Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þegar því er lýst úr forsetastól að öllum sé kunnugt um það sem hér sé til umræðu get ég ekki skilið það á annan veg en þann að forseti líti svo á að þau umræddu gögn sem send hafa verið til þingsins séu frjáls til aflestrar fyrir alla sem hér eru. Ella verð ég að lýsa yfir fáfræði minni um það hvað einstakir bátar hafa fengið í úthlutun. Ég tek því ekki sem neinum sjálfsögðum hlut að forseti standi þannig að málum að hér séu mál til umræðu sem aðeins hluti þingmanna hefur undir höndum. Ég mótmæli þeim vinnubrögðum og ég krefst jafnréttis. Það dugir ekki bara jafnrétti þegar dregið er um stóla hér í þinginu. Þessi hringavitleysa gengur ekki upp. Annaðhvort verður forseti að beita sér fyrir því að þessi gögn séu afhent öllum þingmönnum sem trúnaðarmál. ( HBl: Þingmenn eru misjafnlega jafnir.) Þingmenn eru misjafnlega jafnir, segir hv. 2. þm. Norðurl. e. Það má vel vera að svo sé en ég hélt að það ætti að gilda jafnt að trúnaðarmál bæri að afhenda öllum þingmönnum. Ég skil ekki hvaða forréttindi þarna er um að ræða. Ég hreinlega skil það ekki. Og ég skil ekki hvernig hæstv. forseti getur ætlast til þess að við sitjum hér undir þessari umræðu án þess að fá þessi gögn í hendur. Mér finnst það skrýtið ef hæstv. landbrh. getur ekki talað áfram í þessari umræðu því að mér skilst að það sé hans varamaður sem hér hafi talað. Það er gersamlega ólíðandi að til umræðu í þinginu sé jafnstórt mál og þetta og stórum hluta þingmanna, herra forseti, sé gersamlega haldið utan við upplýsingar um þá hluti sem verið er að ræða um, sem er skipting á kvóta til smábáta. Það er gersamlega ólíðandi. Ég skil hreinlega ekki hvernig forseti hugsar sér það að almennir þingmenn uni þeim vinnubrögðum. Ég hefði gaman af að sjá þingmenn Alþb. una því að hér væru tekin til umræðu málefni um einhvern sérstakan málaflokk, sem gæti verið af hvaða toga sem er, og þeim væru ekki afhent nein gögn í málinu. Ég hefði gaman af að sjá hvernig þeir tækju því. Það er hætt við að þá yrði heitt í kolunum.
    Herra forseti. Ég vænti þess að forseti geri sér grein fyrir því að þessi krafa sem hér er sett fram er sett fram vegna þess að hún er eðlileg. Það er gersamlega ólíðandi að sitja undir því að hér haldi áfram umræður um þetta mál án þess að þingmönnum sé gefinn kostur á að fá gögn í hendur eða í það minnsta að forseti lýsi því yfir að hann muni beita sér fyrir því að þeir þingmenn sem ekki hafi gögnin í höndum nú fái þau.