Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka það sjónarmið sem ég hef í þessu máli. Hér er ekki um innanhússplagg hjá sjútvrn. að ræða í þeim skilningi að þessu plaggi sé einungis haldið innan dyra í sjútvrn. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að lýsa því yfir að þetta sé innanhússplagg sem aðrir sjái ekki. Ég fullyrði þvert á móti að hér sé um heimildir að ræða sem hafi verið sendar skriflega út um allt land og vitaskuld eiga alþingismenn rétt á því að fá að sjá opinber gögn eins og bréf sem sjútvrn. sendir einstökum útgerðarmönnum um það hvers þeir geti vænst að fá í aflaheimildum á næsta ári. Ég tala nú ekki um þegar málið er þannig vaxið að löggjafinn hefur jafnan meira og minna áskilið að sjútvrh. skuli láta sjávarútvegsnefndir fylgjast með framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða.
    Ég mun á öðrum vettvangi, hæstv. forseti, taka það mál til athugunar í hverju eftirlit Alþingis eigi að vera fólgið með framkvæmd einstakra laga. Ég vil minna hæstv. sjútvrh. á það að hann starfar í umboði Alþingis. Honum er falið að framkvæma þau lög sem Alþingi setur á hverjum tíma. Í mínum huga er algerlega út í hött að reyna að halda því fram að þær sérstöku upplýsingar, sem meiri hl. sjútvn. Ed. hefur nú beðið um, séu annars eðlis en margvíslegar upplýsingar sem við höfum áður fengið, sjávarútvegsnefndarmenn, þegar um undirbúning laga um stjórn fiskveiða hefur verið að tefla. Ég vil að þetta komi skýrt fram. Lítil viðurkenning á sérstöðu þessara laga og sjútvn. í þeim efnum er að hæstv. sjútvrh. lét starfsmenn sína koma á fund sjútvn. og sat þar sjálfur mikið af tímanum til að kynna sjávarútvegsnefndarmönnum efni reglugerðar sem átti að gefa út um fiskveiðikvóta fyrir smábáta. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig hægt sé að ætlast til þess að einstakir menn í sjávarútvegsnefndum geti tekið afstöðu til reglugerðarinnar þegar komið er með hana fullsmíðaða ef þeir hinir sömu menn mega ekki sjá þau gögn sem liggja til grundvallar reglugerðarsmíðinni og eru raunar afrakstur hennar. Þessu máli er ekki lokið, hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. 2. þm. Vestfirðinga segir. Þingmenn gætu, ef þeir tækju sig saman, náð öllum listanum úr sjútvrn. með því að hver þingmaður bæði um einstakan stað eftir þeirri framkvæmd sem hefur verið á málinu. T.d. væri ógerningur fyrir sjútvrn. eins og nú er komið að neita þingmanni Reykvíkinga um úthlutun til smábáta frá Reykjavík eftir þá afgreiðslu sem hv. þm. Skúli Alexandersson hefur fengið varðandi Hellissand.