Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu þakka fjvn. fyrir þau störf sem hún hefur innt af hendi til að undirbúa fjárlagafrv. til 2. umr. Þessi tími hefur verið mikill annatími hjá fjvn., hún hefur auk þessa frv. haft til meðferðar fjáraukalagafrv. sem samþykkt var hér fyrir nokkru síðan. Ég tel einnig að fjvn. hafi haldið vel á málum og sýnt aðhald í ákvörðunum varðandi útgjöld. Þær tillögur sem hér eru kynntar hafa flestar verið unnar í samvinnu við fjmrn. og viðkomandi ráðuneyti og í alla staði hefur samvinna við fjvn. á þessum haust- og vetrarmánuðum verið hin ágætasta.
    Ég vil einnig taka undir ýmsar þær hugmyndir sem hér hafa komið fram hjá fjárveitinganefndarmönnum um breytt vinnubrögð og nýjar áherslur í meðferð fjárlaga og ríkisfjármála hér í þinginu. Mér fannst margt sem þar kom fram sýna að hugmyndir um nýja starfshætti á þessu sviði hafa hlotið aukinn byr á síðustu mánuðum, óháð því hvar í flokki menn standa.
    Það er líka vissulega rétt sem hér hefur komið fram hjá mörgum að það eru ærin vandamálin sem bíða á næstu árum, m.a. vegna þess að í góðæri fyrri tíðar tóku menn og stjórnvöld margvíslegar ákvarðanir sem byggðar voru á því að góðærin mundu halda áfram að vaxa ár af ári, skila sífellt meiri fjármunum sem hægt væri að ráðstafa. Nú hefur það hins vegar ekki gerst og erfiðir tímar eru að baki og í framtíðinni verður ærið verkefni að ráða fram úr mörgum af þeim vandamálum sem hér hafa verið tekin til umræðu.
    Ég vona svo að á milli 2. og 3. umr. takist að greiða úr þeim vandamálum sem eftir eru á þann hátt að þingið geti lokið umfjöllun fjárlaga í tæka tíð fyrir jólahátíð.