Fjárlög 1991
Föstudaginn 14. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Mér gafst ekki tækifæri til þess að vekja athygli á því bréfi sem hæstv. heilbrrh. gat um hér áðan, þar sem ekki var orðið við beiðni minni um að hæstv. menntmrh. yrði við 2. umr. fjárlaga í gær. Hér voru heldur ekki staddir, þegar ég tók til máls, formaður né varaformaður fjvn. þannig að erfitt var að beina fyrirspurnum til hæstv. menntmrh. eða fulltrúa í fjvn. eins og við þingmenn Norðurl. e. kusum að bera þetta mál upp sem hæstv. heilbrrh. hefur nú gert grein fyrir. Auðvitað er það óeðlilegt að þingmenn þurfi að vekja athygli á bréfi af þessu tagi við nafnakall í atkvæðagreiðslu. Eðlilegra hefði auðvitað verið að umræðan hefði getað gengið með eðlilegum hætti í gær.
    Jafnframt því sem vakin er athygli á þörfum Verkmenntaskólans á Akureyri bentu þingmenn Norðurl. e. á að fjárveiting til framhaldsskólans á Húsavík er svo skorin niður í frv. að með óbreyttu framlagi tekur tíu ár að endurgreiða greiðsluskuldbindingar ríkisins vegna stofnunar framhaldsskóla á Húsavík. Við vekjum athygli á að eðlilegt er að slík endurgreiðsla geti farið fram á 4 -- 5 árum. Ég vil vekja athygli hæstv. menntmrh. á þessu máli og biðja hann í allri vinsemd um að beita sér fyrir því að fjvn. verði við eðlilegum óskum allra þingmanna Norðurl. e., án tillits til þess í hvaða flokki þeir eru. Ég segi já við þessum lið.