Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil benda á að hér er einmitt verið að slíta sundur þessa umræðu með umræðu um þingsköp. Ég vil hvetja hv. þm. til þess að leyfa þennan hálftíma fund sem um er beðið í deildum. Það hefur auðvitað sýnt sig að réttast hefði verið að byrja með fundi í deildum strax eftir hádegið og hafa síðan þessa umræðu samfellda eftir það en það er greinilega of seint séð. Ég held þar sem þetta mál er brýnt, og ekki vil ég draga úr því, þá ættum við einmitt ekki að slíta þessa umræðu í sundur með umræðum um þingsköp en fara til funda í deildum. Ég minni á það að við erum að sjálfsögðu ekki að ræða þessi mál fyrir fjölmiðla. Þeirra starf er að fylgjast með hér og þeir geta gert það þó að það detti úr hálftími núna til deildafunda.