Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Björn Valur Gíslason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri sem ég fæ hér utan dagskrár til að vekja máls á þeim stórkostlega vanda sem vofir yfir mörgum sjávarplássum vegna viðblasandi kvótaskerðingar á smábátum.
    Það er alveg óhætt að segja að gripið hafi um sig skelfing meðal smábátaeigenda og forsvarsmanna margra sveitarfélaga í kjölfar svokallaðrar tilraunaúthlutunar á aflaheimildum smábáta hér á dögunum og skyldi engan undra. Menn sem höfðu af dugnaði og hörku árum og áratugum saman sótt sjó og aflað sér og sínum lífsviðurværis með því urðu nú fyrir þeirri hrikalegu reynslu að fótunum var svo gjörsamlega kippt undan þeim að margir sjá ekki fram á neitt annað heldur en gjaldþrot og upplausn. Byggðarlög sem byggst höfðu og byggjast enn reyndar nær eingöngu á útgerð smærri báta eiga sér nú varla viðreisnar von ef svo fer sem horfir í kvótamálum smærri bátanna. Sjómenn og fjölskyldur þeirra, sem lagt höfðu allt sitt að veði til þess að vera sjálfum sér nóg og komast þannig áfram í lífinu, eru nú neydd út í annað af tvennu illu: Að flosna upp af lífsviðurværi sínu og jafnvel heimabyggð eða þá það sem er eðli þessa fólks svo andstætt, að leita á náðir opinberra sjóða.
    Það hefur verið talað mikið um ákveðin byggðarlög sem verst munu fara út úr þessu hrikalegu máli ef svo fer sem horfir og eru þá oftastnær nefndir staðir eins og Borgarfjörður eystri, Bakkafjörður og Grímsey. En þetta eru ekki einu staðirnir sem fara illa út úr þessu dæmi eða hreinlega leggjast í eyði vegna þessarar hættulegu stefnu í fiskveiðimálum. Hvert einasta byggðarlag, sem á einhvern hátt byggir afkomu sína á sjósókn, á undir högg að sækja. En það er í sjálfu sér engin tilviljun að þessir staðir eru nefndir öðrum stöðum fremur því að þarna koma einmitt áhrif kvótakerfisins fram í hnotskurn. Á þessum stöðum snertir það beint hvern einasta íbúa ef kvóti er seldur úr byggðarlaginu. Fjölskyldur sem töldu sig hafa lagt sitt af mörkum til þjóðfélagsins og öðlast með því kannski einhvern rétt, hugsanlega stöðurétt til að fá að búa þar sem það helst kýs að vera og fólk sem hefur staðið við sitt betur en margur annar verður nú ekki bara fyrir því að vinnan er tekin frá því heldur eru allar eigur þess, fasteignir, sviptar verðgildi sínu og búseturéttur þessa fólks er að engu gerður.
    Það er að mínu mati svo andstætt öllum rökum að markaðssetja fiskinn í sjónum og þar með heilu byggðarlögin að það nær nánast engri átt. Að setja allan syndandi fisk inn í þetta markaðskerfi --- sem sumir markaðshyggjumenn hafa jafnvel kallað markaðskerfi andskotans, þeim mun hafa líkað það vel --- að láta óveiddan fisk ganga kaupum og sölum er að mínu mati algjörlega út í hött.
    Trillusjómenn kaupa engan kvóta. Þeir eru ekki samkeppnishæfir á þessum markaði. Þeir ganga ekkert inn í banka og lánastofnanir eða fjármögnunarleigu til að ná sér í pening og sanka að sér óveiddum fiski, enda eiga þeir ekkert að fá að gera það frekar en aðrir. Þessi auðlind á ekki að vera til sölu. En

stóru útgerðirnar fara hins vegar létt með þetta. Þær fara létt með að næla sér í kvóta og þá er það gert á kostnað einhverra af þessum litlu sem ekki hafa náð fótfestu í þessu kerfi og eru að flosna upp. Það er þessum aðilum létt verk að ganga í sjóði, opinbera sjóði sem aðra, til kvótakaupa. Og jafnvel aðilar alveg ótengdir sjávarútvegi á nokkurn hátt --- það eru dæmi um lögfræðinga og heildsala sem eru að kaupa sér kvóta, sem eru að fjárfesta í kvótakerfinu og beina fjármunum sínum inn á þennan markað, kaupa báta og kvóta sem þeir ráðstafa síðan að eigin vild. Þetta nær nánast ekki nokkurri einustu átt.
    Fjársterkir aðilar geta hæglega gert heilu byggðarlögin óbyggileg á stuttum tíma, nánast einni nótt með kvótakaupum. Þetta kerfi byggir á því fyrst og fremst að þeir sem eru stórir fyrir hafa mesta möguleika á að stækka á kostnað hinna því það er bara ákveðinn rammi utan um þessa fiska sem eru til sölu. Það verður ekki náð í þá nema að taka þá af einhverjum öðrum. Og svo færa menn hugsanlega þennan kvóta sér til eignar, og hafa gert, það eru mörg dæmi um það að menn færa þennan kvóta sér til eignar í bókhaldi fyrirtækja, sýna auðvitað fram á góða stöðu og létta enn róðurinn inn í sjóðakerfið og bankakerfið.
    Menn eru ekki bara að kaupa sér kvóta þegar þeir eru að ná sér í fisk og versla með fisk. Það eru ekki bara þessi kaup á réttinum til að fá að sigla út á sjó og veiða sér fisk. Það fylgja nefnilega þessum eigum dálítil völd. Menn eru að ná sér í völd með því að kaupa sér kvóta. Menn eru að ná sér í völd innan hinna ýmsu samtaka í sjávarútvegi, t.d. innan LÍÚ, SÍF, í útflutningsfyrirtækjum. Eftir því sem menn veiða meiri fisk og verka meiri fisk, þeim mun meira vægi fær atkvæði þeirra í mörgum hagsmunasamtökum. Þetta nær ekki nokkurri átt heldur. Það nær nánast ekki nokkur skapaður hlutur nokkurri átt í þessu kvótakerfi hvað varðar þessar söluheimildir.
    En eigendur þessara smærri báta sem nú eru að selja kvótann af sínum bátum og sína báta geta einfaldlega ekki ráðið því lengur sjálfir hvort þeir selja eða ekki. Það er í raun og veru ekki lengur í þeirra höndum. Hér eftir er það aðeins spurning fyrir þá að gera tjónið, sem þeir nú þegar hafa orðið fyrir, sem minnst og gera það sem léttvægast að flæmast í burtu. Þeim er gert það algjörlega ómögulegt að halda áfram rekstri sinna báta og framfleyta sér á því ef ekki verður gripið í taumana nú þegar.
    Fiskveiðistefnan á auðvitað að vera byggðastefna og hluti af byggðastefnunni. Fiskveiðistefnan á að miðast að því að byggð haldist í landinu, m.a., að búandi sé á þeim stöðum þar sem útgerð og fiskvinnsla er stunduð. Það er fólk á þessum stöðum sem hefur fram til þessa viðhaldið byggð í landinu og lagt sitt af mörkum að fullu og öllu.
En þetta kerfi sem nú er við lýði vinnur að mínu mati algjörlega á móti byggðarsjónarmiðum sem mest má vera og það hlýtur öllum að vera orðið ljóst.
    En það eru ekki bara neikvæð áhrif á byggðamál sem fylgja í kjölfar þessa kvótakerfis. Það eru fjölmargir aðrir neikvæðir þættir sem fylgja í kjölfarið.

Ég ætla að nefna hérna einn þátt sem mér finnst hafa orðið dálítið út undan í umræðunni en er nú í dag orðinn mjög alvarlegur og næstum því afgerandi um áhrif kvótakerfisins á fiskistofnana. Ég veit ekki hvort allir hafa gert sér grein fyrir því.
    Við getum tekið sem dæmi þennan kvóta sem var seldur frá Grímsey hér á dögunum, sem er kannski nærtækasta dæmið í dag, þessi 100 tonn sem voru seld þaðan. Þessi 100 tonn voru veidd af litlum bát, 10 -- 12 tonna bát í Grímsey, mestmegnis í net. Þessir bátar veiða sinn fisk mestmegnis í net á vertíðinni og þetta er stór fiskur. Það þarf ekkert svo ýkja marga fiska í tonnið, eins og sjómenn segja. Við getum bara gefið okkur það að þessi fiskur sé 4,5 kg eintakið, það þurfi svona 200 -- 230 fiska í tonnið. Þessi fiskur er nærri að fullu nýttur. Það er ekki mikið sem fer forgörðum við verkunina. Hann er flattur og hann er saltaður og hausinn er verkaður í herðingu eða söltun o.s.frv. Ef þetta eina tonn, við skulum bara hugsa okkur eitt tonn, ef það er selt af þessum báti yfir á togara, eins og gerðist í þessu tilfelli, þá þarf togarinn ekkert að veiða 200 fiska til að ná í þetta tonn. Það duga honum ekki 300 og ekki 400. Hann þarf að veiða að lágmarki 500 fiska samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Fiskifélagi Íslands. Hann þarf að veiða að lágmarki 500 fiska til að ná í þetta sama tonn. Þunginn er jafnmikill en það þarf að ganga miklu nær stofninum til að ná í þetta. Ég hef enga trú á því að þetta hafi góð áhrif á stærð fiskstofnanna eða afrakstursgetu, fyrir utan það að í þessu ákveðna tilfelli fer þessi trillufiskur þarna yfir á frystitogara sem nýtir kannski ekki nema 35 -- 40% af þessum fiski. Hitt fer bara í sjóinn, beina leið. Beina leið í sjóinn. Þeir veiða tveggja kílóa fisk, sem er hámarksstærð í dag af togarafiski, og nýta 35 -- 40% af honum.
    Þetta getur varla talist hagræðing, þetta getur varla talist einhver áfangi í því að reyna að byggja upp fiskistofnana eins og þetta kvótakerfi á nú að miða að, auka hagræðingu og stækka stofnana. En reyndin er auðvitað sú að það er skerðing á skerðingu ofan á hverju einasta ári frá upphafi.
    En það sem er þó ömurlegast við þetta allt saman að mínu mati eru viðbrögð sjútvrh. við umkvörtunum þessa fólks sem hefur þó ekki lagt það í vana sinn að kvarta nema á því sé harkalega troðið. Viðbrögð ráðherrans hafa að mínu mati einkennst af hroka í garð þessa fólks og af því fyrst og fremst að gera sem minnst úr þessu fólki á allan hátt. Gott dæmi um þessi viðbrögð eru dæmalaus ummæli ráðherrans á fundi með Grímseyingum sem var haldinn ekki alls fyrir löngu. Hann sagðist auðvitað hafa fullan skilning á málunum. Það vantaði ekki. Og ef eyjarskeggjar vildu nú vera svo vænir að gauka einhverjum hugmyndum að honum sem hann gæti unnið úr til að rétta þeirra hlut, þá skyldi hann meira að segja líta á þær. Það held ég nú. En sjálfur sá hann aðeins eina leið. Hún var sú að beina þeim sem illa hafa farið út úr kvótavitleysunni inn í opinberan sjóð svo að þeir gætu þá keypt upp einhvern kollega sinn annars staðar að á landinu og rúllað vandanum svona hringinn í

kringum landið.
    Mig langar til að vitna hér, með leyfi forseta, í ræðu sem Helgi Haraldsson sjómaður hélt á þessum fundi í Grímsey, vitna þar í smákafla úr hans ræðu sem lýsir ástandinu á þessum ákveðna stað sem reyndar er ekkert einsdæmi eins og ég sagði áðan. Hann segir að menn hafi róið og fiskað og þrátt fyrir það að hér hafi fiskurinn ekki verið á neinu fiskmarkaðsverði hafi menn komist af án þess að leita ásjár opinberra stofnana eða lifa á styrkjum frá einum eða neinum. Með sífelldri skerðingu á veiðiheimildum eru stjórnvöld að gera okkur öll með tölu að bónbjargamönnum. Og hann heldur áfram: Gera okkur, sem höfum fram undir þetta getað litið kinnroðalaust framan í fólk, að þurfalingum á framfæri hins opinbera. Þetta virðist vera stefna ráðherrans sem hér er mættur á fundinn og þetta hef ég eftir honum sjálfum, að lausnin á okkar vanda væri sú að leita á náðir Hagræðingarsjóðs. Í því liggur lausnin, þar liggur galdurinn, að fara inn í einhvern sjóð svo að það sé hægt að kaupa einhverja aðra upp. Það þarf auðvitað hugsuði til þess að koma svona málum í gang. (Gripið fram í.) Þeir eru til margir, einfaldir.
    Fleiri Grímseyingar tóku reyndar til máls á þessum fundi og það var mál allra þeirra sem tóku til máls á þessum fundi að skerðing sem þeir lesa út úr tilraunaúthlutun ráðuneytisins á smábáta muni orsaka fólksflótta úr Grímsey því að þeim verður gert algjörlega ómögulegt að gera út þessa báta sína, algjörlega ómögulegt. Og þeir eru ekkert einir um það.
    En eins og ég sagði þá sá ráðherrann aðeins eina leið út úr þessu. Það var inn í Hagræðingarsjóð og Hagræðingarsjóður er nú bara nafnið eitt, sá ég eftir honum í blaði í dag. En þegar Grímseyingar höfðu nánast, eins og ég vitnaði hér í áðan, grátbeðið ráðherrann um að forða sér undan því að þurfa að sækja í slíka sjóði og þeir höfðu reynt á allan hátt að útskýra fyrir honum að þeir vildu ekki láta gera sig að bónbjargamönnum, þá fór nú ráðherrann fyrst yfir öll mörk og ég ætla að vitna hér beint í hans ummæli af þessum fundi:
    Þið segist ekki vilja vera þurfalingar, sagði ráðherrann, en þið lítið ekki á ykkur sem þurfalinga þó að hér hafi verið byggð höfn af almannafé landsins, bætti hann síðan við. Að hér hefur verið byggð höfn af almannafé landsins. Þetta er náttúrlega svo ósmekkleg samlíking sem mest má vera. Að líkja því saman að fólk sé komið á einhvern spena hjá ríkinu, það sé orðið nánast að þurfalingum fyrst búið er að byggja hjá því höfn og þá sjálfsagt flugvelli, vegi og skóla og aðrar opinberar byggingar. Það hlýtur að vera og þess vegna þurfa þeir ekkert að skammast sín fyrir að leita á náðir einhvers sjóðs sem settur hefur verið á laggirnar vegna mistaka í stjórnun fiskveiða. Þetta er auðvitað svo dæmalaust að það tekur engu tali. Og að segja þetta upp í opið geðið á þessu fólki af öllu fólki öðru, það tekur út yfir allan þjófabálk. Þetta fólk sem frá blautu barnsbeini er alið upp við mikla vinnu og er tilbúið að leggja á sig ómælt erfiði til að vera ekki upp á aðra komið. Þetta fólk sem ég leyfi mér að

fullyrða að hefur frekar en margur annar þurft að treysta á mátt sinn og megin og á eigin verðleika fyrst og fremst til að komast áfram í lífinu. Þessu fólki velur sjútvrh. svo ósmekkleg ummæli. Ég efast um að hann geri sér nokkra grein fyrir því í raun og veru hve niðurlægjandi og særandi svona sendingar eru þessu fólki. Og ekki bara Grímseyingum heldur öllum þeim sem lenda illa í kvótakerfinu.
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að mínu mati að þessi mál eru í algjörum ógöngum og það nær ekki nokkurri átt að við þetta sé búið áfram. Þeir sem eiga hér hlut að máli, trillusjómenn og fjölskyldur þeirra, sveitarstjórnir um allt land og hv. þm. hljóta nú að eiga kröfu á einhverjum svörum frá sjútvrh. Er hugmyndin sú að þetta eigi að ganga svona áfram til frambúðar? Er í ráðuneytinu verið að vinna að einhverri lausn þessara mála, einhverri heildarlausn? Ef svo er, hver er hún? Og ef svo er ekki, af hverju ekki þá? Það þarf að takast á við þetta. Hefur ráðherrann engar áhyggjur af fiskistofnum, ef togarar fara að veiða megnið af úthlutuðum kvóta og henda svo kannski helmingnum af honum eins og ég rakti hér áðan? Og þetta er ekkert eina dæmið. Þetta er að gerast í dag og þetta er búið að gerast allt þetta ár og mun halda áfram ef ekki verður gripið í taumana.
    Ég hafði óskað eftir því að forsrh. yrði hér viðstaddur þessa umræðu sem yfirmaður byggðamála í landinu því að kvótamálin eru auðvitað byggðamál og eiga auðvitað að vera byggðamál og einn þáttur í því að viðhalda byggð í landinu. Hvernig blasir þetta við honum sem yfirmanni byggðamála? Ætli hann hafi engar áhyggjur af byggðaröskun í kjölfar kvótaskerðingar smábáta? Hefur Byggðastofnun eitthvað með þessi mál að gera? Eru einhverjar ráðstafanir í gangi? Hvaða hugmyndir hefur ráðherrann til að sporna við hugsanlegum fólksflótta af landsbyggðinni varðandi þessi mál? Eða á kannski bara að láta markaðinn ráða þessu? Kannski hefur forsrh. sem yfirmaður Byggðastofnunar hugsað sér að skipta um hlutverk og hér eftir verði hann bara forsvarsmaður og yfirmaður flóttamannahjálpar einhverra á landsbyggðinni að taka við þessu. ( Gripið fram í: Frjálshyggjunnar.) Eða frjálshyggjunnar, já.
    Ég tel að þetta megi ekki ganga svona öllu lengur, það verði að eyða þeirri óvissu sem grúfir yfir fólki og sjávarþorpum um allt land og er hreinlega að gera út af við fólk, þegar lífsviðurværinu er kippt svona gjörsamlega undan því og allt lífsstarf þess og allar eigur að engu gerðar með einu pennastriki. Landsmenn eiga orðið kröfu, réttmæta kröfu á svörum við þessum spurningum og mörgum fleirum til að eyða þessari óvissu.