Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það breytast siðirnir. Klukkan er orðin 7 að kvöldi. Umræður halda hér áfram þó svo að komið sé fram yfir þann fundartíma sem venja er til að fresta umræðum fram á kvöld.
    Það er nú svo að þeir sem stjórna þessari stofnun hér, og ég tala nú ekki um Stjórnarráðinu, eru smátt og smátt að reka sig á að þingmenn telja ekki ástæðu til þess að hreyfa hér athugasemdum þar sem þeir ráðherrar sem maður þarf að tala við eru fjarverandi. Ég á erindi við hæstv. samgrh. Hann er ekki í húsinu. Ég á erindi við hæstv. menntmrh. Hann er heldur ekki í húsinu. Sennilega er ætlast til þess að við 2. umr. fjárlaga fái þingmenn ekki tækifæri til þess að ræða jafnvel um erindi sem þeir hafa sjálfir sent inn í fjvn. með öðrum þingmönnum kjördæmis og varða það frv. sem hér liggur fyrir.
    Nú er svo komið að óbreyttir þingmenn mega ekki spyrja einstaka nefndarmenn í fjvn. hvað málum líði. Formaður nefndarinnar bannar það að láta í té slíkar upplýsingar. Og það er komið svo að einstakir ráðherrar sjá ekki ástæðu til að sitja hér, enda hefur úrskurður forseta fallið um það að ástæðulaust sé fyrir einstaka þingmenn að spyrja ráðherra eða ríkisstjórn um upplýsingar um eitt og annað vegna þess að slíkt séu vinnuplögg og innanhússplögg ráðuneytis sem þingmenn hafi ekkert við að gera. Þannig er nú komið fyrir virðingu þessarar stofnunar sem við erum hér staddir í núna. Það er nú svo.
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort það hefur einhverja þýðingu að vera að standa hér í stólnum. Það hefur ekki borið árangur fram að þessu að hreyfa athugasemdum í þessari stofnun. Ég get því gert það að þessu sinni kannski að skrifa þessum mönnum til bréf þannig að athugasemdir mínar komist á framfæri. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem ekki ganga. Það er augljóst mál.
    Það hefur verið svo í þeirri þingnefnd sem ég hef starfað í, fjh.- og viðskn., að tekið hefur verið vel við ýmsum spurningum sem ég hef hreyft í sambandi við eitt og annað sem varðar bæði fjárlög og eins lánsfjárlög og má vera að hægt sé að reka málið frá þeim vettvangi. En með hliðsjón af því að hugmyndin með stjórn þingsins er ekki sú að þingmenn fái tækifæri til að láta í ljós sínar skoðanir og álitamál, hvort rétt sé að hafa enn aðrar aðferðir. Ég er nú að hugsa um að hafa ekki þann hátt á, heldur óska eftir því að náð sé í menntmrh. þannig að ég geti beint mínum fyrirspurnum til hans og óska eftir því að gera hlé á ræðu minni þangað til hann verður kominn hér í salinn. Ég óska einnig eftir því að fá hæstv. samgrh. hér í salinn. ( Forseti: Forseta þykir rétt að upplýsa hv. 2. þm. Norðurl. e. um það að hann er síðastur á mælendaskrá og stutt síðan hann kom á mælendaskrá þannig að það var útlit fyrir að þessum fundi lyki og ekki yrði þörf á kvöldfundi. En nú er sá forseti sem hér svarar í augnablikinu aðeins varaforseti og veit því ekki hvað aðalforseti vill gera í þessum efnum, hvort það verður þá nauðsynlegt að boða til kvöldfundar ef

sækja á tvo hæstv. ráðherra. Ég verð að biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að hafa biðlund á meðan sú sem hér er í forsæti ber sig saman við forseta Sþ.)
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki vitað til þess áður að það séu vandræði í kringum það í sambandi við 2. umr. fjárlaga að þingmenn geti spurt einfaldra spurninga um það hvernig mál gangi í nefndinni. Við þingmenn Norðurl. e. höfum skrifað fjvn. bréf og ég get ekki skilið hvaða vandamál þetta er. Ég hef ekki verið með neinar málalengingar hér. Ég hef óskað eftir því að fá að segja hér nokkur orð og fá svarað fyrirspurn og ég óska eftir því að það verði gert hlé á þessum fundi þannig að mér gefist tækifæri til að tala við ráðherra um þetta mál. Þetta er afskaplega einfalt. ( Fjmrh.: Má ekki spyrja fjmrh. og vita hvort hann getur svarað spurningunni?) ( Forseti: Forseti var aðeins að óska eftir því að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefði biðlund meðan varaforseti kannaði það hvort ástæða væri til að fresta þessum fundi á meðan verið er að sækja hæstv. ráðherra sem ekki eru í húsinu og hv. þm. óskar eftir að fá að tala við. Vill hv. þm. fresta ræðu sinni á meðan?)
    Hæstv. forseti. Ég skil ekki enn þetta vandamál. Það er venja að hæstv. fjmrh. svari þeim athugasemdum sem fram koma við 2. umr. fjárlaga. Hann hefur enn ekki tekið til máls. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er næstur á mælendaskrá.) Er hæstv. forseti að óska eftir því að ég gangi úr ræðustóli? ( Forseti: Ekki var forseti að óska eftir því, aðeins að benda hv. 2. þm. Norðurl. e. á að forseti gæti ekki svarað því hvort takist að ná í þessa tvo hæstv. ráðherra sem hann óskaði eftir þar sem þeir eru ekki staddir í húsinu. Þess vegna veit forseti ekki hvað það tekur langan tíma og spurði hv. þm. hvort hann vildi hafa biðlund á meðan forseti kannaði það. Það voru einungis þær óskir sem forseti bar fram.)
    Herra forseti. Ég óskaði eftir því að hæstv. menntmrh. kæmi hingað. Ég hélt satt að segja að það væri almenn venja fyrir því við fjárlagaumræðu að þingmaður hefði rétt til þess að fá ráðherra hingað og ef þeir eru ekki í þingsalnum, þá fengju menn að gera hlé á ræðu sinni.