Fjárlög 1991
Föstudaginn 14. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og er ætlað að hafa með höndum endurskoðun á fjárreiðum fjmrn. og ríkissjóðs í heild. Mér finnst með öllu óeðlilegt að Alþingi setji það í heimildagrein og í vald fjmrh. hvernig búið sé að Ríkisendurskoðun. Það er Alþingis sjálfs að ákveða með beinum framlögum úr ríkissjóði hvernig að þessari stofnun er búið. Ég get undir engum kringumstæðum fellt mig við þennan lið. Mér finnst hann stangast á við hugmyndir okkar um þrískiptingu valds og raunar mjög óviðurkvæmilegur í víðasta skilningi þess orðs. Ég beini því til fjvn. að taka þennan lið upp sem beina fjárveitingu til kaupa á húsnæði vegna Ríkisendurskoðunar og sýna nú svolitla reisn í sínum störfum. Ég segi nei.