Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið vill forseti taka eftirfarandi fram:
    Forseti vísar því til föðurhúsanna að þingi hafi ekki verið stjórnað svo fullur sómi sé að. Ég vil biðja menn að athuga þau gögn sem lögð eru fram vikulega, bæði til hv. þm. og fjölmiðla, um stöðu þingmála hverju sinni. Ég hygg að ef hv. 3. þm. Vestf. færi að bera saman stöðu mála nú og stöðu mála hér á árum áður kæmist hann að þeirri niðurstöðu að stjórn þingsins væri í allgóðum skorðum.
    Forseti veit ekki hvað hann á að segja við þeim áburði sem menn voga sér að hafa í frammi, að menn leggja forseta í munn orð eins og ,,ef þingmenn ekki þegi``. Ég vil spyrja hv. þingheim: Hefur forseti Sþ. sagt það héðan úr forsetastóli? (VS: Nei.) Svari hver fyrir sig.
    Það sem forsetar eru að reyna að gera er að stýra þinginu. Hér hefur í allri vinsemd verið beðið um að fá að setja deildafundi í um það bil hálftíma svo unnt sé að koma til nefnda eða milli deilda nokkrum málum. Þess vegna talaði ég um að fram færi samfelld umræða, að hv. 3. þm. Vestf. hafði áhyggjur af því að fjölmiðlamenn misstu þráðinn ef umræðan drægist mikið fram á kvöld. Vel má vera að það sé rétt. En þó að þessi fundur frestist nú um hálfa klukkustund get ég ekki séð að hv. þm. fái ekki tækifæri til þess að gefa fjölmiðlum heila mynd af því vissulega alvarlega ástandi sem hér er verið að ræða. Ég bið nú hv. þm. að fara að vilja allra þriggja forseta þingsins og leyfa þeim að efna til hálftíma deildafunda en síðan verði þessum fundi haldið áfram. Það getur ekki talist ósanngirni.