Landbrot við Jökulsá á Breiðamerkursandi
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Af könnunum og athugunum sem Vegagerð ríkisins hefur gert á undanförnum árum er ljóst að hættuástand getur skapast innan ekki langs tíma, í öllu falli innan næstu 20 -- 30 ára, við brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi ef ekkert verður að gert og núverandi þróun mála þar heldur áfram. Síðan lónið við Jökulsá á Breiðamerkursandi myndaðist skömmu eftir aldamótin hefur lítill eða enginn grófur aurburður borist fram með ánni til sjávar og sjórinn hefur því frá þeim tíma verið að brjóta niður ströndina og mun væntanlega gera áfram þangað til ný jafnvægisstaða kemst á milli framburðar efna til sjávar, á strandlengjuna, og rofmáttar sjávarins. Eins og nokkrar tölur, sem ég ætla að fara með, sýna um breytingar á fjarlægð milli brúar á Jökulsá og vegar þar sem styst er í sjó annars vegar og sjávarstrandarinnar hins vegar.
    Ef teknar eru heimildir frá því um aldamótin, t.d. dönsk kort, var fjarlægð frá brú að sjávarströnd um 1100 metrar á dönsku korti eins og það er mælt árið 1904 og frá núverandi veglínu að sjávarströnd um 850 metrar. Á amerísku kortunum 1945 er þessi fjarlægð orðin frá brú að sjávarströnd um 700 metrar og frá vegi þar sem hann liggur næst strönd að sjó um 500 metrar. Á loftmynd frá 1960 er fjarlægð frá brú að sjávarströnd komin niður í 600 metra og frá vegi að sjávarströnd niður í 300. Á loftmynd frá 1982 er fjarlægðin frá brú að sjó komin niður í 450 metra og frá veginum að sjó í 200 metra. Og samkvæmt loftmynd frá sl. sumri eru þessar fjarlægðir 400 metrar frá brú að sjávarströnd og 125 metrar frá vegi að sjávarströnd.
    Sjávarkambur, líklega um 8 -- 10 metra hár, er 50 -- 60 metra fyrir innan strandlínuna. Stysta fjarlægð frá sjávarkambi að brúnni er 237 metrar og að veginum skammt austan brúarinnar ekki nema 37 metrar. Það má því ætla að breyta þurfi veglínunni austan brúarinnar innan 3 -- 5 ára og að hættuástand geti skapast við brúna innan 20 -- 30 ára, þ.e. við brúna sjálfa. Án mikils kostnaðar er unnt að breyta veglínunni austan brúar svo samgöngur verði ekki í hættu, en undirbúa þarf á næstu árum þær aðgerðir sem gera þarf til að tryggja öruggar samgöngur á þessu svæði til frambúðar.
    Þar sem bæði vegur og rafmagnslínur eru í hættu hefur verið boðað til fundar með viðkomandi aðilum, þ.e. yfirvöldum og hagsmunaaðilum raforkumála og Vegagerðinni, í byrjun næsta árs þar sem rætt verður um hugsanlegar sameiginlegar aðgerðir til varnar vegi og rafmagnslínum.
    Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og fullvissa hann um að af hálfu Vegagerðar og samgrn. verður grannt með þróun mála fylgst og að því hugað að grípa til þeirra ráða sem tiltæk eru til að tryggja þarna öruggt vegasamband þó hafa beri í huga að þarna er við ramman reip að draga þar sem eru sjálf náttúruöflin að verki. Auðvitað geta þær aðstæður skapast að af tæknilegum og efnislegum ástæðum geti hreinlega orðið í fyllingu tímans mjög erfitt að tryggja þarna öruggar samgöngur á landi með þeim hætti sem við höfum í dag. En alla vega verður allt gert sem mögulegt er til þess að tryggja þær eins lengi og kostur er. Vonandi gerist það ekki, sem þó er fræðilega alveg hugsanlegt, að innan fárra áratuga verði þarna við aðstæður að glíma sem tæplega geri vegasamband á landi mögulegt. Það væri vissulega alvarlegt ef til slíks kæmi. En með tilteknum ráðstöfunum á í öllu falli að vera unnt með því að færa vegalínu og grípa til varnaraðgerða að tryggja þarna næstu áratugina öruggar samgöngur og lengur er í raun og veru ekki hægt að spá fyrir um hvernig aðstæður verða. Það verður reynslan að leiða í ljós.