Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. iðnrh. að það er þakkarvert að þingmenn skuli sýna þessu mikilvæga máli svona mikinn áhuga sem kemur fram í þessari utandagskrárumræðu sem hv. 2. þm. Austurl. hefur haft frumkvæði að.
    Ég vil biðja hv. þm. að misskilja ekki orð mín þótt ég hafi lauslega sagt frá því sem mér var sagt þegar ég heimsótti stöðina í Dounreay. Það eru ekki mínar skoðanir að það skipti okkur einhverju meginmáli hvort þarna sé verið að vinna að því að skapa atvinnutækifæri fyrir fólk í Skotlandi. Ég hef enga skoðun á því máli. Ég hef einungis skoðun á því hverjir eru hagsmunir Íslands og hvaða ógn Íslendingum og okkar fiskimiðum stafar af því að reka þessa stöð í Dounreay. En ég get ekki séð neitt athugavert við það þótt ég greini hér frá því sem ég frétti þegar ég heimsótti stöðina og skil nú satt að segja ekki hvað fólst í þessum dylgjum hv. þm. um að þetta væri skoðun mín.
    Ég get þess enn fremur að ég beitti mér fyrir því sl. vor að umhverfisráðherrar Norðurlanda ættu fund með breska umhverfisráðherranum til þess að mótmæla formlega áformum um að stækka endurvinnslustöðina í Dounreay. Danski umhverfisráðherrann, sem nú er formaður ráðherranefndar umhverfisráðherra, tók að sér að semja bréf þar að lútandi þar sem beiðst yrði slíks fundar. Því miður náðist ekki samkomulag um það meðal umhverfisráðherra Norðurlandanna einfaldlega vegna þess, eins og reyndar kom fram í máli hv. þm., að tvö Norðurlandanna eru kjarnorkulönd þar sem friðsamleg nýting kjarnorku á sér stað og þau virðast hafa annarra hagsmuna að gæta. Því miður hefur þetta mál valdið miklum deilum meðal umhverfisráðherra Norðurlanda einmitt af þeim sökum að Norðurlöndin þrjú, Ísland, Noregur og Danmörk, hafa aðra hagsmuni og líta öðruvísi á þessi mál en Finnar og Svíar. Það þýðir ekkert að fela þennan sannleik. Þetta er einfaldlega svona.
    Hins vegar er bæði fyrirhugaður samstarfsfundur umhverfisráðherra Norðurlanda og einnig samstarfsráðherra undir lok næsta mánaðar. Ég hef gert ráðstafanir til þess að óska þess að þetta mál verði tekið formlega þar til umræðu og ég mun beita mér fyrir því, bæði á vettvangi samstarfsráðherra og á vettvangi umhverfisráðherra, að borin verði upp formleg mótmæli ráðherranefndanna við þessum áformum í Dounreay.
    Þá vil ég að lokum geta þess að ég átti um þetta viðræður við umhverfisráðherra Svía, frú Birgittu Dahl, í sumar þar sem ég ræddi við hana um okkar sjónarmið og gerði henni grein fyrir því hvers vegna þetta veldur okkur áhyggjum. Hún skilur það að sjálfsögðu. Við ræddum þar um atriði sem gætu verið mikilvæg í þessu samhengi en það er að í stað þess að láta Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni í Vín það einni eftir að skilgreina alþjóðlegar reglur um hvernig skuli farið með geislavirkan úrgang og hvaða reglur skuli gilda um flutning á geislavirkum úrgangi sé

kominn tími til að um slíkt verði gerður alþjóðlegur samningur að frumkvæði umhverfismálaráðherra. Það verði haldið utan um slíkan samning af þeirra hálfu og væri þá kannski von til þess að koma mætti í veg fyrir þá starfsemi sem hér er verið að lýsa.