Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða og fréttir um að Svíar hyggist senda geislavirkan úrgang til endurvinnslu í Dounreay á Norður - Skotlandi gefur tilefni til þess að rifja upp að utanrrn. hefur tvisvar sinnum afhent breskum stjórnvöldum athugasemdir og mótmæli vegna fyrirhugaðrar starfsemi endurvinnslustöðvarinnar auk þess sem utanrrh. hefur tekið þetta mál upp í opinberum viðræðum við breska ráðamenn. Ég ætla að nefna hér nokkrar vörður í þróun þessa máls til þess að sýna hvernig á því hefur verið haldið.
    Alþingi ályktaði 8. febr. 1988 að mótmæla stækkun endurvinnslustöðvarinnar og fela ríkisstjórninni að vinna áfram gegn áformum í því efni. Utanrrn. fól sendiráði Íslands í London að afhenda Bretum formleg mótmæli 20. maí 1988, þar sem m.a. er minnt á að Ísland sé nær Dounreay en Tsjernóbíl er þeim sænsku landsvæðum sem svo hart urðu úti í Tsjernóbíl - slysinu 1986. Starfandi utanrrh. afhenti sendiherra Breta á Íslandi minnisblað um málið 20. okt. 1989 þar sem m.a. er vísað til Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar og tilmæla Parísarnefndarinnar varðandi byggingu nýrra endurvinnslustöðva og varúðarráðstafana í því sambandi.
     Utanrrn. ræddi þetta mál við William Waldegrave, þá varautanríkisráðherra Breta, í Reykjavík 25. júní sl. Í máli herra Waldegraves kom þá m.a. fram að gert væri ráð fyrir að gerðir yrðu viðskiptasamningar um það að geislavirk efni frá a.m.k. þremur öðrum ríkjum en Bretlandi yrðu tekin til endurvinnslu í Dounreay. Hann lét þess líka getið að starfsemi þessarar stöðvar yrði tvíþætt, annars vegar endurvinnsla og hins vegar geymsla geislavirkra úrgangsefna. Það kom fram að engar pólitískar ákvarðanir hefðu verið teknar um þetta mál.
    Ég get bætt því við að utanrrn. hefur í dag leitað álits Gunnars G. Schram ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, á þessu máli. Hann bendir á að endurvinnslan hafi minnkað verulega í Dounreay miðað við það sem áður var --- og áformað var --- og að hún sé mjög lítil um þessar mundir og engin aukning sé ráðgerð frá því sem mest var áður. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur tvo menn þarna á staðnum. Það er vert að rifja upp að endurvinnslustöðin í Dounreay var og er einkum rannsókna - og tilraunastöð, eða eins og það heitir á enskri tungu Research Reprocessing Plant. Dregið hefur verið úr framlögum til rannsóknastarfsemi stöðvarinnar og leggja aðstandendur hennar nú ríka áherslu á að gera viðskiptasamninga við aðrar þjóðir um endurvinnslu til þess að geta haldið stöðinni starfandi. Fréttirnar um það að Svíar hyggist senda geislavirkan úrgang til endurvinnslu í Dounreay þarf að skoða í þessu ljósi.
    Um stöðu mála í Svíþjóð er það að segja að sænskir kjósendur
ákváðu, eins og kunnugt er, í þjóðaratkvæðagreiðslu 1980 að loka 12 kjarnorkuverum sínum í áföngum frá árinu 1995. Efasemdir hafa nú komið fram um að slíkt sé raunhæft af efnahagslegum ástæðum. Kjarnorkan sér Svíum fyrir um það bil helmingi af þeirra raforkuframleiðslu og ströng ákvæði um umhverfisvernd setja leit að nýjum orkugjöfum mjög þröngar skorður. Svíar geyma nú sinn kjarnorkuúrgang í Forsmark við sænsku ströndina undir eftirliti sænskra stjórnvalda og fulltrúa frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni. Utanrrn. hefur í dag falið sendiráði Íslands í Stokkhólmi að spyrjast fyrir um fyrirætlanir Svía í þessu efni varðandi útflutning og endurvinnslu á geislavirkum úrgangsefnum frá Svíþjóð.
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að taka það fram en mun þó gera það að utanrrn. mun halda áfram að mótmæla endurvinnslu og umsvifum í Dounreay.