Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þá er nú að koma að leiðarlokum þessa hrapallega og válega máls hér í Nd. Ég segi hrapallega vegna málsmeðferðarinnar allrar en válega vegna þess að ef þessi bráðabirgðalög eru staðfest hér á Alþingi gefa þau mjög hættulegt fordæmi.
    Þó að lög með einum eða öðrum hætti á kjarasamninga séu illréttlætanleg skera þessi lög sig úr. Það hefur í rauninni ekkert komið fram sem sannfærir, a.m.k. þá sem hér stendur, um það að eitthvað hafi breyst eða komið í ljós frá því í febrúar að þjóðarsáttin er gerð þangað til bráðbirgðalögin eru sett 3. ágúst.
    Það er líka mikill munur á því að setja lög sem banna breytingar á samningum eða nýja samninga, þó að ég sé ekki að mæla því bót, eða setja lög sem breyta þegar gerðum samningum. Ég tala nú ekki um þegar þeir eru komnir til framkvæmda. Það virðist vera mál manna að í þeim málaferlum sem nú eru í gangi fyrir bæjarþingi greini menn á um það hvort þessi aðgerð standist lög eða ekki. Það sé þá helst að gagnvart 67. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotið, þ.e. greininni sem tekur til verndunar eignarréttar, þar sem þarna hafi verið teknar til baka launahækkanir sem þegar voru komnar til framkvæmda. Eftir því sem ég kemst næst hefur slíkt einu sinni gerst áður. Það mun hafa verið árið 1958 sem laun voru lækkuð með lögum en þá var verðlag lækkað líka. Það er því eins og ég segi mikill munur á að banna hugsanlegar breytingar eða taka til baka breytingar sem þegar hafa orðið.
    Það er líka fyrirsláttur þegar því er haldið fram að þessi lög nái til ekki lítils hóps fólks. Þau breyttu nákvæmlega engu fyrir þá sem þegar áttu aðild að þjóðarsátt og tóku ekki til þeirra félaga sem höfðu samninga lausa. Ég get ekki betur séð en að í 3. gr. bráðabirgðalaganna sé kveðið á um það að BHMR geti því aðeins sagt upp sínum samningum að BSRB geri það fyrst. Fyrir utan það að þessi lög fella líka úr gildi ákvæði úr samningum BHMR. Það er því einungis yfirvarp þegar er verið að tengja þetta öðrum og láta í veðri vaka að þetta taki til allra.
    Það hefur aldrei komið fram hvernig á því stóð að tilboði BHMR, sem gert var 27. júlí um það að fella út 15. gr. kjarasamnings BHMR og ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið var á um víxlverkunaráhrifin, var ekki tekið. Þar með hefði sá fasti punktur verið kominn út úr þeim samningi og þá var boltinn hjá ASÍ og VSÍ. Auðvitað er ekki hægt að fullyrða neitt um það, en manni finnst það nánast ótrúlegt að þeir aðilar sem höfðu samið um þjóðarsátt mundu léttilega leyfa verðbólgubálinu að kvikna aftur. Að þeir hefðu þá ekki spyrnt við fótum og látið heldur þennan litla hóp, fjögur þúsund manna hóp, fá það sem þeir höfðu þegar um samið og undirritað en að kveikja aftur verðbólgubálið, og bíða frekar til haustsins þegar samningar eru lausir hvort sem er, þegar ljóst er auðvitað, eins og fram kom hér m.a. í máli hv. 1. þm. Reykv., að ýmsir aðilar þjóðarsáttar munu láta til skrarar

skríða.
    Það má halda áfram með vangaveltur af þessu tagi. Hefðu ASÍ og VSÍ, sem ekki höfðu neitt að standa á nema orð um það að í samningnum milli ASÍ og VSÍ væri tekið mið af að launaþróun annarra yrði sú sama og gert er ráð fyrir í samningi þessum, þetta ákvæði er ekki nærri eins sterkt og ákvæðið í BHMR - samningnum sem er dagsettur og meira að segja er kveðið á um alveg ákveðið hvernig það sem til framkvæmda skyldi koma 1. júlí skuli vera, frekar viljað láta allt fara í gang á ríkisstjórn sem er svona galvösk við að setja lög á kjarasamninga, jafnvel í formi bráðabirgðalaga, auðvitað með það vopn uppi í erminni t.d. að setja bara lög á VSÍ og banna þeim að greiða þessar launahækkanir og standa frekar við þann samning sem hún hafði sjálf undirritað við BHMR?
    Það er sérkennilegt að í öllu því tali um frelsi, sem er að vísu mismunandi vel ígrundað, skuli svona stjórnaraðgerðir vera notaðar og varðar. Fáir tala um það meira hér á hinu háa Alþingi en einmitt þeir sem áður aðhylltust stjórnunaraðferðir sem notaðar voru austan járntjalds, að þær aðferðir hafi sýnt sig vera ónothæfar og skyldu aflagðar alls staðar. Á sama tíma og sífellt er talað um að við þurfum að aðlaga okkur efnahagsástandi nágrannalanda okkar, gera okkur gildandi í samfélagi þjóðanna, eins og það heitir gjarnan, hika menn ekki við að takmarka þetta frelsi með lögum þegar þeim býður svo við að horfa þannig að tvískinnungurinn í frelsistalinu er nú nokkuð gagnsær. Hann virðist fyrst og fremst taka til frelsis fjármagns, frelsis peninga og viðskipta en virðist harla lítið koma frelsi launþega við.
    Það var ýmislegt sem ástæða hefði verið til að gera athugasemd við í máli hæstv. fjmrh. við 2. umr. en ég ætla ekki á þessu stigi að fara að munnhöggvast mikið um hans orð. Hann notaði mörg orð til þess að lýsa því hversu vel honum gengi að vinna með BHMR - fólki og semja við það fólk og tók mörg dæmi þar að lútandi. Varla gat maður skilið orð hans öðruvísi en svo að drjúgur tími hans til að byrja með hefði farið í það að hlusta á umkvartanir um það hvað fyrirrennarar hans hefðu staðið sig illa og hve erfitt hefði verið að eiga samskipti við þá. Sérstaklega vakti athygli mína hve hann beindi spjótum sínum aftur og aftur að hæstv. utanrrh. og tilgreindi sérstaklega hvað hann hefði verið erfiður viðsemjandi. Smekkleysi af þessu tagi verður hæstv. ráðherra auðvitað að eiga við sjálfan sig en skelfing eru þetta lítilmannlegar aðferðir til þess að reyna að breiða yfir eigin þvermóðsku og þvergirðingshátt sem hefur einkennt öll hans verk í samningagerð. En ef menn hafa ekki smekk til þess að sýna trúnað einu sinni meðan þeir standa í samstarfi er kannski ekki að von á góðu framhaldi.
    Hann tók sem dæmi um ágæti verka sinna að við dýralækna hefði verið gerður sérkjarasamningur og varpaði því fram sem hugmynd hvað það gæti nú verið skynsamlegt. Hann tiltók reyndar þrjár hugmyndir sem hann hefði varpað fram til BHMR - fólks sem hægt væri að notast við. Sérkennilegt er ef hann kallar bókun við samning BHMR og ríkisins sérkjarasamning. Sannleikurinn er auðvitað sá að þarna er einungis um að ræða bókun sem tók til vaktafyrirkomulags og greiðslu fyrir þær vaktir en ekki til kjarasamningsins sjálfs. Þetta er eitt dæmi um hvernig hæstv. ráðherra tilreiðir staðreyndir eftir því hvernig hentar hverju sinni. Það kemur svo sem engum á óvart því það gerir hann hér alltaf og ævinlega.
    Þessi aðgerð í sumar hefur svo sannarlega vakið mikla umræðu um notkun bráðabirgðalagaheimildar stjórnarskrárinnar og hér hefur nú hver þingmaðurinn á fætur öðrum lýst því yfir að hafi þeir ekki verið sannfærðir um það fyrr þá séu þeir það nú, að það beri að afnema þessa heimild eða a.m.k. takmarka hana verulega. Ég vil þá benda hv. þm. á það, ef það hefur farið fram hjá þeim, að hér er einmitt til meðferðar í þinginu frv. Kvennalistans um þetta efni svo þeim gefst kostur á að láta þennan vilja sinn í ljós.
    Það sem líka vekur óhug varðandi þetta mál allt er hvernig ýmsir úr verkalýðshreyfingunni hafa gengið fram fyrir skjöldu og lagt blessun sína yfir þessi vinnubrögð. Ber þó að taka fram að fjöldi verkalýðsfélaga mótmælti þessari aðgerð í sumar en því er ekki að leyna að aðrir hafa mælt henni bót. Undrast maður slíka skammsýni að menn sem fara fyrir öðrum skuli ekki óttast afleiðingar þess að styðja svona gerðir og skuli ekki íhuga hvert spjótin beinist næst. Hvort þau muni hugsanlega beinast að þeirra eigin umbjóðendum og hvort þeir verða þá jafnsáttir við svona aðferðir.
    Strax 12. júní þegar hæstv. forsrh.
sendi BHMR bréf þar sem tilkynnt var einhliða að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að standa við samninginn vöruðum við kvennalistakonur í ályktun við einmitt þessu og bentum á að menn skyldu líta í eigin barm og íhuga hvort þeir vildu taka við svona spjótum sjálfir.
    Ég sagði þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu í gær í atkvæðagreiðslunni um þetta mál að engin rök, ekki einu sinni efnahagsleg rök, væru gild í þessu máli. Eiríkur Tómasson sem hefur nokkuð komið hér við sögu í dag orðaði það einmitt þannig á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að spurning væri hvort ekki yrði heldur að þola verðbólgu í nokkra mánuði en ganga út á ystu nöf allra réttarvenja og stjórnskipunarlaga.
    Hv. þm. Geir Gunnarsson talaði í eftirminnilegri ræðu við 2. umr. um þetta mál um að þessi bráðabirgðalög virtust sett undir þeim formerkjum að tilgangurinn helgaði meðalið. Hann lætur þarna í ljós nákvæmlega sama ugg og við gerðum í okkar ályktun. Spurningin er auðvitað hversu langt er hægt að ganga og hvenær stjórnvöldum, sem komast upp með svona aðgerðir, finnst nóg að gert, hversu lengi þau munu segja að tilgangur helgi meðal og hvað langt verður gengið.
    Í þessari deild hafa orðið nokkrar sviptingar fram og til baka í því hverjir mundu styðja þetta frv. og hverjir ekki og hefur ýmislegt komið á óvart. Einn er þó sá þingflokkur sem ekki hefur tekið neinum sviptingum eða tímabundnum sveiflum í þessu máli. Við kvennalistakonur höfum frá fyrsta degi verið himinhrópandi ósammála svona aðferðum og höfum verið það áður og höfum andmælt því í hvert skipti sem það hefur komið til að lög væru sett á launafólk með þessum hætti. Við gerðum þetta m.a. að fráfararatriði í ríkisstjórnaraðild einmitt í þessari stjórn sem nú situr, haustið 1988. Þessi afstaða er því ekki einskorðuð við þetta eina mál þó okkur þyki að sönnu það alvarlegra en önnur lög svipaðs eðlis sem hafa verið sett undanfarið. Stjórn sem hefur feril sinn með þeim hætti að framlengja lög um bann við kjarasamningum og ætlar síðan að ljúka honum með svipuðum hætti á ekki skilið langlífi. Þó undrast maður í þessari umræðu sem orðið hefur um málefni BHMR og bráðabirgðalögin hvað margir virðast ginnkeyptir fyrir skammtímarökum og sjá ekki út fyrir þetta eina atriði, hvort einhver einn hópur hefur samið um eitthvað örlítið meiri launahækkun en einhver annar fær. Manni finnst þetta því miður vera válegt merki um mjög vanþroska lýðræðishugsun eða skilning. Og það er manni vissulega umhugsunarefni hvers vegna svona er komið, eða höfum við kannski aldrei náð meiri lýðræðisþroska en þetta? Erum við ekki lengra komin á brautinni? Vissulega er margt sem bendir til þess að það skorti mjög mikið á skilning hér á landi á því hversu dýrmæt þessi lýð- og mannréttindi eru. Veldur eflaust margt. Við höfum ekki notið þessara mannréttinda lengi. Það er ekki langt síðan við fengum þessi réttindi og ef til vill má leiða að því rök að okkur skorti eitthvað í ferlinum. Barátta Íslendinga var fyrst og fremst sjálfstæðisbarátta. Áður en sú barátta hófst hér að nokkru marki hafði þegar hafist í Evrópu og staðið um langa hríð mjög mikil mannréttindaumræða. Þau mannréttindi og lýðréttindi sem við njótum í dag eru afrakstur aldalangrar baráttu íbúa Evrópu og síðan Norður-Ameríku. Ef til vill fengum við öll þau réttindi of léttilega og íhuguðum ekki hversu mikla baráttu það hafði kostað að fá þau og ef til vill umgöngumst við þau þess vegna svona léttilega í dag. En ég vona sannarlega að sú umræða sem hefur skapast í kringum þessi lög verði þó til þess að fólkið í landinu fari að íhuga þessi mál betur og dýpra og þegar það gengur að kjörborði næst láti það virkilega ráða sinni för þar hvort því finnist lýð- og mannréttindi einhvers virði eða hvort stundargróði eins umfram annan er meira virði.