Veiting ríkisborgararéttar
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 277 um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Það er gerð tillaga um að 53 aðilum verði nú á þessu haustþingi veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Í öllum þessum tilvikum uppfylla aðilarnir þær reglur sem allshn. Nd. samþykkti á sínum tíma, en sú hefð hefur skapast að afgreiða ekki fyrr en á vorþingi þau vafamál sem upp koma. Hins vegar var gerð veigamikil undantekning nú og allshn. Ed. samþykkti svohljóðandi frávik:
    Samkvæmt venju hafa formenn allshn. farið yfir fram komnar umsóknir ásamt ritara nefndanna og gert tillögu um hverjir skuli öðlast ríkisborgararétt. Hefur þeirri verklagsreglu verið fylgt að taka eingöngu upp í frv. sem lagt var fyrir að hausti þær umsóknir sem uppfylla öll skilyrði en láta vafamál bíða vorsins. Vegna hins ógnvænlega ástands sem nú hefur skapast við Persaflóa eru þó gerðar þrjár undantekningar frá reglum nefndarinnar. Lagt er til að þrír erlendir menn, sem giftir eru íslenskum ríkisborgurum og eiga börn sem eru íslenskir ríkisborgarar og jafnframt eru búsettir með fjölskyldum sínum á hættusvæði, öðlist íslenskt ríkisfang. Til þess gæti komið að þessar fjölskyldur þurfi að flýja heimili sín og er nauðsynlegt að tryggja að fjölskyldur verði ekki viðskila vegna mismunandi ríkisfangs. Lagt er til að frv. verði samþykkt með breytingunni sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Það er sagt álit nefndarmanna að þrátt fyrir þessar reglur og þá venju sem skapast hefur skuli veita þremur umsækjendum, sem eru Arabar, rétt á ríkisfangi þó svo að umsóknirnar uppfylli ekki að öllu leyti þau skilyrði sem nál. á sínum tíma mælti fyrir um.
    Undir nál., sem er svohljóðandi: ,,Lagt er til að frv. verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.``, rita: Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Salome Þorkelsdóttir, Skúli Alexandersson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson.