Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um fullgildingu samnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga. Ástæðan fyrir því að það hefur dregist svo mjög að fullgilda þennan samning af Íslands hálfu er sú að íslensk lög um þessi málefni hafa verið tímabundin þangað til í fyrra þannig að ekki þótti unnt að fullgilda hann fyrr.
    Utanrmn. hefur rætt þessa tillögu og sent frá sér svohljóðandi nál.:
    ,,Nefndin hefur fjallað um till. og leggur til að hún verði samþykkt.
    Jón Thors, skrifstofustjóri í dómsmrn., kom á fund nefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum Jóns Thors eru almennt séð nægjanleg lagaákvæði fyrir hendi í íslenskum lögum til að unnt sé að fullnægja ákvæðum samningsins.``
    Undir þetta nál. skrifa allir meðlimir í utanrmn.
    Vegna umræðna sem urðu við fyrri umr. um þessa till. tel ég rétt að lesa upp þær athugasemdir sem ég fékk frá Jóni Thors varðandi þennan samning sem skýrir þetta að nokkru leyti, en þær hljóða svona:
    ,,Athugasemdir vegna samanburðar á ákvæðum Evrópusamnings um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga og ákvæðum laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989:
    1. Varðandi 6. gr. samningsins. Í 6. gr. samningsins er kveðið svo á að nánar tiltekin einkalífsatriði sé óheimilt að vinna vélrænt nema í lögin séu sett viðeigandi verndarákvæði. Slík verndarákvæði er að finna hér á landi í 4. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989. Þar er ákvæði sem segir að óheimilt sé að skrá upplýsingar sem samsvara þeim sem taldar eru í 6. gr. samningsins nema í tilteknum undantekningartilvikum. Þau tilvik eru lagaheimild, samþykkt hins skráða sjálfs og ef þessu tvennu er ekki til að dreifa sérstök heimild frá tölvunefnd sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.
    Skráning skv. lögum nr. 121/1989 tekur bæði til handunninnar og vélrænnar skráningar. Samningurinn kveður ekki nánar á um hvað séu viðeigandi verndarákvæði og skýringar á því eru ekki heldur í athugasemdum með samningnum. Er það því mat löggjafa hvers ríkis hvað teljist nægileg verndarákvæði. Telja verður ákvæði laga nr. 121/1989 fullnægja ákvæðum samningsins.
    Til samanburðar við lög nr. 121/1989 má geta þess að ákvæði danskra laga nr. 622/1987, um skrár einkaaðila, eru mjög sambærileg að því er varðar heimild til skráningar þeirra persónuupplýsinga sem 6. gr. samningsins fjallar um.
    2. Varðandi 8. gr. samningsins. Í 8. gr. er fjallað um rétt manna til að fá upplýsingar um vélrænar skrár og það sem þar er skráð varðandi þá sjálfa. Í IV. kafla laga nr. 121/1989 er að finna ákvæði sem samsvara ákvæðum 8. gr. samningsins og telja verður þau fullnægja ákvæðum samningsins.

    3. Varðandi 12. gr. samningsins. Þessi grein fjallar um streymi persónuupplýsinga milli landa og lagasetningu um það efni. Í lögum nr. 121/1989 er fjallað um þetta efni í 27. gr. Þar er krafist samþykkis tölvunefndar ef flytja á gögn varðandi þau einkalífsatriði sem talin eru í 1. mgr. 4. gr. laganna og 6. gr. samningsins til geymslu eða úrvinnslu erlendis. Einnig er í 1. mgr. 27. gr. lagt almennt bann við kerfisbundinni söfnun og skráningu persónuupplýsinga hér til vinnslu eða geymslu erlendis nema heimild tölvunefndar komi til. Í 4. mgr. er heimild fyrir dómsmrh. til að ákveða í reglugerð að bann skv. 1. og 2. mgr. eigi ekki við í tilteknum tilvikum, m.a. vegna alþjóðlegrar samvinnu. Því mun þurfa að setja með reglugerð ákvæði sem heimila flutning gagna til þeirra landa sem aðilar eru að þessum samningi. Lagaákvæði eru því nægileg til að fullnægja samningnum á þessu sviði.
    4. Varðandi önnur ákvæði samningsins. Önnur ákvæði snerta ekki beinlínis ákvæði laga nr. 121/1989 og verður því að telja að almennt séð séu nægileg lagaákvæði fyrir hendi í íslenskum lögum til að unnt sé að fullnægja ákvæðum samningsins.``
    Þetta er gert í dómsmrn. 11. des. 1990 af Jóni Thors skrifstofustjóra.
    Eins og ég sagði áðan þá leggur utanrmn. samhljóða til að þessi samningur verði samþykktur.