Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Ragnhildur Helgadóttir :
     Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. 12. þm. Reykv. sérstaklega fyrir þann kafla ræðu hennar sem fjallaði um tengsl þessa máls við grundvallarmannréttindi. Þetta er hlutur sem við hugsum allt of sjaldan um. Slík verðmæti eru ekki sjálfgefin. Um þau þarf sannarlega að standa vörð og gera sér grein fyrir hættumerkjum. Það er alveg ljóst að þau hættumerki eru nú hátt á lofti og hærra en svo að það geti glatt nokkurn þingmann, sem verulega hugsar sérstaklega um þau mál, að fylgjast með því sem gerst hefur á Alþingi nú síðustu dagana. Ég held, herra forseti, að þessir dagar sem við nú upplifum séu afar dimmir í fleiri en einum skilningi. Það er ekki aðeins skammdegið sem grúfir yfir í kringum okkur. Það eru heldur myrkar fréttir sem berast frá Alþingi nú þessa dagana og reisn þess heldur lítil.
    Því miður hefur það gerst hér að þau lög sem við höfum fjallað um og fela í sér bæði siðferðisbrot, sennilega stjórnarskrárbrot og óvirðingu fyrir mannlegum góðum samskiptum, hafa nú fengið fulltingi meiri hluta þingmanna í neðri deild Alþingis, a.m.k. til að ganga til 3. umr. En ég leyfi mér að vona að það geti verið svo, eins og stundum gerist með frv. hér á Alþingi, að menn láta gott heita eða afskiptalaust að þau gangi til 3. umr. en taka svo endanlega afstöðu með eða móti við lokaafgreiðsluna. Þess vegna leyfi ég mér að vonast til þess, hafandi það í huga að veður hafa skipast í lofti nokkrum sinnum að því er varðar afstöðu margra hv. þm., bæði sjálfrar ríkisstjórnarinnar, ýmissa ráðherra og hv. þm. úr stjórnarliðinu, svo og stjórnarandstæðinga, að það geti enn farið svo að þessi lagaómynd, ef ég má svo segja, þessi bráðabirgðalög sem eru Alþingi og ríkisstjórn og lýðræðinu til skammar, verði nú allt að einu felld. Það sem ég hér segi, herra forseti, eru ekki einungis stóryrði sögð vegna almennrar reiði út í ríkisstjórnina. Þau eru hér mælt vegna þess að af döprum huga hef ég hugleitt þá framvindu sem gæti orðið í stjórnarfari landsins ef svo heldur sem horfir.
    Við erum að fjalla um frv. til laga um launamál sem prentað var á þskj. 40 og þar eru í heild prentuð hin frægu bráðabirgðalög ásamt formála þeirra. Það kemur strax fram í annarri línu þessa formála að rökstuðningurinn fyrir þessum bráðabirgðalögum varðar ekki efni málsins sjálfs. Rökstuðningurinn er sá að það liggi fyrir að hækkanir geti orðið á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e. að Vinnuveitendasamband Íslands hafi ákveðið að veita viðsemjendum sínum sömu hækkun launa og félagar í BHMR mundu fá eftir samninginn við ríkisstjórnina. Þá skyldu menn ætla að áframhaldið væri að bráðabirgðalögin snerust um það efni en þau gera það ekki. Þau snúast um samning sem hæstv. ríkisstjórn gerði við annan aðila. Og þennan grundvöll kallar hæstv. ríkisstjórn þjóðarsátt.
    Ég verð að viðurkenna að ég tel það vera klókindi sem alveg eru með ólíkindum að það skuli hafa tekist með svo miklum árangri að fá fjölda manna til að taka undir að hér hafi verið gerð þjóðarsátt. Það er

einfaldlega rangt. Það hefur engin þjóðarsátt verið gerð. Hvað er þjóðarsátt? Það er eitthvað sem öll þjóðin og hin ýmsu öfl sem vegast á í þjóðfélaginu sættast á. Og hver gæti verið á móti slíkri þjóðarsátt? Auðvitað enginn nema illmenni. En við erum ekki að tala um þjóðarsátt. Við erum að tala um afbökun og útúrsnúning á því orði sem hæstv. ríkisstjórn hefur leyft sér að nota og náð furðu góðum árangri í. Hitt er hins vegar alvarlegra hve margir hafa gleypt það hrátt að sá gerningur sem hér er verið að ræða um sé samsamaður þessum undarlegu bráðabirgðalögum því ef við skoðum enn og aftur formálann og rökstuðninginn fyrir bráðabirgðalögunum, sem er sá að það standi til að veita öðrum aðilum hækkanir svipaðar og þær sem ríkisstjórnin hefur samið um við sinn samningsaðila, ekki þann sem ákvörðunin fjallar um, og hin brýna nauðsyn sem ríkisstjórnin telur vera fyrir hendi, þá hljótum við að hugsa um það: Um hvað fjallar þá þessi þjóðarsátt? Hún fjallar um að tveir samningsaðilar semja um það við þriðja aðila að hann svíki fjórða aðila. Það er þjóðarsáttin. Í því felst hin brýna nauðsyn sem sjálf ríkisstjórnin telur vera til að gefa út bráðabirgðalög. Ef þetta er ekki siðferðisbrestur veit ég ekki hvað það er. Þetta er alvarlegur brestur á pólitísku siðgæði og alvarlegur brestur á siðgæði í samskiptum vinnuveitenda við starfsmenn sína, í þessu tilviki ríkisstjórnarinnar í samskiptum við BHMR.
    Nú er það svo að fjöldi manna segir: Það er líklega búið að hlaða nóg undir þetta fólk í BHMR. Það er búið að kosta langt nám fyrir þetta fólk og svo krefst það hárra launa. Menn tala um að slíkt sé ósvinna. Það er alveg ljóst að meðal margra er þessi hópur síður en svo vinsæll, a.m.k. hefur það verið helst að heyra í umræðu um þetta mál oft á undanförnum vikum. Hér er um að ræða um þrjú þúsund manna hóp sem sennilega býr yfir meiri þekkingu en nokkur annar þrjú þúsund manna hópur í þjóðfélaginu.
    Hæstv. forsrh., sem sennilega heyrir ekki það sem ég er að segja, enda er honum orðið rétt sama um það hvað hv. þm. segja um þetta mál og jafnvel önnur líka, hefur stundum talað um það á hátíðlegum stundum og ég á von á því að það heyrist í áramótaávarpi jafnvel núna eftir nokkra daga að engin auðlind sé verðmætari en atgervi fólksins í landinu og sú þekking sem það býr yfir og hugvitið sem unnt er að virkja með rannsóknum og veitingu þekkingarinnar út í atvinnulífið og til þess að auka atgervi þeirra sem á eftir koma. Kannast nokkur hv. þm. við þessa ræðu? Ó já. ( Gripið fram í: Eða 1. des.?) Eða 1. des. Ég þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir ábendinguna, enda hefur hún, eins og fleiri, tekið eftir því sem þar var sagt. Menn tala um auðlindir í iðrum landsins. Við tölum um auðlindir í hafinu í kringum landið. Við tölum um þýðingu þess að geta virkjað auðlindir til þess að afkoma fólksins í landinu geti orðið bærileg á komandi árum. Og hvernig virkjum við þessa auðlind sem býr í atgervi fólks og þekkingu þess? Allar auðlindir þarf að virkja, m.a. með því að veita til þeirra

fjármagni. Og það fjármagn sem er veitt til þessarar auðlindar, sem er þekkingin sem fólkið í landinu býr yfir, því er varið til þess að bæta aðstöðu þess, til þess að virkja þekkinguna, til þess að auka hana og þar með að bæta hag þjóðar sinnar, með öðrum orðum með launum og vinnuaðstöðu.
    Ég hef kosið, herra forseti, að víkja nokkuð að þessum þætti máls. Mér er það ljóst að þessi þáttur málsins hefur ef til vill ekki verið mjög mikið ræddur í sambandi við þetta frv. en ég geri það vegna þess að svo mótsagnakennt er það að einmitt þessi hópur á í fæstum tilvikum í nokkurt annað hús að venda en til ríkisins sjálfs með vinnu sína. Og ríkisvaldið, þ.e. ríkisstjórnin og fyrst og fremst fjmrh., misnotar þessa aðstöðu með því að ekki einungis brjóta samning heldur setja lög gegn eigin samningi, gegn þessu fólki, gegn dómsniðurstöðu um rétt þessa fólks sem ekki á í annað hús að venda. Og í áramótaávarpinu og 1. des. munu
viðkomandi ráðherrar segja að ekkert verðmæti sé meira fyrir þjóð okkar og framtíð en nákvæmlega sams konar þekking og þetta fólk hefur með atgervi sínu og vissulega áhuga og aðstöðu í þjóðfélaginu, það sem veitt er með stuðningi við skólakerfi og lánakerfi og slíkt. Vissulega hefur það aflað sér þessarar þekkingar og aukið þetta atgervi sem er ein traustasta auðlind sem við eigum völ á í framtíðinni, eins og reyndar hingað til. Það er þetta sem ég á við þegar ég tala um að það sé hróplegt ranglæti og siðferðisbrestur af hálfu vinnuveitanda, þ.e. ríkisins, í samskiptum við starfsmenn sína því að þeir eiga ekki í annað hús að venda um vinnu á sínu ættlandi. Þetta segir svo ríkisstjórnin að sé gert til þess að staðfesta þjóðarsáttina.
    Frá mínu sjónarmiði séð er slík gerð, sem fólgin er í lögum og aukin heldur bráðabirgðalögum með þessum afleiðingum, ekki þjóðarsátt heldur þjóðarskömm. Ég hvet mjög eindregið til þess að hv. alþm. hætti að nota orðið þjóðarsátt um þennan gerning því að það heyrist ekki í mæltu máli að það sé notað innan tilvitnunarmerkja og þess vegna skulum við heldur tala um þetta sem það raunverulega er. Það er um launafrystingu að ræða til þess að veita ríkisstjórninni svigrúm til efnahagsaðgerða sem hún hefur svo ekki gert. Hún hefur ekki notað þetta svigrúm en það er önnur saga. Út í það atriði ætla ég ekki að fara, enda er það ljóst að til hliðar við þetta mál hafa einnig orðið allhneykslanlegir atburðir, að því er mér virðist, í sambandi við áætlanir um verðbólguþróun sem teknar eru góðar og gildar af hæstv. ríkisstjórn, án þess að talað sé um á hvaða forsendum það sé gert. Ríkisstjórnin hefur ekki meira stolt en svo að hún lætur sig hafa það að taka góðar og gildar verðbólguspár sem miða við það að ríkisstjórnin hreyfi hvorki legg né lið í efnahagsmálum. Mér hefur þó skilist að hún hefði nokkurn hug á því ef á þyrfti að halda og vill jafnan láta svo vera að hún hafi náð nokkrum árangri á því sviði, að því er hún sjálf segir. En samkvæmt þeirri verðbólguspá, sem virtist vera aðalhaldreipi hæstv. forsrh. og var frá Þjóðhagsstofnun, var miðað

við að losnaði um alla skapaða hluti og ríkisstjórnin hreyfði hvorki legg né lið til þess að laga eitt eða neitt í efnahagslífi landsins. Það eina sem gerðist við þetta var framkvæmd hennar eigin gerðar, samningsins við BHMR, sem hún var svo mjög ánægð með á sínum tíma.
    Með hliðsjón af vissri eigin reynslu hefur mér ekki liðið það úr minni að hæstv. ráðherra sagði að því bæri að fagna að samningurinn við BHMR hefði verið gerður því það mundi þó a.m.k. skapa frið í skólunum um fimm ára skeið. Þá komum við aftur að okkar blessaða unga fólki sem hefur ár eftir ár eftir ár mátt þola það að vera truflað alvarlega í námi sínu, sem það sumpart var skylt að stunda og sumpart átti rétt á að stunda, allt vegna launadeilna við vinnuveitandann, þ.e. ríkið. Mér var það ljóst þann tíma sem ég starfaði í menntmrn. að það hlaut að verða að koma því svo fyrir, og reyndar var svipað uppi á teningnum með heilbrigðisstéttirnar, að launakerfið í landinu gerði ráð fyrir því hvaða sérstöku ábyrgð það fólk hafði sem þarna var um að ræða og þekkingu, og líka hitt, að það átti ekki um annan vinnustað að velja. Þess vegna gat það ekki snúið sér að markaðskerfinu eða markaðsmyndun á launum eins og er hægt í ýmsum öðrum störfum í þjóðfélaginu.
    Herra forseti. Ég hlaut að leyfa mér að greina frá skoðun minni um þetta mál því svo stóð á að ég var ein þeirra þingmanna sem var fjarverandi frægan þingflokksfund í þingflokki sjálfstæðismanna þar sem forusta þingflokksins hafði í góðri trú, og auðvitað byggt á mörgum umræðum í þingflokknum alveg frá því í sumar, greint frá því að þingflokkurinn væri andvígur þessu frv. Nú er það ljóst að allur þingflokkurinn er efnislega andvígur því þó að nokkrir hv. þm. hafi kosið þá leið við 2. umr. að sitja hjá. Ég vona svo sannarlega að þessir hv. þm. sem greindu frá því með mjög mikilli rökfestu hvílík ósvinna og skömm það væri fyrir þingið að samþykkja þessi lög og vildu þeir því engan hlut eiga að því, þá hlýt ég að álykta að þeir dragi úr þeirri ósvinnu með því að greiða atkvæði gegn þessu frv. á lokastigi málsins þegar það fer úr þessari deild. Það er það sem mestu máli skiptir. Það liggur því ljóst fyrir að þeir sem sitja hjá, svo einkennilegt sem það er í þessu tilviki, herra forseti, gera þá grein fyrir hjásetu sinni að þeir séu andvígir málinu. Frá mínu sjónarmiði séð er það auðvitað enn rökréttara þegar maður hefur lýst því að maður sé andvígur einhverju máli að greiða atkvæði gegn því. Um það geta verið skiptar skoðanir, eins og þessi dæmi sanna.
    Mér hefur líka þótt ósköp dapurlegt að hlusta á það að jafnvel hinir ákveðnustu ,,prinsippmenn``, ef ég má svo að orði kveða, í stjórnarliðinu sem lýst hafa sig eindregið andvíga þessu máli, það er kannski ekki nema um einn að ræða sem hefur, svo vitað sé, snúið við því blaði og ætlar að sitja hjá. Sá hv. þm. er hv. 2. þm. Austurl. Ef til vill greiðir hann atkvæði gegn frv. við 3. umr. Ég útiloka ekki þá von að einhverjum snúist hugur aftur. Það hafa gerst svo einkennilegir hlutir í þessu máli öllu frá upphafi vega.

    Tilgangur hv. þm. er sá að afstýra öðru verra að hans sögn sem yrði að í stað þess að láta frv. ganga til atkvæða eftir að hæstv. forsrh. vissi að það yrði ekki samþykkt ryfi hann þing og setti bráðabirgðalög á nýjan leik. Þessu vildi hv. þm. afstýra. Það sem mér virðist vanta í þessa grg. og þennan rökstuðning hv. þm. er mjög mikilvægt atriði, að það er hægt að ná enn meiri árangri að því er varðar gerðir hæstv. forsrh. Hv. þm. hafði það í hendi sinni með því að greiða atkvæði gegn frv., ekki einungis að losa hv. þm. við þessi lög heldur einfaldlega losa hæstv. forsrh. við verkefnin í forsrn. Hæstv. forsrh. hefði verið nauðugur einn kostur að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Ég hef reyndar haldið að áður hefði gefist tilefni til þess einmitt í sambandi við þetta mál. Það hefði gefist tilefni til þess strax eftir uppkvaðningu félagsdóms í sumar. En menn í hæstv. ríkisstjórn hafa nokkra þjálfun í því að virða að vettugi meginreglur og þess vegna kemur það afar einkennilega fyrir sjónir, að ekki sé meira sagt, að menn hafi í alvöru trúað því að það yrðu sett bráðabirgðalög á nýjan leik ef hæstv. ríkisstjórn vissi að þau hefðu ekki, nákvæmlega það lagaefni hefði ekki meirihlutastuðning á Alþingi.
    Hér er, ef orðað er eins mildilega og hægt er að hugsa sér, um geysilega alvarlegt víxlspor að ræða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar þar sem meginreglur hafa verið hrapallega misskildar. Mér er þó nær að halda og hef raunar komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki víxlspor því að ærin tilefni hafa verið til að gera sér grein fyrir því að menn hafa farið villir vegar. Menn hafa líka haft ærinn tíma til að gera sér grein fyrir því að það er löngu orðið ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér aldrei að standa við þann samning sem gerður var við BHMR á sínum tíma. Svo er að sjá að hæstv. ríkisstjórn hafi litið á hann sem einhvers konar gervisamning og vitað að hún hefði ráð þorra þessa fólks í hendi sér með því að þorri þessa fólks er háður ríkisvaldinu um vinnu.
    Ég ætla, herra forseti, ekki að fara út í hinar lögfræðilegu bollaleggingar um hið stjórnskipulega gildi þessara laga. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í meira lagi hæpið, við fáum skorið úr því fyrir dómi, en ég er hins vegar ekki einungis þeirrar skoðunar að hinn siðferðilegi grundvöllur sé hæpinn, hinn siðferðislegi grundvöllur er enginn. Þessi bráðabirgðalög eru siðlaus og ég tel að það sé hneisa fyrir Alþingi að samþykkja þau. Ég hvet til þess enn og aftur að við horfumst í augu við það að sá grundvöllur sem hæstv. ríkisstjórn hefur flaggað sem svo fögru merki, að hér séum við að tala um yfirtroðslu á þjóðarsátt, stenst ekki. Í fyrsta lagi var ekki um þjóðarsátt að ræða og í öðru lagi eru bráðabirgðalögin, samkvæmt þeim rökum sem ég hef talið hér fram, gjörsamlega fráleit gerð og ekki samboðin Alþingi sem er vagga þingræðis og lýðræðis á Norðurlöndum og þó víðar sé leitað.