Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 14. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurðist fyrir um það hvers mætti vænta ef ákvæði þessa frv. sem lúta að greiðsluerfiðleikalánum yrðu að lögum og um hve marga væri að ræða sem mundu geta notið ákvæðanna vegna sinna greiðsluerfiðleika. Það er út af fyrir sig nokkuð erfitt að áætla það. Núna liggja fyrir 200 umsóknir um greiðsluerfiðleikalán hjá Húsnæðisstofnun. Það er mat ráðgjafarstöðvarinnar að 100 af þessum umsækjendum séu í það miklum erfiðleikum, skuldi það mikið, eigi það litlar eignir og hafi það litlar tekjur að ákvæði þessa frv. geti ekki bjargað þeim, ekki einu sinni þó heimiluð væri skuldbreyting. En hinum 100 umsækjendunum sem bíða telur ráðgjafarstöðin að hægt sé að sinna og afgreiða ef ákvæði þessa frv. verða að lögum.
    Þetta segir þó ekki alla söguna vegna þess að álitið er að margir muni sækja um fyrirgreiðslu eftir þessu ákvæði sem ekki hafa enn lagt inn neinar umsóknir hjá Húsnæðisstofnun. En vitað er að það er töluvert stærri hópur en sá sem sótt hefur um hjá Húsnæðisstofnun sem þarf á fyrirgreiðslu að halda og mundi ella missa eigur sínar á uppboð ef þetta ákvæði kæmi ekki til.
    Það ber líka að líta á það að ákvæði þetta er einungis tímabundið í 12 mánuði. Í umsögn Húsnæðisstofnunar ríkisins til félmn. Nd. er reynt að leggja mat á það hvað mikið þyrfti að gefa út af húsbréfum á næstu 12 mánuðum miðað við þetta ákvæði. Húsnæðismálastjórn kveður lauslega áætlun sem gerð hefur verið gefa til kynna að um geti verið að ræða 1 milljarð kr. sem mundi dreifast á heilt ár. Það kemur einnig fram í umsögn húsnæðismálastjórnar að þessi bréf muni að meiri hluta til renna til lánastofnana til uppgjörs lausaskulda og muni hugsanlega ekki fara út á fjármagnsmarkaðinn nema í takmörkuðum mæli. Þetta er álit Húsnæðisstofnunar á því hvers megi vænta ef frv. þetta verður að lögum.
    Hv. þm. ræddi nokkur önnur efnisatriði sem lúta að húsbréfakerfinu og ekki snerta beint þetta frv. Hann spurði hver væri reynslan af nýbyggingalánum sem komu inn í húsbréfakerfið 15. nóv. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Húsnæðisstofnun hefur þetta farið mjög hægt af stað varðandi nýbyggingalánin. Síðast þegar ég fékk upplýsingar um það var enn ekki farið að skipta á húsbréfum vegna nýbygginga. Talið var að staðið hefði á því að framkvæmdaaðilar fengju bankaábyrgð.
    Varðandi það sem hv. þm. ræddi líka um, að þeir sem skipta á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf þurfi að bera vexti frá því að kauptilboð er gert, er því til að svara að þetta var nokkuð rætt í upphafi, áður en húsbréfakerfið fór af stað. Það var samdóma álit þeirra sem um þetta fjölluðu að það væri rétt og eðlilegt að miða þetta við kauptilboðsdag, til að mynda vegna þess að þá gætu seljendur betur reiknað út núvirði húsbréfanna. Það kemur líka skýrt fram í þeim samningum sem undirritaðir eru af íbúðakaupendum að fasteignaveðbréfin bera vexti frá tilboðsdegi. Ég held að

það sé rétt að menn hafi til samanburðar í þessu einnig að áður en húsbréfakerfið kom til báru fasteignaveðbréf, sem þó voru ekki gefin út fyrr en nokkrum mánuðum seinna, þegar afsal var gert, þ.e. eftirstöðvabréf, vexti frá þeim degi sem kaupsamningur var gerður. Því finnst mér þetta nokkuð sambærilegt.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég legg mikla áherslu á að þó stuttur tími sé fram að jólaleyfi þingmanna geti þetta frv. orðið að lögum fyrir jólaleyfi. Það eru mjög margir sem bíða eftir því að fá fyrirgreiðslu, sérstaklega varðandi greiðsluerfiðleikalánin, og eru komnir mjög tæpt að því að missa sínar eigur ef ekki verður um skuldbreytingar að ræða samkvæmt því ákvæði til bráðabirgða sem hér er lagt til. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að félmn. hraði eins og kostur er umfjöllun sinni um málið svo það megi verða að lögum fyrir jólaleyfi þingmanna.