Snjómokstur
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er unnið á þessum dögum að endurskoðun á snjómokstursreglum og fyrirhugað að nýjar reglur verði kynntar og taki gildi í byrjun árs eða snemma á næsta ári. Hvenær það verður nákvæmlega get ég ekki tímasett en í öllu falli ekki seinna en nýjar reglur tóku gildi veturinn 1989. Það mun hafa verið í marsmánuði sem nýjar reglur tóku þá gildi.
    Fyrrnefnd endurskoðun er í raun annar áfangi af þremur í heildarendurskoðun á snjómokstursreglum. Með þeirri breytingu sem varð snemma vetrar 1989 frá þeirri vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 1989 var ákveðið að taka þrjá áfanga í að auka snjómokstur og þjónustu af þessu tagi. Þann fyrsta, eins og áður sagði, fyrri hluta vetrar 1989, annan áfangann á þessum vetri og þriðja áfanga á hinum næsta. Í gildandi vegáætlun var gert ráð fyrir auknu fjármagni til vetrarviðhalds bæði á þessum vetri og hinum næsta frá því sem áður hefur verið.
    Við þessa endurskoðun var reynt að taka tillit til m.a. eftirfarandi atriða þegar valdir voru úr þeir vegkaflar sem fengu aukna þjónustu:
    1. Samtengingar og fjölgunar á mokstursdögum milli þéttbýliskjarna á sama vinnusvæði.
    2. Aksturs skólabarna.
    3. Þjónustu heilsugæslustöðva og annarrar opinberrar þjónustu sem við sögu kemur.
    Auk þess var almennt reynt að tengja saman vinnu - og þjónustusvæði þó svo að snjómokstursdagar væru eitthvað mismunandi innan viðkomandi svæða. Loks var svo í fyrsta áfanga veturinn 1989 aukin þjónusta á nokkrum aðalumferðarleiðum þar sem tímabært þótti að auka hana, t.d. á leiðinni norður og vestur um og leiðinni norður í land.
    Í öðrum áfanga sem núna er til skoðunar verður haldið áfram á sömu braut og meiningin er að með öðrum og þriðja áfanga verði reynt að fara yfir þjónustu á þessu sviði í heild og tryggja að að lokum verði þokkalegt samræmi í reglum eins og þær birtast og beinast að einstökum aðilum, sveitarfélögum eða svæðum. Einnig þarf að reyna eftir því sem kostur er að tryggja sæmilegt jafnrétti með tilliti þó til umferðar og aðstæðna. Það verður sérstaklega að því hugað þegar þriðji og síðasti áfanginn verður ákvarðaður að þetta samræmi náist með þeim breytingum sem þá verða á reglunum.
    Það er alveg rétt sem hv. fyrirspyrjandi nefndi og er kannski eitt af vandasamari málunum í þessu sambandi að ákveðin sveitarfélög fá í gegnum mokstur á aðalleiðum kannski mjög góða þjónustu án þess að þurfa sjálf að leggja nokkuð af mörkum. Þar sem þannig háttar til t.d. að aðalumferðaræðar, eins og leiðin frá Reykjavík um Suðurland til Austfjarða eða leiðin frá Reykjavík um Vesturland til Norðurlands og Vestfjarða, sveitarfélög sem liggja á slíkum svæðum, við þjóðvegi, fá mjög góða þjónustu án þess að þurfa sjálf að leggja þar af mörkum peninga. En önnur sem

liggja á endum vegakerfisins, inn dali sem liggja inn til lands út frá aðalleiðum, fá kannski litla og í sumum tilvikum enga þjónustu nema leggja þar peninga sjálf af mörkum. Þetta er að sjálfsögðu erfitt að samræma vegna þess að óhjákvæmilegt er að þjónustan, moksturinn og kostnaðurinn sem þarna er lagt í taki mið af umferðarþunganum og mikilvægi samgönguleiðanna. Tæplega verður komið á því fyrirkomulagi að tryggja sama mokstur og sömu þjónustu um allt vegakerfið án tillits til slíkra aðstæðna.
    En það er engu að síður augjóst mál að taka verður til endurmats núgildandi reglur um mokstursdaga gagnvart slíkum afskekktum sveitarfélögum og einnig þá reglu um helmingaskipti á kostnaði sem notuð hefur verið. Og ég fullvissa hv. þm. um að Vegagerðinni og samgrn. er mjög vel kunnugt um þennan þátt málsins. Tugir ef ekki hundruð bréfa, tilmæla af ýmsu tagi, berast ráðuneytinu og Vegagerðinni á vetri hverjum þar sem óskað er eftir endurskoðun á reglum um snjómokstur og það verður reynt eftir bestu getu að samræma þarna sjónarmið og hagsmuni.
    Að lokum er það svo alveg ljóst að kröfur eru hraðvaxandi um þjónustu á þessu sviði og kostnaður hefur farið mjög ört vaxandi sem glöggt hefur komið fram á útmánuðum tvo sl. vetur sem báðir hafa reynst mjög erfiðir og kostnaðarsamir. Kemur þar hvort tveggja til að nokkur raunhækkun virðist hafa orðið á kostnaði á þessu sviði vegna dýrari útgerðar, tækja sem í þetta eru notuð, en einnig hitt að kröfur eru mjög vaxandi og ekki um annað að ræða að mínu mati en að bregðast þannig við þeim að ætla á næstu árum aukið fjármagn til þjónustunnar, viðhalds og þjónustu á vegakerfinu, enda liggur það í hlutarins eðli að eftir því sem uppbyggingu vegakerfisins miðar hljóta hlutföllin að breytast í þá átt að kostnaður við rekstur og þjónustu á vegakerfinu verður hlutfallslega meiri eftir því sem tímar líða. Það er reynslan annars staðar og hlýtur sömuleiðis að verða reynslan hér og að því verður að hyggja þegar fjármagni til vegamála er skipt á komandi árum.