Opinber réttaraðstoð
Föstudaginn 14. desember 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hef einnig skrifað undir nál. við það frv. sem hér er til umræðu um opinbera réttaraðstoð. Eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl. er hér um að ræða mikilvægt mál og ég held að það hljóti allir að geta verið sammála um að það sé til bóta að setja þessi lög sem hér er verið að fjalla um. Vandamálið var kannski fyrst og fremst varðandi þriðja lið brtt., þ.e. að ákveða tekjuskattsstofn einstaklinga sem njóta þessarar aðstoðar. Þessar 850 þús. kr., sem í frv. er gert ráð fyrir fyrir einstaklinga, voru nokkuð að vefjast fyrir okkur, og fyrir hjón eða sambúðaraðila 1 millj. 275 þús. kr. Við ræddum þetta nokkuð mikið og ég held ég megi segja að við höfum fallist á sjónarmið þeirra aðila, sem komu á fund nefndarinnar og höfðu samið þetta frv., að það væri betra að fara sér hægt og það væri auðveldara að hækka þessi mörk síðar meir heldur en ef í ljós kæmi að þau væru of há og það þyrfti að fara að breyta þeim til lækkunar. Þess vegna varð þessi niðurstaða. Ég held að það sé mikilvægt að það fáist reynsla á hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Þá er hægt að taka þetta til skoðunar síðar meir og breyta eftir þeirri reynslu sem verður.
    Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv. Ég vil aðeins ítreka það að ég held að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða og það má bæta því við varðandi gjafsóknina að það er áreiðanlega til bóta að settar séu skýrar reglur varðandi þann þátt.