Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Karvel Pálmason (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað rangt að hér verði haldið áfram samfelldri umræðu ef það á að slíta hana í sundur. Það er nú það fyrsta við ákvörðun hæstv. forseta. Hér er verið að ákveða að slíta þessa umræðu í sundur og að mínu viti er það rangt. Það er rangt vegna þess að hér er svo mikilvægt mál á ferðinni að það hljóta allir þingmenn, séu þeir með fullu viti ... (Gripið fram í.) Með fullu viti? Ja, ég tel þá nú flesta það, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég tel þá nú flesta það og vil ekki tilgreina neinn sem er undanskilinn í því efni. Ég geri ráð fyrir því að allir þingmenn geri sér grein fyrir því hvað er hér á ferðinni. Hér er á ferðinni lífsviðurværi allra landsmanna og ég trúi því ekki að þeir sem telja sig vera stjórnarsinna --- ég tel mig þar undanskilinn, þó hæstv. forseti hafi nú úrskurðað svo hér áður fyrr að ég væri það ekki, ég tel mig vera þar undanskilinn --- ég trúi ekki öðru heldur en allir hv. þm. geri sér grein fyrir mikilvægi þessa máls, hvað er um að ræða.
    Í öðru lagi vil ég ekki sitja undir hótunum frá hæstv. forseta um það að ef við ekki þegjum þá bara dragist þingið von úr viti. Það er ekkert um það að ræða. Það er í höndum forseta að stjórna þinginu og það hefði mátt koma fram fyrr, fyrir mörgum árum, að þinginu væri stjórnað með eðlilegum hætti. Það má nánast segja að í þau 20 ár sem ég hef setið hér á þingi hafi þinghaldið rétt fyrir jól verið í ,,kaos``. Og það er engin undantekning nú. Það þýðir ekki að hóta okkur hv. þm. með því að segja að ef þið ekki þegið þá verðið þið hér svo og svo lengi, fram að jólum.

    Ég heyri að hv. forseti Nd. þarf að tjá sig og kannski þarf ég að tjá mig á eftir honum. En þetta er satt, hv. þm. Árni Gunnarsson. Svona hefur þetta verið og svona er það. Ég mótmæli því harðlega að þessi umræða sé slitin í sundur því menn vilja auðvitað ræða þetta. Þetta er það mikilvægt mál og deildarfundir geta beðið meðan þetta mál er rætt.