Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega þakkarvert að þingmenn skuli hafa á sér andvara, sýna varkárni gagnvart umhverfisvá eins og kjarnorkuendurvinnslustöðin í Dounreay sannarlega er. En ég vildi beina því til hv. 2. þm. Austurl. að ríkisstjórnin hafi sannarlega staðið á verði í þessu máli, mótmælt því stöðugt og haft uppi eðlilega málsvörn. Í því sem ég sagði hér áðan kom mjög skýrt fram að við höfum tekið þetta upp við sænsk stjórnvöld og ég vildi líka láta það koma hér fram að á vettvangi hins norræna samstarfs hefur þessu máli ítrekað verið hreyft. M.a. hef ég gert það á vettvangi norrænu orkuráðherranna. Það hefur verið gert á vettvangi norrænu umhverfisráðherranna, eins og ég veit að umhvrh. getur skýrt frá, og það hefur líka verið gert á vettvangi norrænu samstarfsráðherranna.
    En ég vara við því að nota þetta mál til þess að vekja upp óþarfa ýfingar með samherjunum á hinu norræna sviði í umhverfisvörnum því að þar eigum við sannarlega mikið undir því að við höldum samstöðunni en alls ekki með því að fórna íslenskum grundvallarhagsmunum eins og hér var látið að liggja. Það verður aldrei gert. Hins vegar vildi ég víkja því að hv. 2. þm. Austurl. að hafa hér ekki uppi ómaklegar ávirðingar eða dylgjur um það að stjórnvöld standi ekki á verði í þessu máli.