Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til þess að taka hér upp utan dagskrár málefni sem varða aukna hættu frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay á norðurodda Skotlands. Það er mál sem áður hefur borið á góma hér í sölum Alþingis því að Alþingi samþykkti vorið 1988 till. til þál. um mótmæli vegna stækkunar endurvinnslustöðvar í Dounreay fyrir úrgang frá kjarnorkuverum. Samþykkt Alþingis var svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að mótmæla stækkun endurvinnslustöðvar fyrir úrgang frá kjarnorkuverum í Dounreay í Skotlandi og felur ríkisstjórninni að vinna áfram gegn þessum áformum.``
    Síðan hefur þessi mál oft borið á góma, bæði hérlendis og einnig á norrænum vettvangi og víðar þar sem Íslendingar ásamt fleiri þjóðum hafa leitast við að koma við hömlum gegn þeim áformum sem uppi hafa verið um uppbyggingu kjarnorkustöðvar með tilheyrandi geislamengunarhættu frá Dounreay í Skotlandi.
    Þær fréttir sem fengu mig til að biðja hér um umræðu utan dagskrár eru varðandi það að forráðamenn Dounreay - stöðvarinnar hafa nýlega átt viðræður við sænska aðila um samning um endurvinnslu á úrgangi frá tveimur tilraunakjarnaofnum í Svíþjóð. Fullyrt er og staðfest af yfirmönnum kjarnorkueftirlits Svíþjóðar að þær viðræður hafi farið fram og talið að ekki vanti mikið á að samningar verði undirritaðir þar að lútandi.
    Yfirmenn Dounreay - stöðvarinnar leggja nú mikla áherslu á það að ná viðskiptasamböndum sem víðast um heim til þess að taka að sér endurvinnslu á slíkum úrgangi og sl. laugardag var fundur í Skotlandi á Katanesi við Dounreay þar sem einn af yfirmönnum Dounreay - stöðvarinnar kynnti áformin þar að lútandi og sagði að þeir mundu leggja alla áherslu á það að ná slíkum samningum sem víðast. Þessar samningaumleitanir varðandi Svíana eru liður í þeirri viðleitni en einnig virðist það vera áhugamál hinna sænsku aðila. Það er jafnframt fram tekið að það verði notaðar allar leiðir til flutnings á geislavirkum úrgangi til og frá Dounreay í þessu samhengi og er það eitt út af fyrir sig verðugt umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga því að það er ekki aðeins landleiðin sem nefnd er heldur einnig flutningar í lofti og á sjó.
    Ég tel að hér sé hið alvarlegasta mál á ferðinni sem íslenskum stjórnvöldum beri að bregðast við nú þegar. Það er alveg ljóst að það á að keyra þróun þessarar endurvinnslustöðvar a norðurodda Skotlands áfram á fullri ferð þrátt fyrir alþjóðleg mótmæli og mótmæli héðan. Þegar sænsk stjórnvöld eru orðin með einhverjum hætti aðili að þessum málum og fyrirtæki í Svíþjóð þá eru málin komin á það stig að við getum ekki orða bundist hér á Alþingi Íslendinga. Við hljótum að gera kröfu til þess gagnvart sænskum stjórnvöldum að þau stöðvi þessi áform, þessar samningaumleitanir sem þarna eru í gangi, þannig að Norðurlöndin bætist ekki í hóp þeirra, og þá er auðvitað um að ræða Svía og Finna sem eru með kjarnorkuvinnslu hjá sér, sem gera viðskiptasamninga við Dounreay.
    Ég spyr hæstv. umhvrh. um það til hvaða ráðstafana hann og ríkisstjórn landsins muni grípa nú í tilefni af þessum síðustu tíðindum og almennt séð á næstunni vegna uppbyggingarinnar í Dounreay.