Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt fór fram deila um það fyrir nokkru á hvaða vinnupunkti bæri að afhenda inn í Alþingi gögn um úthlutun á kvóta. Nú standa mál þannig að ákveðnum hópi þingmanna hafa verið afhent þessi gögn sem trúnaðarmál en hér í sal Alþingis fara fram umræður sem byggjast á þessum gögnum.
Það er gersamlega vonlaust að búa við það, herra forseti, að þannig sé staðið að málum að umræða eigi sér stað í Sþ. þar sem aðeins örlitlum hópi þingmanna séu afhent gögn í málinu. Hinir verði bara að éta það sem úti frýs í þeim efnum.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst að hæstv. forseti hljóti að verða að fresta þessari umræðu og stöðva hana nú þegar og afla upplýsinga í þessu máli þannig að þingmenn standi jafnt að vígi hvað það snertir að geta rætt þetta mál. Ég skil ekki þann grundvöll að afhenda inn í þingið trúnaðargögn og taka svo upp umræðu um málið og halda þannig miklum meiri hluta þingmanna utan við eðlilegar upplýsingar. Þetta bara gengur ekki. Ég er ekki í sjútvn., hvorki Ed. né Nd. Hins vegar er ég þingmaður fyrir kjördæmi þar sem hærra hlutfall íbúanna vinnur að fiskveiðum en í nokkru öðru kjördæmi á Íslandi og hærri prósenta er í fiskvinnslu en í nokkru öðru kjördæmi á Íslandi.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti geri sér grein fyrir þeirri alvöru sem hér er um að ræða. Það hlýtur að vera spurning um jafnrétti milli þingmanna að gögn séu ekki ákveðin til afhendingar einhverjum úrvalshóp sem trúnaðarmál, en svo sé tekin upp umræða í Sþ. um málið á eftir. Mér finnst þetta svo fráleit staða að ég á ekki eitt einasta orð yfir vinnubrögðin.
    Ég segi þess vegna í fullri vinsemd: Telur forseti eðlilegt að þannig sé að málum staðið að hér fari fram umræða um mjög stórt mál, vissulega mjög stórt mál, og miklum meiri hluta þingmanna sé gersamlega haldið utan við upplýsingar um málið? Ég tel það alveg fráleitt og ég skil hreinlega ekki að hægt sé að hafa utandagskrárumræðu um málið undir þeim kringumstæðum.