Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Það er augljóst að jólin eru að ganga í garð. Við sjáum hina ýmsu boða jólanna. Jólatréð er komið upp á Austurvelli. Forustumenn borgarstjórnar eru búnir að kveikja á því ljósin, fjárlagaræðan er byrjuð á Alþingi og Pálmi Jónsson er kominn í bæinn af fjöllum með fjárlagaræðuna sína eitt skiptið í viðbót. Raunar er kannski rangt að segja fjárlagaræðuna sína því að þeir sem muna tímana tvenna hér í kringum Alþingi þekkja að þetta er sama ræðan og Jón Þorláksson flutti á sínum tíma fyrir 46 árum. Er þetta því í 46. skipti sem þessi ræða er flutt á Alþingi, núna af Pálma Jónssyni, og má því með sanni segja
að Jón Þorláksson sé maður dagsins í dag. Pálmi Jónsson ætti hins vegar að fá viðurkenningu frá umhvrn. fyrir endurnýtingu á fjárlagaræðum betur en aðrir menn hafa gert til þessa og sýnir lofsvert framtak til eftirbreytni fyrir komandi talsmenn minni hl. Sjálfstfl. í fjvn. sem hér verða væntanlega um ókomin ár. En við skulum ekki eyða miklum tíma í þetta, það fer að styttast í kvöldmat og þess vegna langar mig aðeins að hlaupa yfir nokkra þá liði í fjárlögum þar sem vel hefur verið gert.
    Við höfum heyrt hér klukkustundum saman það sem stjórnarandstaðan telur miður vera í fjárlögunum, en samt er nú alltaf eitthvað gott gert á milli ára og vil ég leyfa mér að hlaupa hér yfir, stikla á stóru í þrem stökkum yfir lækinn.
    Í menntamálum er þar fyrst að telja að gert er vel við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskólann við Ármúla, Stýrimannaskólann, Iðnskólann, Hótel - og veitingaskóla Íslands, Sjómannaskólahúsið, og fleiri skóla reyndar, sem tryggir það að sú grundvallarmenntun, sem við ætlum að treysta á næstu ár og á að taka við þeirri fjölgun sem kemur út á vinnumarkaðinn, sé fyrir hendi. Að verkmenntuninni og fagkennslunni í landinu er sæmilega búið. Einnig er gert vel við Landakotsskóla, Suðurhlíðaskóla og fleiri skóla á barnaskólastigi.
    Af menningarmálum má geta líka að Safnahúsið við Hverfisgötu fær viðhaldspeninga og er ekki ráð nema í tíma sé tekið að húsum sé haldið við áður en þau grotna niður og kosta okkur milljarð til tvo eða þrjá pr. hús fyrir þjóðfélagið að laga.
    Kvikmyndasafn Íslands fær pening, Blindrabókasafnið, Sinfóníuhljómsveit æskunnar, Myndlistarskólinn í Reykjavík og Æskulýðsráð ríkisins til sinnar starfsemi. Æskulýðssamband Íslands fær hækkað framlag, Ungmennafélag Íslands, Bandalag ísl. skáta, Íslenskir ungtemplarar, KFUM --- og hér er nýr liður, sr. Friðriks - kapella fær myndarlegt framlag til þess að ljúka byggingu á því mannvirki í nafni þessa merka og ástsæla leiðtoga æskulýðs og fleiri hópa í þjóðfélaginu.
    Íþróttasamband Íslands fær aukið framlag og sömuleiðis Ólympíunefndin og Skáksamband Íslands líka vegna húsnæðis síns hér í Reykjavík. Sömu sögu er að segja um Landssamband hjálparsveita skáta sem

fær aukið framlag og ekki gleymast utanríkismálin. Þar eru hin ýmsu mál tekin á dagskrá, þar á meðal samskipti við Vestur - Íslendinga sem er hið þarfasta mál.
    Um landbúnaðinn vil ég hafa sem fæst orð því að yfirleitt verður mér bumbult þegar ég hugsa um þá peninga sem þar renna í gegn, en þó vil ég stöðva aðeins við skógræktarmálin. Skógræktin og Landgræðslan fá hér ágæt framlög til þess að halda áfram því starfi uppbyggingar og ræktunar sem hafið er svo að við getum goldið landinu fósturlaunin fyrr eða síðar.
    Fangelsismálastofnun fær framlag og vinnuhælið að Litla - Hrauni, Almannavarnir ríkisins, og biskup fær framlag fyrir sérstök verkefni vegna 1000 ára afmælis kristnitöku í landinu, en kirkjan ákvað að minnast þeirra tímamóta, ekki með því að reisa stórt guðshús heldur með því að byggja upp safnaðarstarf hringinn í kringum landið og hefur verið ráðinn til þess sérstakur erindreki sem núna er festur í sessi á fjárlögum. Þá er merkileg nýbreytni hjá kirkjunni sem er ráðgjöf í fjölskyldumálum og má segja að það séu orð í tíma töluð því að oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn. Efnahagsástandið sem núv. ríkisstjórn tók í arf hefur því miður leitt til þess að gjaldþrot eru aldrei fleiri en nú og ekki veitir af því að hjálpa því fólki sem á í vök að verjast vegna fjármálanna og þeirra fylgikvilla sem fylgja peningalegri upplausn, gjaldþroti og öðru á heimilum.
    Eins hækkar framlag til Hallgrímskirkju og málefna fatlaðra. Sambýlið Austurbrún 17 fær myndarlegan pening vegna þess vandræðaástands sem þar hefur ríkt. Styrktarfélag vangefinna fær pening vegna vinnustofunnar sem rekin hefur verið hér í Reykjavík. Skálatúnsheimilið í Mosfellsbæ, Sólheimar og Tjaldanesheimilið, þessi þrjú heimili fá myndarlegt framlag. Slysavarnafélagið fær hækkað framlag, endurhæfingarstöð hjarta - og lungnasjúklinga, Hjarta- og æðaverndarfélag Akureyrar, Hjartavernd og héraðslæknirinn eða borgarlæknir í Reykjavík. Þroskaþjálfaskólinn og Samhjálp hvítasunnumanna, Stórstúka Íslands og fleiri aðilar fá hér einnig töluverða hækkun á sínum framlögum.
    Þá eru hér lagðir peningar til mengunarvarnabúnaðar í sjó, loftferðaeftirlits, tilkynningarskyldu íslenskra skipa, Slysavarnaskóla sjómanna og stuðningur er hér veittur við skipasmíðaiðnaðinn samkvæmt ákveðnu verkefni, iðnþróunar - og markaðsmál hækka og verkefnið Málmur 92 sem er samstarfsverkefni margra.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér talið upp nokkuð af því sem vel hefur verið gert í fjárlögum. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast á einn þátt fjárlaganna. Hér hefur verið lagt fram hvert erindið á fætur öðru sem kallar á útgjöld úr ríkissjóði án þess að á móti hafi verið sýnt fram á hvar eigi að taka tekjur til að mæta þessum útgjöldum. Ég hef því í dag lagt fram brtt. við 18. gr. laga um þingsköp þar sem segir að ekki megi taka á dagskrá mál sem kallar á útgjöld úr ríkssjóði nema flm. bendi á tekjur að sama skapi. Ég hef hér fyrir framan mig brtt. frá Kvennalistanum sem

er gott dæmi bæði um þessi röngu vinnubrögð og svo alveg einstakt misrétti. Hér eru sex liðir sem allir kveða á um sérréttindi kvenna umfram karlmenn í þjóðfélaginu, alls upp á rúmar 400 millj. sýnist mér, og hvergi er getið um að það þurfi nokkra peninga til að mæta öllum þessum útgjöldum.
    Virðulegi forseti. Eins og ég lofaði í upphafi þá skal ég hafa hratt á hæli hér í ræðustóli og ég þakka gott hljóð og kveð.