af því að ætlunin er að endurskipuleggja framhaldsskólann í heild vegna gerbreyttra laga sem sett voru um hann árið 1988 þegar þær kröfur voru gerðar til framhaldsskólanna, án þess að þeir hefðu verið búnir undir þær, að þeir tækju við öllum sem lykju grunnskólaprófi. Þessi heildarendurskoðun mun einnig hafa áhrif á þær niðurstöður sem ráðuneytið mun taka varðandi sjávarútvegsbrautina á Dalvík og skipstjórnarnámið þar.
    Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að bera þessa fyrirspurn fram og vænti þess að svörin séu í samræmi við það sem menn geta ímyndað sér að komi út úr málum á þessu stigi.