Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja það að mér kemur mjög á óvart þessi mikla áhersla sem lögð er á það að ljúka hér þingfundi kl. 7. Auðvitað verða umræður um fjárlög að ganga sinn gang og það verkar eins og það sé eitthvað hálfpartinn uppáþrengjandi ef þingmaður óskar eftir að fá að tala hér í 10 mín. málefnalega um frv. til fjárlaga og fá svar við skriflegum bréfum sem hafa verið send fjvn., óskar eftir að fá að ræða við þá ráðherra sem málið heyrir undir. Þetta er mikilvægasta mál þingsins að sumu leyti og við vitum það að ekki er hægt að koma við breytingum á fjárlagafrv. nema meiri hl. fjvn. taki þær upp milli 2. og 3. umr.
    Ég vil í annan stað gagnrýna það sem ég hef gagnrýnt áður hér úr þessum stóli og það er sú ákvörðun forseta Sþ. að ætla þingmönnum það fyrir fram hvenær þeir vilji ljúka umræðu. Samkvæmt okkar starfsvenjum er fundarhlé gert kl. 7. Menn hafa gert ráðstafanir og menn eru kannski bundnir í kvöldmat. Á hinn bóginn eru þingmenn, þegar rætt er um fjárlög, viðbúnir því að mæta eftir kvöldmat, þannig að ég skil ekki þetta háttalag.
    Ég vil svo í þriðja lagi svara kurteislegri ábendingu fjmrh. með því að segja að það er kannski eina ráðið til þess að maður fái samband við þá sem ráða hér húsum og standa ábyrgir gagnvart nefndum þingsins og Alþingi að skrifa þeim bréf í staðinn fyrir að koma með fyrirspurnir hér í þinginu. Auðvitað er svigrúm til þess að ná í ráðherra og stefna þeim hingað klukkan hálfníu í kvöld. Auðvitað er svigrúm til þess. Og auðvitað hefði mátt búast við því að umræður gætu orðið um ræðu hæstv. fjmrh. ef menn byggjust við því að ræðan hefði innihald. En það má á hinn bóginn vera svo að við því sé ekki búist. En úr því að hæstv. fjmrh. biður svona kurteislega um þetta þá skal ég verða við þessari beiðni hans, að senda ráðherrunum bréf í staðinn fyrir að ávarpa þá hér í húsinu eins og rétt er samkvæmt þinglegum vinnubrögðum.