Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 14. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi húsbréfadeild og húsbréfaviðskipti. Frv. þetta er samið í félmrn. með hliðsjón af þeirri reynslu sem komin er af húsbréfakerfinu á því eina ári sem liðið er frá því að lög þar um tóku gildi.
    Ég vil fara nokkrum orðum um einstakar greinar frv. en það tekur til þriggja þátta. Það er í fyrsta lagi að meiri háttar endurbætur og endurnýjun á notuðu íbúðarhúsnæði verði lánshæft í húsbréfakerfinu. Í öðru lagi að húsbréf geti numið allt að 75% af matsverði íbúða og í þriðja lagi að íbúðaeigendur í greiðsluerfiðleikum geti tímabundið fengið fyrirgreiðslu í húsbréfakerfinu.
    Í lánakerfinu frá 1986 var ekki gerður greinarmunur á endurnýjun eða endurbótum á notuðu íbúðarhúsnæði og viðbyggingu við notaða íbúð. Hvort tveggja er lánshæft að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í rauninni er lítill munur á endurbótum á notuðu íbúðarhúsnæði eða viðbyggingu við notaða íbúð. Í báðum tilvikum er verið að gera notað íbúðarhúsnæði hæfara til íveru. Því þykir eðlilegt að endurbætur og endurnýjun á notuðu íbúðarhúsnæði rúmist innan húsbréfakerfisins á sama hátt og hingað til hefur þótt rétt að þetta tvennt rúmist innan sama lánaflokksins frá Byggingarsjóði ríkisins.
    2. gr. frv. fjallar um að húsbréf miðist við allt að 75% af matsverði íbúða. Þess misskilnings hefur oft gætt hjá þeim sem gagnrýnt hafa húsbréfakerfið að halda að það lánakerfi útiloki fleiri frá íbúðakaupum á hinum almenna markaði en lánakerfið frá 1986. Svo er ekki. Hvort sem íbúðakaupendur fá lán úr lánakerfinu frá 1986 eða gefa út fasteignaveðbréf sem unnt er að skipta fyrir húsbréf þurfa kaupendur að eiga ákveðið fjármagn í útborgun. Fyrr á árinu skipaði ég starfshóp sem í voru fulltrúar félmrn. og Húsnæðisstofnunar ríkisins til að bera saman greiðslubyrði íbúðakaupa í húsbréfakerfinu annars vegar og í lánakerfinu frá 1986 hins vegar. Niðurstöður þessa starfshóps voru að mánaðarleg greiðslubyrði vegna íbúðakaupa fyrstu árin er lægri í húsbréfakerfinu ef kaupverð íbúðar er yfir 5 millj. kr. að gefnum ákveðnum forsendum þegar íbúðakaup eru skoðuð í heild. Greiðslubyrðin er svipuð í báðum lánakerfunum fyrir lágtekju - og meðaltekjufólk sem á litlar eignir, að teknu tilliti til vaxtabóta, ef kaupverð íbúðar er innan við 5 millj. kr. Greiðslubyrðin er hins vegar lægri í lánakerfinu frá 1986 fyrir hátekjufólk ef það festir kaup á ódýrum íbúðum.
    Í þessum samanburði hefur það mikil áhrif að unnt er að fá hærra langtímalán í húsbréfakerfinu en samkvæmt lánakerfinu frá 1986. Þörf íbúðakaupenda fyrir skammtímalán minnkar þar með en skammtímalánin hafa mikil áhrif á greiðslubyrðina fyrstu árin og þar með á þá möguleika sem íbúðakaupendur hafa á að eignast þær íbúðir sem þeir festa kaup á. Þessar niðurstöður breyta því þó ekki að ávallt er nauðsynlegt að leita leiða til að aðstoða þá sem þurfa aðstoð við

íbúðakaup eins og frekast er unnt. Viðmiðunarmörk í húsbréfakerfinu eru nú 65% af eðlilegu matsverði íbúða. Að mínu mati er reynslan af húsbréfakerfinu hingað til það góð að lítil hætta er á auknum útlánatöpum húsbréfadeildar ef viðmiðunarmörkin eru hækkuð í allt að 75%.
    Í ákvæði til bráðabirgða í frv. er fjallað um að tímabundið verði heimilt að aðstoða íbúðaeigendur i greiðsluerfiðleikum með því að gefa þeim kost á að nýta sér húsbréfakerfið til að endurfjármagna íbúðakaup sín. Allt frá árinu 1985 hafa íbúðaeigendum í greiðsluerfiðleikum verið veitt sérstök lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Lengst af hefur verið veitt sérstakt framlag úr ríkissjóði til fjármögnunar þessa lánaflokks. Samtals hefur íbúðaeigendum í greiðsluerfiðleikum verið lánað 2,8 milljarðar kr. úr þessum lánaflokki uppreiknað til september 1990. Fullyrða má að vel hafi til tekist við úthlutun þessa fjármagns en það hefur verið gert í nánu samráði við viðskiptabanka og sparisjóði. Margir íbúðaeigendur hafa fengið úrlausn sinna mála með þessum lánum. Íbúðaeigendur í greiðsluerfiðleikum hafa getað fengið allt að 600 þús. kr. lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar ríkisins eru meðalskuldir íbúðaeigenda í greiðsluerfiðleikum, sem hafa sótt um aðstoð hjá stofnuninni sl. tvö ár, um 3,5 millj. kr. Þar af eru um 1200 þús. kr. skuldir við Húsnæðisstofnun, um 850 þús. við lífeyrissjóði og skammtímalán eru um 1450 þús. kr. 600 þús. kr. lán vegna greiðsluerfiðleika hefur því í mörgum tilvikum ekki dugað til að snúa greiðsluerfiðleikum nægjanlega vel við hjá mörgum.
    Á síðustu missirum hefur það orðið æ algengara að fólk sem hefur fengið lán úr lánakerfinu frá 1986 hefur þurft að sækja um lán vegna greiðsluerfiðleika hjá Húsnæðisstofnun. Ég er þeirrar skoðunar að með því að gefa íbúðaeigendum sem eru í greiðsluerfiðleikum kost á að endurfjármagna sín íbúðakaup með því að nýta sér húsbréfakerfið verði komið í veg fyrir holskeflu nauðungaruppboða og gjaldþrota sem hætt er við að annars gæti verið í uppsiglingu. Ráð er fyrir gert að íbúðaeigendum verði gefinn kostur á því næstu 12 mánuði eftir gildistöku laganna að gefa út fasteignaveðbréf sem unnt verði að skipta fyrir húsbréf. Þannig geti þeir sem verða lánshæfir greitt upp eða inn á þær skuldir sem valda mestri greiðslubyrði.
    Við það er miðað að greiðslubyrði umsækjenda sé að jafnaði yfir 30% af áætluðum heildarlaunum hans á ári næstu fjögur árin. Eftir skuldabréfaskipti verði greiðslubyrði að jafnaði um 20% af heildarlaunum hans. Þannig er komin viðmiðun um þau hlutfallslegu mörk þegar umsóknir eru metnar.
    Virðulegi forseti. Með frv. þessu er því komið verulega til móts við fjölda íbúðaeigenda sem eiga í greiðsluerfiðleikum og sjá að óbreyttu fram á gjaldþrot og uppboð á eignum sínum verði ekkert að gert.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.