Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Kristinn Pétursson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég skal verða við þeirri beiðni að lengja ekki þessa umræðu. En ég sé ástæðu til þess að minna enn þá einu sinni á það að löggjöfin um stjórnun fiskveiða var rifin af hæstv. Nd. í vor og hæstv. Nd., sem saman telur 42 þingmenn, fékk aldrei að vinna sitt verk. Þar af leiðandi tel ég að nú sé kominn tími til þess að sjútvn. Nd. fái þetta mál til meðferðar. Ég mun gera nánari grein fyrir hugmyndum mínum um það hér á eftir. En ég kom í þennan ræðustól til að undirstrika mikilvægi þessa máls. Hvað er svona voðalega mikilvægt sem krefst þess að þessari umræðu sé frestað og önnur tekin hér upp? Er allt þetta pappírsfargan hér í þinginu svona rosalega mikilvægt að það megi ekki tala um hagsmuni fólksins úti á landi og hagsmuni þeirra sem eru þolendur þessa kvótakerfis? Það er smámál í augum hæstv. forseta Sþ., eftir viðbrögðum hans að dæma, en allt pappírsfarganið er voðalega stórt mál og merkilegt.
    Ég spyr: Hvað liggur við þó þingstörf tefjist eitthvað? Það gerast engin ósköp þó þau tefjist einhverja daga, en það liggur mikið við ef núverandi kvótalöggjöf verður ekki breytt. Þá verður endanlega staðfestur trúnaðarbrestur milli Alþingis og þjóðarinnar, ef ekki nást fram breytingar á þessu og það verður erfitt að byggja þann trúnað upp aftur.