Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki að undra þó að rætt sé hér á Alþingi trekk í trekk utan dagskrár um stjórnun fiskveiða, afleiðingar þeirrar löggjafar sem sett var sl. vor af þinginu. Í rauninni er hún afleiðing þess kerfis sem byrjað var að lögfesta 1983
og hefur síðan verið endurskoðað nokkrum sinnum á vegum stjórnvalda og þingsins. Ég held að öllum sé ljóst að í þessu kerfi og í þessum lögum sem við höfðum búið við síðan 1983 eru mjög miklar innri mótsagnir. Þær eru ekki minni eftir að það var lögfest í 1. gr. þessara laga að frumkvæði Alþb. að því væri slegið föstu að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum væru sameign þjóðarinnar. Það var tillaga okkar þegar í upphafi að svo yrði gert, það yrði lögfest. Það var lítið gert úr því, en það kom að því að þingið tók undir það og þetta var sett inn í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Hins vegar var ekki farið að þeirri tillögu Alþb., ekki heldur við endurskoðun laganna á síðasta þingi, að taka upp byggðakvóta og halda utan við sölu, ef skip er selt úr byggðarlagi, meiri hluta aflans, veiðiréttindanna, að þau fylgdu ekki skipinu. Meiri hluti Alþingis bar ekki gæfu til að taka undir þessar tillögur og mér finnst að þær hafi ekki notið þeirrar athygli almennt sem þeim ber og þá jafnhliða þær tillögur, með nokkuð annarri útfærslu, sem hv. þm. Kvennalistans báru fram um þetta mál.
    Ég hlýt að taka undir það að það var óhóflega skammur tími sem þingið tók sér --- ég segi sem þingið tók sér sl. vor, og alveg sérstaklega neðri deild þingsins, til að vinna að endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða og varðandi afgreiðslu þess máls. Ég hef ekki staðið með lakari samvisku í sambandi við afgreiðslu neins máls hér á Alþingi en þess lagafrv. sem samþykkt var hér eftir að neðri deild þingsins hafði fjallað um málið í 1 1 / 2 sólarhring eða svo í lokaönnum þingsins og sjávarútvegsnefnd þingsins hafði rétt komið saman líklega einu sinni eða tvisvar til þess að líta á málið en í raun ekki til þess að fjalla um það. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar Alþingi gefur sér ekki tíma til að fjalla um þýðingarmestu mál af meiri vandvirkni en þarna bar raun vitni og þingið á ekki við neinn að sakast nema sjálft sig að þannig er haldið á málum. Það nægir ekki að vísa til ríkisstjórnar, ofríkis ríkisstjórna eins og við gerum oft, ekki síst stjórnarandstaðan, heldur eigum við hér við sjálf okkur að eiga í sambandi við slíka málsmeðferð þótt vissulega skipti forusta ríkisstjórna í stórum málum ávallt miklu. Ég held að við séum í raun að uppskera núna á þessu þingi og þessum vikum afleiðingarnar af því hvernig við stóðum að málum á síðasta þingi að þessu leyti og kannski var það nauðsynlegt, kannski varð ekki hjá því komist að menn færu að sjá fram á afleiðingar þeirrar lagasetningar, með einum eða öðrum hætti, til þess að menn tækju við sér og færu að fjalla um málin frá dálítið öðru sjónarhorni en gert var þegar ákvarðanir voru teknar sl. vor í þessu máli. Þær hrópandi mótsetningar sem eru í löggjöfinni milli ákvæða 1. gr. laganna um fiskstofnana sem sameign þjóðarinnar og hins vegar heimildar til framsals veiðiréttinda, til framsals á kvóta og sölu á kvóta, eru slíkar að það er auðvitað útilokað að það verði lengi við þær búið, slíkar mótsetningar í löggjöf í landinu. Það er að skapast hér eignarréttur á fiskstofnunum og þingið þarf að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar fyrr en seinna, áður en sá réttur festist í sessi með ákvarðandi hætti og ekki verður aftur snúið.
    Menn hljóta líka, og komast ekkert hjá því, að taka á afleiðingum þeirrar löggjafar sem við nú búum við og þá hljóta alþingismenn og þingið í heild að standa frammi fyrir því: Ætla menn að breyta henni, ætla menn að breyta löggjöfinni til samræmis við þau markmið sem sett eru fram í 1. gr. gildandi laga, m.a. um atvinnu, rétt til atvinnu, og varðandi byggðir í landinu? Það er auðvitað dagljóst að fái það kerfi að þróast áfram sem nú er lögfest með þeirri útfærslu sem er í gangi á þessu kerfi rekur hér fullkomlega í strand í einu byggðarlaginu á fætur öðru þannig að grundvallarréttur fólks til útgerðar og atvinnu á þeim stöðum vítt um landið er frá því tekinn og menn standa frammi fyrir þessu: Á að leggja byggðirnar af eða ætla menn byggðunum líf? Auðvitað er þetta afleiðing af því að í reynd eru menn að láta markaðsöflin stjórna þessu kerfi, að láta markaðsöflin um það að vera ráðandi um það hvert stefnir í útgerð í landinu.
    Ég held að fátt sé nauðsynlegra fyrir þingið en að vinna að þessum málum, auðvitað þar á meðal sjávarútvegsnefndir þingsins, og það þarf væntanlega enginn að heimila þeim það að taka á slíkum málum, hvorki stjórn eða stjórnarandstöðu, enda í raun beinlínis gert ráð fyrir því í ákvæði til bráðabirgða í lögunum um stjórn fiskveiða að unnið sé að þeim málum eins og þar segir, í 7. tölul. ákvæða til bráðabirgða, og raunar er það hæstv. sjútvrh. sem á að hafa þar forustu, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Skal athugunin, er m.a. taki mið af reynslu annarra þjóða, beinast að því að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga. Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Það er ekki eftir neinu að bíða að fara ofan í þessi mál. Það er ekki eftir neinu að bíða. Menn þurfa til þess tíma. Þingið þarf til þess tíma og það á að taka sér þann tíma og ekki að bíða eftir því að framkvæmdarvaldið hafi þarna frumkvæði. Ef það gerir það ekki sjálft á þingið að taka það mál upp að eigin frumkvæði og viðkomandi þingnefndir að mínu mati.
    Eðlilega eru fyrirferðarmikil í þessari umræðu, virðulegur forseti, málefni smábáta og afleiðingar af

lagasetningunni að því er þá varðar. Og það er mjög skiljanlegt vegna þess að um þær veiðar giltu sérstakar reglur. Þær voru ekki jafnbundnar og varðandi skip yfir 10 brúttórúmlestum eða 6 brúttórúmlestum, en þetta kerfi var fært niður í minnstu skel í rauninni við lagasetninguna sl. vor. Nú gildir í rauninni bara sami réttur og til berjatínslu varðandi veiðar, að það er rétt heimilt að fiska til matar en ekki til framsals á minnstu bátum. Og afleiðingarnar af þessu kerfi varðandi smábátana eru nú að koma í ljós. Þó að það sé í rauninni ósköp hliðstætt kerfi sem var verið að lögleiða varðandi smábátana eins og gilti um hina stærri, þá verður uppbygging kerfisins og þær reglur sem farið er eftir enn þá augljósari og hvert stefnt er þegar menn hafa það fyrir augum að þeir sem áttu bát og höfðu öðlast veiðireynslu og fá úthlutað aflamarki sitja allt í einu uppi með veiðirétt sem felast í stórar fjárhæðir og hafa heimild til framsals á honum.
    Afleiðingarnar af þessu kerfi, einnig varðandi smábátana, eru auðvitað þessar: það leiðir til fækkunar, leiðir til þess að þeir stóru verða enn þá stærri, þeir sem bolmagn hafa til að kaupa upp aflann, veiðiréttinn. Það er þangað sem þetta kerfi leiðir óhjákvæmilega á meðan menn ekki taka á því og setja nýjar leikreglur.
    Í þessu sambandi vil ég síðan aðeins nefna þær aðstæður sem fiskvinnslufólkið býr við því að það er ekki aðeins spurningin varðandi útgerðina og veiðarnar heldur engu síður áhrifin og afleiðingarnar fyrir fiskvinnslufólkið sem verið er að taka atvinnuna frá og tekjurnar með ráðstöfun og sölu á veiðirétti, á kvóta, milli byggðarlaga eins og við erum vitni að nú frá viku til viku og á eftir að taka á sig mjög alvarlegar myndir áður en langt um líður, enn alvarlegri en við höfum horft framan í, á meðan þetta kerfi fær að virka eins og leikreglurnar eru lögum samkvæmt. Það er því mín hvatning til hv. þingmanna, og hún gildir þá einnig um sjálfan mig, að við tökum á þessum málum í þinginu, þegar á þessum vetri, látum ekki þetta þing líða án þess að alvarleg atrenna sé gerð að endurskoðun þeirra laga sem lögfest voru sl. vor, hefjum þá endurskoðun og leiðum hana helst til lykta á þessu þingi ef um það tekst samstaða, vegna þess að fái þessar leikreglur að gilda áfram verða afleiðingarnar þeim mun alvarlegri sem menn þá þurfa að glíma við innan skamms. Eins og ég hef nefnt snerta þær tilvist sjávarbyggðanna allt í kringum landið. Þær munu koma fram misjafnlega fljótt á hinum einstöku stöðum en þingið mun þá ekki komast hjá því að svara stórum spurningum sem snúa að undirstöðu atvinnu og lífsbjargar hjá fólki vítt um landið og það hlýtur að vera skylda okkar alþm. að horfa svolítið fram á veginn og taka á þessum málum áður en í mesta óefni er komið. --- [Fundarhlé.]