Launamál
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh. - og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir mjög greinargott mál sem ég held að fleiri hefðu mátt hlýða á, ekki síst hæstv. ráðherrar og einkum og sér í lagi hæstv. forsrh.
    Ég ætla ekki að flytja hér langt mál. Ég ætla í fyrsta lagi að staðhæfa það, sem ég heyri að svíður undan, að hæstv. ríkisstjórn hefur brugðist svokallaðri þjóðarsátt. Það þarf ekki langt að leita. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki mikið álit á Seðlabankanum, en í greinargerð sem Seðlabankinn sendi frá sér 4. des. er mjög rækilega á þetta bent, ekki síst hvað varðar vextina. Það er hæstv. ríkisstjórn sjálf sem hefur mest áhrif á vaxtahæðina, á það hve raunvextir eru háir hér á landi. Það er eitt þeirra atriða sem launþegasamtökin og forustumenn þeirra hafa gagnrýnt hvað harðast, ekki síst Ögmundur Jónasson. Það stendur skýrum stöfum í þessari skýrslu að það sé nú svikalogn á lánsfjármarkaðnum. Ástæðan er sú að innan tíðar hljóti atvinnulífið á fjármagni að halda til að byggja sig upp. Til þess að það geti orðið þurfi stjórnvöld, þarf hæstv. ríkisstjórn að draga úr lánsfjárþörf sinni innan lands.
    Hæstv. fjmrh. hefur með því frv. sem hann lagði fram til aukalánsfjárlaga sýnt fram á að hæstv. ríkisstjórn ætlar að fá 6 milljarða til viðbótar við fyrri áætlanir til láns á innlendum markaði, aðeins 6 milljarða. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að raunvextir haldast háir hér á landi. Það er alveg sama hvort menn reyna að nota handafl til að halda þeim niðri. Það er ekki hægt lengur, einfaldlega vegna þess að það eru stjórnvöld sjálf sem standa fyrir þessum háu raunvöxtum. Þetta er aðeins eitt dæmi um það að hæstv. ríkisstjórn stendur ekki við sinn hluta. Það er hallarekstur á ríkinu og nú má gera ráð fyrir því að afgreiða verði fjárlög með miklu meiri halla en ráð var fyrir gert. Enn hafa ekki komið fram frv. til þess að staðfesta vilja hæstv. ríkisstjórnar til þess að standa við tekjuáætlun fjárlaga. Það kann vel að vera að þau komi síðar fram, fyrir jól. En gerist það ekki og verði þau ekki samþykkt fyrir jól er ljóst að hallinn á fjárlagafrv. kemur til með að vaxa verulega. Þá verður hægt að telja í tugum milljarða hallann á ríkissjóði í þriggja ára tíð hæstv. fjmrh. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar hér. Það gefst tækifæri til þess síðar í vetur, enda mun þetta koma betur og betur í ljós.
    Það hefur nokkuð verið rætt um hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessu máli. Slíkar deilur geta auðvitað verið ærið ófrjóar. En það sem verra er að í þessari umræðu allri hefur stundum verið ruglast á því að það sem sé vinsælt hljóti að vera rétt og það sem sé óvinsælt hljóti að vera rangt. Meira að segja hefur gengið svo langt að ákveðnir stuðningsmenn, reyndar úr hópi hv. þm., hafa lýst því yfir að þetta hafi verið rétt af ríkisstjórninni, enda hafi það komið fram í skoðanakönnunum. Á það var bent að samkvæmt skoðanakönnun hefði þessi ríkisstjórn í fyrsta skipti fengið stuðning meiri hluta þjóðarinnar. Og niðurstaða hv. þm. varð sú að þetta þýddi það að ákvörðunin hefði verið rétt. Síðan var því bætt við að þess vegna ættu menn að styðja þetta. Með sömu rökum má halda því fram að þegar Sjálfstfl. fær yfir helming atkvæða samkvæmt skoðanakönnunum hljóti sú niðurstaða að vera rétt og þess vegna eigi til að mynda hæstv. ráðherrar, þar á meðal hæstv. forsrh. og fjmrh. að sjálfsögðu að styðja Sjálfstfl. því að hann er svo vinsæll að hann hefur meiri hluta atkvæða og þess vegna er niðurstaðan rétt og auðvitað eigum við öll að styðja rétta niðurstöðu. Svo langt hafa menn gengið í rökstuðningnum að þeir rugla saman því sem er rétt og hinu sem er vinsælt. Ég hef sagt í þessu máli og reyndar margir fleiri að við teljum það vera meira virði að fylgja réttlætinu en stundarvinsældum því að við teljum að réttlætið muni lifa en vinsældir koma og fara.
    Það er athyglisvert í þessari umræðu að það er upplýst loksins fyrir fullt og fast að ríkislögmaður var hvergi til kallaður á tímabilinu 1. febr. til 1. júlí þrátt fyrir margvíslegar og margar viðvaranir ýmissa aðila. Það er ekki fyrr en 3. júlí sem ríkislögmaður fær að koma nálægt þessu máli þegar honum er rétt upp í hendurnar stefna frá BHMR, stefna fyrir Félagsdóm. Fyrir þinginu liggur þingskjal frá hv. 6. þm. Norðurl. e. þar sem hann biður um að lagðar séu fram á þinginu lögfræðilegar álitsgerðir þeirra manna sem til var leitað á þessu tímabili. Meðan þær koma ekki fram ber að líta svo á að þær séu ekki til. Og öll svör hæstv. forsrh. eru út í bláinn þegar hann er að segja að hann hafi leitað til lögfræðinga um gerð bráðabirgðalaganna. Að sjálfsögðu hefur hæstv. ríkisstjórn orðið að grípa til lögfræðingagengis síns, svo að ég noti nú hugtak sem hér var notað um lögfræðingagengi Sjálfstfl., noti sams konar orðalag og hæstv. utanrrh. notaði. Auðvitað var kallað til lögfræðinga þegar allt var komið í óefni en það var bara allt of seint.
    Gagnrýnin á þessar aðgerðir allar felst í því að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið að sér þann 1. febr. að framkvæma þann hlut, sem auðvitað er ekki drengilegur, að troða á þeim samningi sem hæstv. ríkisstjórn gerði sjálf við sína launþega. Í stað þess að gera það með eðlilegum hætti með því að leggja þá fram lagafrv. á Alþingi, hefja viðræður við þessa aðila, sem auðvitað var undirstöðuatriði, eða með öðrum slíkum hætti, lét hæstv. ríkisstjórn það undir höfuð leggjast og fékk engar álitsgerðir eða leitaði ekki til neinna manna um þessi atriði fyrr en eftir að málið var komið í óefni, eftir að málið var komið fyrir Félagsdóm. Allir vita hver niðurstaðan varð. Jafnvel sá maður sem hæstv. ríkisstjórn tilnefndi í dómstólinn greiddi atkvæði með þeirri niðurstöðu sem varð, en hún var algerlega BHMR í vil.
    Þetta, virðulegi forseti, vildi ég að hér kæmi fram. Mér þykir vænt um að hæstv. forsrh. skuli segja það hér í ræðustól að það hafi ekki hvarflað að honum að fara þannig að að láta þessi lög falla og rjúfa þing og setja síðan lög sama efnis. Það breytir hins vegar ekki því að aðrir höfðu það á orði og það var meginástæðan fyrir því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson

kaus að hverfa frá sannfæringu sinni og sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu. En sú gjörð hv. þm. gerbreytti auðvitað stöðunni, eins og allir vita.