Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh. - og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Mér leiðist að verið sé að gera lítið úr ríkislögmanni, eins og mér fannst hv. 1. þm. Reykv. vera að gera hér áðan. Með áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. er prentuð grg. ríkislögmanns sem hann lagði fram í prófmáli BHMR. --- Mig langar að biðja hv. 1. þm. Reykv. að hlýða á mál mitt. Mundi forseti deildarinnar biðja hann að vera inni? ( FrS: Ég er inni.) Það er skilmerkilega tekið fram að um grg. sé að ræða. --- Það er ómögulegt að halda manninum inni. Hann er með æðiber í rassinum. ( FrS: Ég er inni og er að hlusta á hv. þm. Svo sjaldan tekur hann til máls að það er ástæða til að hlusta á hann.)
    Það er skilmerkilega tekið fram í þessu nál., í fyrirsögninni á fskj., að hér sé um grg. að ræða og hún er orðrétt prentuð. Mér finnst það ekki smekklegt að ímynda sér það að það sé eitthvað annað en skoðun ríkislögmanns sem þarna er prentuð. Mér finnst þetta mjög viturleg grg. og þess vegna kaus ég að óska eftir því að hún yrði prentuð með nál. sem fskj. Eftir lestur þessarar grg. sér hvert barn að ekki getur verið um stjórnarskrárbrot að ræða, eins og menn hafa verið að kasta hér á milli sín. --- Það er hart að geta ekki hamið hv. þm. í salnum. --- Ég tel að eftir lestur þessarar grg. orki það ekki tvímælis að hér hefur verið farið að stjórnarskránni.
    Það er hárrétt sem hv. 1. þm. Reykv. hafði eftir Eiríki Tómassyni lögfræðingi sem mætti á fund nefndarinnar í morgun, enda er hv. 1. þm. Reykv. oftast nær samherji sannleikans, eins og sagt var um annan flokksbróður hans. Hann rakti ýmislegt af því sem Eiríkur Tómasson sagði við nefndina. Eiríkur Tómasson ítrekaði það að hann hefði komið að þessu máli sem flokksmaður forsrh. og með lögfræðilega sérþekkingu, en hann hafi ekki samið formlega álitsgerð gegn þóknun. Það var ekki þar með sagt að hann væri neitt að hverfa frá skoðunum sínum. Hann gaf það lögfræðilega álit að bráðabirgðalögin stæðust fyrir almennum dómstólum og taldi ekki líklegt að dómstólar mundu hrinda lögunum, enda fordæmi mörg fyrir svipaðri málsmeðferð.
Almennir dómstólar geta ekki tekið fram fyrir hendur bráðabirgðalöggjafans um það að meta hvenær bráðabirgðalaga er þörf. Það er pólitískt mat á hverjum tíma. Hann minnti líka á dæmi þessa sem hafa nú kannski orkað miklu meira tvímælis en þessi bráðabirgðalagasetning þar sem þjóðarheill var í veði. Einu sinni voru meira að segja sett bráðabirgðalög um formann barnaverndarnefndar þannig að hægt væri að skipta um formann barnaverndarnefndar.
    Jafnframt vitnaði Eiríkur Tómasson til línurits sem birtist í Morgunblaðinu þann 9. des. um tíðni bráðabirgðalagaútgáfu á undanförnum áratugum. Og það kemur í ljós að þessi ríkisstjórn hefur verið miklu hófsamari en flestar eða allar aðrar ríkisstjórnir í útgáfu bráðabirgðalaga og fyrir það megum við svo sem vera þakklát því að auðvitað er það neyðarúrræði að þurfa að grípa til útgáfu bráðabirgðalaga og best að

þurfa ekki að gera það.
    Eiríkur Tómasson benti nefndinni á að ef ætti að grípa fram fyrir hendur bráðabirgðalöggjafans væri hugsanlegt að Landsdómur gæti átt þar orð um. Ekki væri hægt að fortaka það að svona gerningar gætu komið fyrir Landsdóm en almennir dómstólar mundu mjög ósennilega hrinda þessu.
    Það hefur verið taktík þeirra sjálfstæðismanna nú eftir frumhlaupið um bráðabirgðalögin að reyna að fara út í lögfræðilegar hártoganir á gildi þeirra til þess að reyna að breiða yfir það tilræði sem þeir urðu sekir um við þjóðarsáttina og þau mistök sem hluti Sjálfstfl. gerði í meðferð málsins. Þessa þjóðarsátt má ekki rjúfa og við verðum að kappkosta að halda hana. Aðgerðir verða að sjálfsögðu á hverjum tíma að styðjast við lög, eins og þær hafa gert í höndum núv. ríkisstjórnar. Um það verður ekki deilt.
    Varðandi afnám bráðabirgðalagavalds þá held ég að það sé ekki unnt að gera að óbreyttum starfsháttum í Alþingi. En það er hægt að breyta stjórnarskrá og þingsköpum þannig að unnt sé að afnema eða takmarka mjög útgáfu bráðabirgðalaga. En það verður ekki gert nema með því að málsmeðferð hér á Alþingi verði skjótvirkari þannig að nauðsynlegri lagasetningu geti verið hraðað í meðferð þingsins og fljótlegt að kveðja saman þing. Þingið verður að vera í einni málstofu og tímatakmarkanir ef um mjög aðkallandi mál væri að ræða. Ég er alveg til með að fallast á mikla takmörkun á bráðabirgðalagarétti ef unnt væri að kveðja þing saman með örstuttum fyrirvara eða jafnvel að hafa það eins og sumar þjóðir gera, að leysa þing ekki upp fyrr en bara daginn fyrir samkomudag þannig að þingið væri raunverulega tilbúið að koma til fundar allan ársins hring.
    Hv. 1. þm. Reykv. gat einnig um skýrslu sem Bjarni Bragi Jónsson gaf fyrir nefndinni. Þar sagði reyndar rétt frá þótt hann gleymdi sumu af því sem Bjarni sagði, enda er það kannski ekki óeðlilegt. Röksemdir Bjarna voru þær að þeir hefðu litið svo á í hagfræðideild Seðlabankans að launahækkanir mundu tefjast, fyrirstaða yrði í gengismálum, dómsdagur yrði ekki í september. Þeir voru að miða sitt álit við hvað hefði skeð um sumarmál og treystu á það að ASÍ og VSÍ mundu spyrna við fótum ásamt ríkisstjórn en tók það svo fram í niðurstöðu sinni að auðvitað stæði hann að áliti bankastjórnarinnar sem sá sig tilneydda að birta athugasemd við bréf hagfræðideildar. Hann tók það líka fram að þeir hefðu ekkert hugsað út í lánsfjárvísitöluna hjá hagfræðideildinni. Hún hækkar náttúrlega töluvert mikið í kjölfar þessara aðgerða.
    Ég held að ég sé sammála hæstv. forsrh. um það að ég kenni í brjósti um forustu Sjálfstfl., ekki fyrir það að þar skuli leynast skynsamir og samviskusamir menn innan um. Ég kenni í brjósti um forustu Sjálfstfl. fyrir það frumhlaup, sem hún gerði sig seka um fyrir alþjóð, að ráðast til atlögu við þjóðarsátt.