Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni að þetta mál hefur oft borið á góma hér á hinu háa Alþingi. Ég rifja það upp að ég var líklega einn af meðflm. þeirrar þáltill. sem var samþykkt á hinu háa Alþingi um að ríkisstjórnin mótmælti formlega áformum um að stækka endurvinnslustöðina í Dounreay.
    Ég hef haft veruleg afskipti af þessu Dounreay - máli þá mánuði sem ég hef gegnt embætti umhverfisráðherra. M.a. fór ég í heimsókn til stöðvarinnar í sumar sem leið, skoðaði stöðina 30. júlí í sumar og kynnti mér allar aðstæður þar og átti viðtöl og fund með forráðamönnum stöðvarinnar. Það voru aðallega þrjú mál sem þar bar á góma. Í fyrsta lagi að tilraunaeldisofninum mun nú verða lokað vegna þess að breska ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta fjárframlögum til þeirrar rannsóknarstarfsemi sem hefur átt sér stað með raforkuframleiðslu í tilraunaeldisofninum í Dounreay, sem hefur verið starfræktur þar í ein 30 ár. Endurvinnsla á geislavirkum úrgangi hefur dregist verulega saman frá því að hún var hvað mest í upphafi 8. áratugarins, upp úr 1970. Síðan hefur dregið verulega úr henni, sérstaklega við það að kjarnorkurannsóknarstöðinni í Harwell var lokað nú fyrir nokkru.
    Það er því rétt sem kom fram hjá hv. þm. að forráðamenn stöðvarinnar í Dounreay leita með logandi ljósi um allan heim að nýjum verkefnum fyrir stöðina því að hér er í raun um byggðavandamál að ræða. Það kom mjög glögglega í ljós þegar við áttum fund með forráðamönnum stöðvarinnar sl. sumar að það er litið á stöðina sem nokkurs konar byggðamál, þ.e. að þau atvinnutækifæri sem hún býður upp á eru talin mjög mikilvæg fyrir þetta fámenna byggðarlag sem annars er mjög fátækt af iðnfyrirtækjum og hvers kyns atvinnufyrirtækjum. En það breytir ekki því að þessi stöð veldur okkur þungum áhyggjum og kannski fyrst og fremst áform um að byggja þar gríðarstóran geymsluhelli undir botni sjávar við ströndina út frá Dounreay til þess að koma þar fyrir geislavirkum úrgangi, svokölluðum lággeislavirkum eða meðalgeislavirkum úrgangi. Honum yrði komið þar fyrir í lokuðum stáltunnum sem síðan yrði annaðhvort steypt yfir eða jarðað yfir með jarðefnum. Það eru ekki nein smáræðisverkefni sem þar er um að ræða því að gert er ráð fyrir að slíkur hellir geti orðið að stærð á við Ermarsundsgöngin. Talið er koma til greina að byggja slíka neðanjarðargeymslu á tveimur söðum, annaðhvort í Sellafield á vesturströnd Bretlands á móts við Dublin á Írlandi eða við Dounreay á norðurströnd Skotlands. Það liggur ekki ljóst fyrir hvor staðurinn verður fyrir valinu, en þó benda ýmsar líkur til þess að það geti orðið Dounreay þar sem jarðfræði Dounreay - svæðisins er miklu hagstæðari í þessu tilliti en jarðlögin við Sellafield.
    Það er fyrst og fremst síðara atriðið sem við hljótum að hafa þungar áhyggjur af vegna þess að verði af þeim áformum, að byggja þarna mikinn geymsluhelli, þá blasir auðvitað sú hætta við að geislavirkur

úrgangur geti lekið í gegnum bæði tunnurnar og hellisveggina út í hafið og þar með valdið geislamengun á fiskimiðunum hér í kringum Ísland og í Norður - Atlantshafinu. Því hljótum við að fylgjast mjög grannt með öllu sem þarna gerist og reyna að mótmæla öllum áformum um að stækka þessa stöð og þó sérstaklega að byggja þarna þennan gríðarmikla geymsluhelli.
    Ég hef í sumar ritað nær öllum umhverfisráðherrum þeirra landa sem talað er um að hafi verið að reyna að gera samninga við Dounreay um að fá flutt þangað geislavirkt úrgangsefni til endurvinnslu. Sömuleiðis ritaði ég öllum umhverfisráðherrum EFTA - ríkjanna til þess að leita eftir stuðningi þeirra við þau mótmæli sem við höfum haft í frammi. Ég hef fengið svör frá allnokkrum ráðherrum. Það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að fá svör bæði þýska umhverfisráðherrans og sömuleiðis svar sem formaður ráðherranefndar umhverfisráðherra Evrópubandalagsins í Brussel, Ítalinn Ripo Di Meana, ritaði norska umhverfisráðherranum í sumar en hann beindi svipaðri fyrirspurn til Brussel. Í báðum þessum bréfum kemur fram mikill hroki og í raun er þar sagt að við eigum ekkert að vera að skipta okkur af þessu. Þetta sé hættulaust með öllu og við þurfum ekki að hafa af þessu neinar áhyggjur. Við höfum þær hins vegar og munum fylgja eftir þeim mótmælum sem við höfum reynt að hafa uppi á hverjum þeim vettvangi sem okkur stendur til boða, þ.e. þegar umhverfisráðherrar Evrópulandanna hittast munum við taka upp þessi mótmæli og reyna að fylgja þeim eftir eftir bestu getu.