Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 14. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera miklar efnislegar athugasemdir við þetta frv. á þessu stigi máls. Hér er um að ræða þrjú efnisleg atriði. Annars vegar breytingar á þeim takmörkunum sem hafa verið á möguleikum á því að nota húsbréf í fasteignaviðskiptum gagnvart endurbótum og viðbyggingum og hins vegar því hlutfalli sem um getur verið að ræða sem hámark fjárhæðar sem gefa má út húsbréf fyrir.
    Hitt meginatriði frv. er síðan, eins og kom fram í máli ráðherra, spurningin um það að opna möguleika á því að þeir sem eiga í greiðsluerfiðleikum geti á 12 mánaða tímabili reynt að leysa sinn vanda með húsbréfum.
    Það er rétt að vekja athygli á því að í meðferð Ed. á þessu máli hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem mér sýnist að allar séu til bóta frá upphaflegu frv. M.a. er kveðið svo á í frv., eins og það kemur nú frá Ed., að ákvæði um húsbréfaviðskipti í tengslum við endurbætur og endurnýjun á notuðu húsnæði taki ekki gildi fyrr en 1. sept. nk. Þetta held ég að sé mikilvægt í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa á húsbréfamarkaðnum á þessu hausti, einkanlega í síðasta mánuði þegar þar lá við upplausn vegna þess að framboð bréfa var of mikið miðað við það sem seldist á markaðnum. Þess vegna tel ég að það sé varhugavert almennt séð að stofna öryggi á húsbréfamarkaðnum í hættu með því að demba út á hann nýjum bréfum í miklum mæli. Það ber þess vegna að fagna því að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en 1. sept. vegna þess að þá er líklegt að markaðurinn hafi haft tíma til þess að ná jafnvægi og komast út úr þeim erfiðleikum sem óneitanlega sköpðuðust hér fyrr á þessu hausti.
    Aftur á móti að því er varðar greiðsluerfiðleikalánin er auðvitað ljóst að þar verða jafnframt nýir aðilar á ferð. Hins vegar eftir því sem manni hefur skilist eru það ekki svo margir einstaklingar eða það miklar upphæðir samanlagt að það ætti að skipta sköpum á markaðnum þó að sú viðbót yrði. Þó er auðvitað ekki unnt að fullyrða um það. Ég tel að það þurfi nánari upplýsingar um það hver áhrif bæði sú viðbót og aðrar þær viðbætur sem frv. gerir ráð fyrir muni hafa á þessum viðkvæma markaði.
    Hitt er svo annað mál að nú fyrir skemmstu, þ.e. 15. nóv., var heimilt að gefa út húsbréf vegna viðskipta með nýjar íbúðir. Það liggur ekki enn þá fyrir hver reynslan af því er og hvort markaðurinn ber með góðu móti þá viðbót sem þar er. Af þeirri ástæðu er hugsanlega vandkvæðum bundið að ætla enn að auka framboð á bréfum með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða og reyndar í 2. gr. Mér þætti forvitnilegt við þessa umræðu að fá það fram hjá hæstv. félmrh. hvernig framkvæmdin frá 15. nóv. hefur orðið varðandi húsbréfalán til nýbygginga. Mér hefur borist til eyrna að erfiðleikar hafi skapast, m.a. vegna þess að húsbréfadeildin hafi verið sein fyrir með til að mynda það form sem áskilið var á bankaábyrgðum byggingarverktaka og það hafi tafið fyrir

því að viðskipti gætu hafist með húsbréf vegna nýbygginga. Eflaust eru fleiri framkvæmdalegir eða tæknilegir örðugleikar sem hefur þurft að yfirstíga og er þess vegna forvitnilegt að fá fram hjá ráðherra hvernig þetta mál hefur til tekist í heild sinni og hvort þessi viðskipti eru hafin í einhverjum mæli.
    Í framhaldi af því vildi ég mega spyrja ráðherra um eitt tiltekið atriði sem manni hefur skilist að sé framkvæmt með eilítið óvenjulegum hætti hjá húsbréfadeild. Það lýtur að því að vextir sem innheimtir eru af aðila sem gefið hefur út fasteignaveðbréf, sem húsbréfadeildin hefur þá í fórum sínum, eru innheimtir frá tilboðsdegi þeirra viðskipta sem fasteignaveðbréf eru til vitnis um en ekki frá þeim degi þegar kaupsamningur er gerður eða fasteignaveðbréfið er gefið út. Þetta held ég að hljóti að teljast afar óvenjulegt. Sömuleiðis getur þetta skipt verulegu máli fyrir hlutaðeigendur þegar tafir verða á afgreiðslu og það líður langur tími frá því að tilboð er gert þar til gengið er frá kaupsamningi og fasteignaveðbréf gefið út sem síðan er skipt yfir í húsbréf.
    Það hafa orðið verulegar tafir á þessu hausti í þessum efnum eins og menn vita. Miklu lengri bið hefur orðið eftir afgreiðslu en gert var ráð fyrir. Tafir upp á einhverjar vikur umfram það sem gert var ráð fyrir og þess vegna getur þarna skipt máli við hvaða dag er miðað þegar vaxtareikningur fer fram. Þetta atriði varðar auðvitað ekki efni þessa frv. en frv., sem lýtur að þessum húsbréfaviðskiptum, gefur tilefni til fyrirspurna af þessu tagi. Ég tel eðlilegt að í félmn. verði grennslast fyrir um það nákvæmar en kom fram í framsögu ráðherra hvað gera megi ráð fyrir að markaður fyrir húsbréf þoli mikið magn á næstunni. Ég vek athygli á því að ríkissjóður er nú með áform um að gefa út nýja tegund skuldabréfa. Það er auðvitað alveg ljóst að slíkt nýtt form ríkisskuldabréfa, svokölluð ríkisbréf, mun keppa við húsbréfin um hylli þeirra sem eru kaupendur slíkra bréfa og þar með lánveitendur á þessum markaði.
    Það er kannski ástæðulaust að fara hér út í frekari efnislegar umræður um þessi mál. Það er stundum deilt um það varðandi húsbréf á hvaða aðila afföllin lenda. Ég hef leyft mér að halda því fram, m.a. hér úr þessum ræðustól, að á endanum lendi afföllin á þeim sem fær lánið í þessu formi. Þó svo að það sé að formi til eigandi húsbréfanna, sem selur þau, sem tekur á sig afföllin. En ég hygg að þetta sé nokkuð ljóst varðandi nýbyggingar, þar sem um er að ræða byggingarverktaka sem selur húsbréf sem hann hefur fengið til þess að fjármagna sínar byggingar. Það er byggingaraðilinn sem tekur við hlutverki íbúðaseljanda þegar um er að ræða húsbréf til nýbygginga. Hann gegnir sama hlutverki og íbúðaseljandi í viðskiptum með notaðar íbúðir. En byggingarverktakinn verður að selja bréfið á markaðnum, losa sig við það til að geta fjármagnað þá byggingu sem um er að ræða og getur ekki látið þetta bréf ganga upp í önnur fasteignaviðskipti eins og íbúðaeigendur, sem selja notaðar íbúðir, geta hugsanlega gert. Þess vegna er útilokað annað en að afföllin á þeim húsbréfum sem

notuð eru í viðskiptum með nýjar íbúðir bitni á þeim sem kaupir íbúðina, hækkar sem sagt verðið til hans. Raunar held ég að það sé líka svo og mjög erfitt að andmæla því að varðandi notaðar íbúðir sé það, þegar dagur er að kvöldi kominn, íbúðarkaupandinn sem borgar afföllin, sá sem fær lánið.
    Því er haldið fram að þetta sé ekki rétt vegna þess að seljandinn, sá sem selur notaða íbúð, fái hana nánast staðgreidda og muni því ekki um að taka á sig afföllin og það hafi ekki komið fram í hækkuðu fasteignaverði enn sem komið er að þau afföll hafi lent á kaupendum. En ég hygg að venjulega ef um væri að ræða viðskipti með staðgreiðslu mundi nást fram verulegur staðgreiðsluafsláttur. Hann hefur ekki komið fram. Það má þess vegna halda því fram með fullum rökum að mínum dómi að kaupendur notaðra íbúða hafi ekki notið þess staðgreiðsluafsláttar sem ella hefði komið fram og afföllin sem seljandi bréfanna tekur á sig komi þess vegna fram til kaupandans í því að fasteignaverðið hefur ekki lækkað eins og hefði átt að vera þegar um er að ræða staðgreiðslu, heldur staðið í stað eða ef til vill hækkað.

    Þannig hygg ég að það skens sem fram hefur komið af hálfu félmrh. í garð manna út af þessum affallareikningi eigi ekki við mikil rök að styðjast þegar öllu er á botninn hvolft. Vitanlega er það formlega svo að það er seljandi íbúðar sem tekur við húsbréfi og selur það síðan með afföllum en það er auðvitað náið samband milli húsbréfasölunnar, affallanna þar, og verðsins á þeirri fasteign sem skipti um eigendur með þeim viðskiptum. Ég leyfi mér því að halda mig við það að þegar allt kemur til alls sé það kaupandi íbúðar sem ber afföllin af húsbréfunum, annaðhvort beint með því að fasteignin hækki í verði, eins og augljóst er þegar um er að ræða nýbyggingar, eða þá í því formi að hann missir af þeirri verðlækkun sem staðgreiðsla til seljanda ætti við eðlilegar aðstæður að hafa í för með sér.
    Það má segja, virðulegi forseti, að þessar hugleiðingar séu eilítið til hliðar við efni þessa frv. Ég tel engu að síður að þær eigi rétt á sér vegna þess að hér hefur komið fram af hálfu félmrh. við annað tækifæri gagnrýni á ýmsa aðila og það sem ég leyfi mér að kalla skens í garð þingmanna vegna þess að þeir kunni að hafa misskilið eðli þessara mála eða ekki verið með á nótunum um það hvað þarna er á ferðinni. Þess vegna vildi ég láta þetta koma fram. En að því er varðar efni frv. sjálfs sé ég ekki ástæðu til þess að láta koma fram neina sérstaka gagnrýni eða andstöðu við það en áskil mér þó, eins og ég sagði áðan, rétt til að kanna það vel í félmn. hvaða áhrif allir þættir þessa frv. muni hafa.