Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegur forseti. Það er nú orðið öllum augljóst hve mikil skammsýni það var þegar lög um fiskveiðar voru samþykkt á sl. vori að binda ekki kvótann að hluta við byggðarlög. Nú blasir það við að smærri bátar hafa margir fengið slíka skerðingu að ekki er grundvöllur til afkomu fyrir eigendurna lengur. Þessir menn geta ekkert gert annað en að selja sínar veiðiheimildir og ekki hafa aðrir bolmagn til að kaupa en stórir útgerðaraðilar. Veiðiheimildir eru því sem óðast að safnast á fárra manna hendur án tillits til þess hvernig það kemur við dreifðar byggðir landsins. Og það er þegar augljóst að þau byggðarlög sem byggja afkomu sína á smábátaútgerð eru í alvarlegum þrengingum, svo alvarlegum að þar horfa menn fram á eignamissi og afkomuhrun af þeim sökum.
    Í Grímsey lifa menn einvörðungu af sjávarsókn og hafa ekki í neitt annað að leita. Grímsey hefur því oft verið höfð sem dæmi um byggðarlag sem muni leggjast af við þær veiðiheimildaskerðingar sem nú eru ákvarðaðar þó vissulega sé líkt háttað um fleiri. Grímseyingar hafa fengið þau svör við sínum óskum um endurskoðun á veiðiheimildaskerðingu til þeirra að þeir haldi sínu hlutfalli af heildarafla og það hlutfall hafi verið um það bil 0,5%. En um það bil þýðir allt frá 0,45 til 0,55% og hvað liggja mörg hundruð eða þúsund tonn þar á milli? Þeirri spurningu hafa Grímseyingar aldrei fengið svarað. En á töluverðu gæti oltið fyrir þá sem aðra að það kæmi í ljós og þeir eiga kröfu á að fá svar við þeirri spurningu.
    Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. sömuleiðis: Er það meðvituð aðgerð til að ná fram því sem hann kallar hagræðingu í veiðum, að safna veiðiheimildum á þennan hátt á fárra manna hendur til að flotinn minnki og smábátum verði útrýmt? Er það hagræðing á veiðum að leggja niður veiðar sem skila allt að 90% nýtingu og fá þær í hendur togurum með tilheyrandi smáfiskadrápi og vannýtingu í þokkabót? Hvernig verður fyrir sjútvrh., hver sem hann er, að starfa þegar allar veiðiheimildir eru orðnar eign --- og ég segi eign örfárra aðila sem geta þá sameinast um að beita hann þrýstingi í þá átt sem þeir óska á hverjum tíma? Það er þegar vitað að veiðiheimildir eru álitnar eign. Gott ef þær eru ekki bókfærðar þannig, þrátt fyrir 1. gr. laga um fiskveiðar sem segir að nytjastofnar hafsins séu eign þjóðarinnar allrar. Kvótaverslun er hagsmunamál þeirra ríku því að aðrir geta ekki keypt. Veiðiheimildir verða erfðagóss í framtíðinni. Og eru menn þess fullvissir í sjútvrn. að þetta stjórnunarfyrirkomulag sé besta kerfið? Væri ekki staðan önnur ef tillaga Kvennalistans um að binda kvóta að hluta við byggðarlög hefði verið tekin til greina? Þetta er líka spurning um byggðarstefnu. Ríkisstjórnin hefur það í sínum málefnasamningi að efla byggðir landsins en e.t.v. líta þeir landsbyggðarbúar sem hingað til hafa stutt hana ekki svo á að með þessum ákvörðunum sé verið að styðja þær byggðir sem höllum fæti standa.
    Hæstv. sjútvrh. hefur fyrr tekið að sér óvinsælar aðgerðir fyrir forsrh. sinn, svo sem það að undirrita

bráðabirgðalög. Er það svo í framhaldi af því hlutverki hans að sjá um það fyrir forsrh. að nokkrar byggðir á landinu verði óþarfar og megi strikast út af kortinu þrátt fyrir að tugmilljónum, ef ekki hundruðum milljóna, hafi verið varið til uppbyggingar þar á undanförnum árum? Þeir köldu útreikningar sem notaðir eru við slíkar ákvarðanir og meta einskis mannlega þáttinn í málinu eiga engan rétt á sér.
    Ég vil beina þeirri ósk til hæstv. sjútvrh. að hann noti tímann fram að áramótum til að semja í fullri vinsemd um endurskoðun og breytingar á þeim ákvörðunum sem fyrir liggja nú.