Fjárlög 1991
Föstudaginn 14. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um styrk til blaðanna samkvæmt tillögum stjórnskipaðrar nefndar um það mál, 66 millj. 20 þús. kr. Þetta er ekki eini stuðningurinn sem dagblöðin fá samkvæmt fjárlagafrv. Einnig er gert ráð fyrir því að til útgáfumála skv. ákvörðun þingflokka verði veitt 27 millj. 380 þús. kr. Samtals gera þessir tveir liðir 93 millj. 400 þús. kr. Þá er gert ráð fyrir því, sem verið hefur um margra ára skeið, að ríkissjóður hafi heimild til að kaupa 250 eintök af blöðum fyrir ríkisstofnanir. Á þessu ári má það kosta 25 millj. kr. Enn fremur er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að heimild sé til að kaupa 500 eintök af dagblöðum til viðbótar samkvæmt því sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan að tillögu hv. 1. þm. Norðurl. v. Á þessu ári kostaði það 50 millj. kr. Þó gert væri ráð fyrir því að á næsta ári yrði engin verðhækkun á dagblöðum, þá kosta þessir tveir liðir 75 millj. kr. Er þá varið, ýmist til styrktar dagblöðunum eða til þess að kaupa dagblöð, skv. fjárlagafrv. eigi minna en 168,4 millj. kr.
    Ég tel að þetta sé of í lagt miðað við stöðu ríkissjóðs. Og ég tel að þessum peningum sé betur varið til ýmissa annarra mála en að styrkja útgáfu dagblaða sem sum hver eru þannig að fáir vilja lesa. Þau fyrirtæki sem stunda útgáfu á dagblöðum ættu að geta staðið undir sér sjálf af sínum lesendahópi og þeim sem vilja kaupa. Ég segi nei við þessum lið og ég mun taka síðar til athugunar þá liði er fara á heimildagrein er varða heimild til kaupa á 750 eintökum af dagblöðum. Ég segi nei.
    Liðir 09-999 119 -- 09-999 160 samþ. með 33 shlj. atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu
já:      LVJ, JHelg, JK, JónS, JúlS, KSG, KP, MF, ÓÞÞ, ÓÞG, PP, RA, RG, SighB, SkA, StG, StH, BVG, SvG, VS, AðB, AS, ÁrnG, GeirG, GuðmÁ, GB, GGÞ, GuðnÁ, HÁ, HG, JE, JóhS, GHelg.
    KrP, KE, MB, MálmS, ÓE, PJ, SV, ÞP, ÞK, ÞÞ, AÓB, DS, EH, EKJ, FÞ, FrS, GHG, GJH, HBl, IBA greiddu ekki atkvæði.
    10 þm. (JSS, MÁM, RH, SalÞ, ÁHE, BÍG, EgJ, EG, GHH, HJ) fjarstaddir.
    1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu: