Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. 2. umr. fjárlaga hefur nú staðið hér lengi dags og með hefðbundnum hætti hafa fulltrúar flokkanna allir talað í þessari umræðu. Ég hugsa nú að flestir fulltrúar í fjvn. séu ekki lengur hér í húsinu, enda hafði mælendaskrá verið óbreytt klukkutímum saman þar til hv. þm. Halldór Blöndal kvaddi sér hjóðs.
    Ég vil nú beina þeirri vinsamlegu spurningu til hv. þm. Halldórs Blöndals hvort ekki væri hægt að bera upp þær spurningar sem hann ætlaði að bera hér upp nú þannig að kanna megi hvort fjmrh. getur svarað þeim eða ekki. Ég held að hæstv. menntmrh. og hæstv. samgrh. séu báðir
það langt undan að það muni taka langan tíma að óska eftir því að þeir komi hingað til fundar þannig að ef eigi að verða við þeirri ósk þurfi að fresta fundi hér alllanga hríð og rugla þá dagskrá sem búið var að koma sér saman um, að atkvæðagreiðsla um fjárlög hæfist hér kl. 11 í fyrramálið, en mikill fjöldi þingmanna mun miða verk sín við þá ákvörðun.
    Ég vildi þess vegna spyrja hv. þm. hvort ekki sé hugsanlegt að annaðhvort beini hann spurningu sinni til fjmrh. eða bíði með spurninguna til 3. umr. þar sem öll mál sem menn á annað borð vilja taka upp er hægt að taka upp við 3. umr. Ég heiti því að beita mér fyrir því að hv. þm. fái góða greinargerð um þau atriði sem hann er að leita eftir svörum við.