Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns að ég sakna þess að ekki skuli fleiri vera viðstaddir þessa umræðu. En það er kannski hluti af skýringunni hvers vegna lítið gengur að koma einhverju vitrænu fram í hv. Alþingi þegar sjávarútvegsmál eru annars vegar. Það er enginn áhugi. Það er kannski einhver fiskifýla af þessu öllu saman.
    Ég verð að segja það í upphafi, hæstv. forseti, að ég held að þetta mál og sú uppákoma sem orðin er víða um land sé beinlínis það sem ég og fleiri vorum að vara við í vor að mundi gerast þegar þetta mál var keyrt hér með ofbeldi og hrossakaupum út úr þinginu, sem er þeim sem að því stóðu til ævarandi skammar. Þessi hv. deild fékk að hafa þetta mál í einn sólarhring. Því var rutt út ásamt 14 öðrum málum á einum og sama sólarhringnum. 42 þingmenn fengu 24 klukkustundir til þess að afgreiða lögin um stjórn fiskveiða í þessari deild ásamt 14 öðrum málum. (Gripið fram í.) Þetta snerist náttúrlega allt um hrossakaup í kringum umhverfisráðuneytið og húsbréfafrumvarpið hennar Jóhönnu og fleira. Þessu varð að ryðja öllu saman út og ég veit ekki hvað af þessu er besta löggjöfin. Þetta er allt meira og minna stórvankað og til skammar fyrir Alþingi Íslendinga.
    Það gekk alveg fram af mér um daginn þegar nefndarmenn í báðum sjávarútvegsnefndum Alþingis voru kallaðir til funda til þess að mæta í kennslustund hjá framkvæmdarvaldinu, eins og ég er búinn að segja hér áður, til þess að læra leikreglurnar sem þeir áttu sjálfir að búa til í vor. Búið að hafa gersamlega endaskipti á hlutverki löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Vegna allra þessara uppákoma er manni alltaf að verða það ljósara með hverjum deginum að þær aðvaranir sem maður var að reyna að koma á framfæri í vor höfðu allar við rök að styðjast. En ekki var á neitt hlustað og smám saman er manni að verða það miklu ljósara en nokkru sinni fyrr að málið er kannski miklu alvarlegra heldur en maður hélt þó að það væri. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, að skrifa sjútvn. Nd. bréf í dag og ætla að lesa það hér upp, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Undirritaður nefndarmaður í sjútvn. Nd. Alþingis krefst þess með þessu bréfi að lög um fiskveiðistjórnun frá því í vor verði tekin til endurskoðunar af sjútvn. deildarinnar nú þegar með samþykki forseta Alþingis.
    Ástæðan fyrir þessari kröfu er sú fullvissa undirritaðs að lögin brjóti í bága við 69. gr. stjórnarskrárinnar, um takmörkun atvinnufrelsis, og brjóti einnig í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar, um friðhelgi eignarréttarins og jafnréttisregluna. Dæmi um þetta er nýleg úthlutun á kvóta smábáta sem sviptir marga einstaklinga og jafnvel heil byggðarlög atvinnu og afkomurétti sem er í raun bein eignaupptaka. Einnig eru dæmi um stórfelldar skerðingar sóknarmarksskipa og spurning hversu langt stjórnvöld geta gengið í hringli með leikreglur þannig að fyrirtæki og einstaklingar og jafnvel heilu byggðarlögin séu nánast svipt tilverurétti

sínum.
    Til þess að komast að hinu sanna í máli þessu er lagt til að sjútvn. Nd. fái nú þegar til liðs við sig þrjá af færustu sjálfstætt starfandi lögmönnum í stjórnsýslurétti. Verði þetta gert strax, þannig að álit þeirra um nauðsynlegar breytingar á lögunum geti legið fyrir þegar Alþingi kemur saman eftir jólaleyfi.
    Það skal áréttað að mikilvægi þessarar endurskoðunar verður vart með orðum lýst, því þau vandamál sem af núverandi lögum munu hljótast verða það mikil að mínu áliti, að illgerlegt verður að bæta fyrir þær hörmungar sem af munu hljótast og er ábyrgð alþingismanna mikil í þessu máli.
    Á það skal minnt að allir alþingismenn hafa undirritað á sínum fyrsta fundi í Sþ. drengskaparheit að halda stjórnarskrá landsins svo það er skylda alþingismanna að sjá til þess að lagasetning standist ákvæði stjórnarskrár og verður því eigi vikist undan þeirri kröfu sem hér er fram sett.
    Afstaða til þessa bréfs verður að vera ljós af hálfu sjútvn. Nd. Alþingis og forseta Alþingis fyrir jólahlé.``
    Hæstv. forseti. Í þessu sambandi vil ég minna á að Alþingi Íslendinga barst álit Lagastofnunar Háskóla Íslands varðandi ákveðnar spurningar um eignarrétt á kvóta sem nokkrir menn úr sjávarútvegsnefndum Alþingis óskuðu eftir við umræðuna í vetur. Svarið barst 1. maí 1990 til Alþingis, en var aldrei tekið fyrir á fundi í sjávarútvegsnefndum Alþingis. Hér lá svo mikið á í hrossakaupum að efnislega var álit Lagastofnunar, sem ég er hér með og er 22 blaðsíður um eignarrétt á kvóta og fleira, aldrei tekið til efnislegrar umfjöllunar. Menn varðar ekkert um hvort verið er að fara að stjórnarskrá eður ei. Það var bara ákveðið að hrifsa þetta mál af Nd. Alþingis og allar reglur og grundvallaratriði voru sett út í hafsauga.

    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að vitna hér til niðurlags í áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands: ,,Atvinnuréttindi teljast eign og njóta verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar.`` Þetta er afgerandi setning, hæstv. forseti.
    Enn fremur segir hér: ,,Löggjafanum er heimilt að setja þessum atvinnuréttindum almenn takmörk, enda sé jafnræðis gætt.`` Þá erum við komnir að því, hæstv. forseti, að það er skylda að svokölluð jafnréttisregla, sem ávallt hefur verið talin felast í 67. gr. stjórnarskrárinnar, verði virt. Og hvernig getur það staðist jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar að sumir skuli fá úthlutað kvóta upp á núll, vegna þess að þeir voru með bátana sína í viðgerð? Hvernig getur það staðist að tekjur þeirra sem voru á sóknarmarki skuli skerðast um allt að 70 -- 80%? Hvernig stenst slíkt jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar? Það er full ástæða, hæstv. forseti, til að taka þetta mál og skoða það út frá þessum grunni. Það er kjarni þessa máls. Það er ekki hægt að móta lög um stjórnun fiskveiða með svo gífurlega víðtæka takmörkun á atvinnufrelsi sem raun ber vitni öðruvísi en að það standist stjórnarskrá landsins og sé skoðað nákvæmlega, faglega, en ekki eins og nú, að það hefur aldrei verið litið á það. Dæmi um það er

álit Lagastofnunar sem ég nefndi hér áðan. Það var ekki einu sinni tekið til umræðu í nefndunum. Þetta var allt rifið út úr höndunum á okkur sl. vor. Svo þegar afleiðingarnar gera vart við sig setja menn bara undir sig hausinn.
    Ég ætla að minna hæstv. forseta á það að við vorum að rétta upp hönd í dag og samþykkja alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hvað á nú að þýða að samþykkja alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og traðka svo á þeim með hinum fætinum? Hvað með borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi fólks á Breiðdalsvík þar sem eitt skip verður að sæta skerðingu þannig að það hrynur í tekjum úr 220 millj. niður í 70 millj. kr.? Stenst það jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar að geta sett fyrirtæki í þá stöðu að það hrynji þannig í tekjum? Ég tel engan vafa vera á því að slíkt stenst engan veginn.
    Eins og kom fram hjá málshefjanda eru það smærri staðir sem fara illa út úr þessu. Það er alveg rétt, það fara allir staðir illa út úr þessu kerfi, þjóðin öll. Það væri kannski ágætis prófsteinn á gæði laga um stjórnun fiskveiða ef Grímsey þolir þetta. Þá má kannski segja að hægt sé að búa við þetta. En þegar lögin standast ekki gagnvart smærri stöðum vegna þess hve þau eru ofstjórnarsinnuð þá er eitthvað að sem þarf að laga og það er hlutverk okkar alþingismanna að laga það sem að er.
    Öll þessi kvótakaup og allt þetta brask með kvótann --- einhvern tímann hefði nú verið talað um frjálshyggju. Hvað hefði verið sagt ef Sjálfstfl. hefði átt aðild að þessu braski? ( KP: Hann átti það á sínum tíma, heldur betur.) Ég skil vel að hv. alþm., sem kalla hér fram í, líði illa vegna þess að þeir hafa stutt þetta allt með ráðum og dáð. ( KP: Það er rangt, það var þingmaðurinn sjálfur.) Hv. þm. Karvel Pálmason hélt því fram hér um daginn að ég bæri einhverja ábyrgð á þessari löggjöf. Ég vísa því öllu saman út í hafsauga. Þingmaðurinn á við það að við síðustu kvótalöggjöf greiddi ég atkvæði með þessu. Hann sagði í þingræðu um daginn að ég hefði haft afgerandi áhrif um afgreiðslu kvótalaganna. Það er bara rangt. ( KP: Hver og einn hefur það sem greiðir atkvæði.) Þau lög voru einungis til tveggja ára. ( Gripið fram í : Það breytir engu.) Það breytir heilmiklu. En það er ágætt að menn geti bara gert að gamni sínu með að verið sé að braska með atvinnuréttindi fólks.
    Það stendur í lögum um stjórn fiskveiða að auðlindirnar séu sameign allrar þjóðarinnar. Hver er svo framkvæmdin? Framkvæmdin er sú að þetta sé séreign sem menn geti braskað með. Þetta stangast gjörsamlega á. Það er verið að tala um að lögin banni veðsetningu. Það er búið að veðsetja þetta allt í bak og fyrir. Það stangast gjörsamlega á. Raunverulega finnst mér að ef það á ekki að lagfæra þessi lög, og ég tel að ekki þurfi að lagfæra nein ósköp svona í fyrstu umferð, þá sé verið að brjóta niður endanlega þann litla trúnað sem eftir er milli þjóðarinnar og Alþingis og mátti hann ekki við miklu.
    Alltaf er verið að tala um hagræðingu í þessu sambandi. Hv. málshefjandi kom með ágætis dæmi. Ef

trilla selur skuttogara afla sinn og meðalvigtin lækkar um helming þannig að hann þarf helmingi fleiri fiska. Hvað gerist fleira? Það gerist ýmislegt fleira í þessari svokölluðu hagræðingu. Vinnulaun við að vinna þennan fisk, við vélar, snyrtingu og pökkun hækka kannski úr 60 þús. kr. upp í 350 þús. kr. á mánuði. Er þetta hagræðing? Olíueyðsla vex úr 2 -- 5% á litla bátnum upp í að vera 25 -- 35% á togurunum. Er það hagræðing? Erlendur kostnaður í rekstri stóra skipsins er miklu meiri en litla skipsins. Er það hagræðing? Sannleikurinn um þessa svokölluðu hagræðingu er sá að það sem er að gerast verður til þess að minna verður til skiptanna, það verður minni virðisauki fyrir þjóðina og það verða minni margfeldisáhrif fyrir þjóðfélagið þar sem fiskvinnslan og auður íslensku þjóðarinnar er að mestu kominn úr virðisauka og margfeldisáhrifum sjávarútvegs á iðnað, verslun og þjónustu. Okkar lífskjör í dag byggjast öðru fremur á því.
    Mönnum er tíðrætt um þessa voðalegu hagræðingu í kvótasölunni. Ég spyr: Er það hagræðing ef útgerðarmaðurinn Jón Jónsson kaupir upp vandamál Páls Pálssonar? Vandamálið hefur færst frá Palla til Nonna. Er það hagræðing? Fjárfestingarmistökin sem hafa verið gerð á ábyrgð stjórnvalda hafa verið færð frá einum útgerðarmanni til annars. Ég get ekki séð að nein hagræðing hafi orðið við það. Ekki fjárfestingarlega séð. Einhver minni háttar rekstrarleg hagræðing hefur jú orðið, en hvað segir það móti öllum þeim vandamálum sem verið er að búa til?
    Í sambandi við þessa svokölluðu hagræðingu er mér ljóst að ef sjálfstæðismenn bæru ábyrgð á þessu hefði Tíminn verið prentaður a.m.k. með fimm tommu stöfum, fyrirsögn um frjálshyggju Sjálfstfl. í kvótamálum. (Gripið fram í.) Hv. þm. Karvel Pálmason hefur ekki staðið sig neitt illa í kvótamálinu í þinginu. Ég leyfi mér að segja að ég hef reynt að gera mitt besta til þess að þjóðinni farnist vel í því líka. En þegar hæstv. ríkisstjórn ber ábyrgð á allri þessari frjálshyggju þá er nú verið að hafa endaskipti á hlutunum að kenna Sjálfstfl. um það. Ég vísa því út í hafsauga. Ég tel að það þjóni engum tilgangi og ég tel að það sé verið að skemmta skrattanum að menn séu í einhverju pólitísku karpi um þetta mikilvæga mál. Þetta mál er allt of alvarlegs eðlis til að menn séu með eitthvert pólitískt grín í kringum það. Satt að segja blöskrar mér að menn skuli geta verið með eitthvert pólitískt grín í sambandi við það að verið er að aflífa fullt af sjávarþorpum úti um allt land, það er bara eitthvert pólitískt grín. Furðulegt.
    Ég ætla að ítreka það að lokum, hæstv. forseti, að fyrst þegar ég talaði um þetta mál á hv. Alþingi minnti ég á 69. gr. stjórnarskrárinnar, um takmörkun atvinnufrelsis. Það er bannað samkvæmt 69. gr. að takmarka atvinnufrelsi borgaranna nema í þágu almannaheilla. Ég tel að það sem verið er að gera með þessari löggjöf í dag sé raunverulega þveröfugt. Ég tel að almannaheill íbúa landsbyggðarinnar í minni og stærri sjávarþorpum stafi raunverulega stórhætta af þessari löggjöf. Saklaust fólk víða um land verður

fórnarlömb þessarar tilraunastarfsemi ofstjórnar. Það er vel hægt að hafa leikreglur einfaldar án þess að skaða nokkra fiskstofna. Skiptir þá ekki máli hvort veitt er 10 þús. tonnum meira eða minna. Skiptir engu máli fyrir fiskstofnana. Það sem skiptir máli er að íbúar úti á landi geti búið við eitthvert öryggi og þeir sem búa við þetta kerfi geti raunverulega treyst stjórnvöldum fyrir því að þeir megi draga björg í bú eins og þeir hafa alltaf mátt án þess að verið sé með þá á gjörgæslu og að stærsta atvinnugrein þjóðarinnar verði rekin eins og stórt dagheimili.
    Það er von að maður spyrji: Af hverju máttu sjávarútvegsnefndir Alþingis ekki vinna í þessu máli í sumar? Af hverju var þingi slitið og þetta rifið allt út úr höndunum á nefndamönnum? Hæstv. sjútvrh. vill kannski svara því. Af hverju máttu kjörnir leiðtogar þjóðarinnar til þess að búa til lög ekki fjalla um þetta mál í sumar? Þá hefði verið hægt að sníða af þessu mestu hnökrana. Það á að vera hlutverk okkar alþingismanna að semja leikreglurnar og framkvæmdarvaldið á að framkvæma það eftir þeim reglum. Það er það sem stjórnskipun landsins býður upp á, að löggjafarvaldið semji lögin og ríkisstjórn og ráðuneyti framkvæmi síðan eftir þeim. En eins og ég sagði hér í upphafi er búið að hafa endaskipti á þessu og hv. alþm. eru teknir í kennslustund til þess að læra leikreglurnar sem þeir áttu sjálfir að búa til. Ég ítreka þá kröfu mína, hæstv. forseti, að þessi mál verði tekin í vinnslu hér í þinginu sem allra fyrst.