Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Hér hefur einu sinni enn farið fram allítarleg umræða um stjórn fiskveiða og er ástæða til að fara um það allmörgum orðum. En ég skal með tilliti til þess sem hæstv. forseti hefur sagt, að margt annað liggur fyrir þessu þingi, reyna að vera stuttorður þótt ég viðurkenni það mjög fúslega sem hv. þm. hafa sagt, að hér er um mikilvægt mál að ræða.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hóf þessa umræðu, hélt því fram að fiskveiðistefnan ætti að vera byggðastefna og sú stefna sem nú væri rekin ynni á móti byggðastefnu. Það er nú svo að við Íslendingar lifum fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskvinnslu. Það varðar byggð í öllu landinu að þar sé vel haldið á málum og þessi atvinnugrein sé rekin með hagkvæmum hætti. Það er ekki bara undirstaða byggðar í hverju og einu byggðarlagi heldur í landinu öllu. Við Íslendingar höfum gert okkur góða grein fyrir þessu og við höfum verið að reyna að taka á þessum málum með þeim hætti að þessi atvinnugrein væri rekin þannig að hún gæti staðið undir góðum almennum lífskjörum í landinu. Ég vil halda því fram að það hafi atvinnugreinin gert og þurfi að gera það í vaxandi mæli í framtíðinni. Þetta er aðalatriðið. Svo geta menn að sjálfsögðu deilt um hvernig þeim fiski, sem við teljum að hæfilegt sé að veiða, skuli skipt á milli einstakra aðila í landinu. Þar eru uppi margvísleg sjónarmið. Allt það sem hér hefur komið fram ber þess vott að alls staðar sé of lítið. Það sé of lítið í Grímsey, það sé of lítið á Húsavík, Breiðdalsvík, Bakkafirði, Borgarfirði eystra, Drangsnesi og í öllum þeim byggðarlögum sem hér hafa verið nefnd. Ég bið hv. þm. um að nefna það byggðarlag þar sem of mikið er af fiski til vinnslu og nefna þá aðila sem sérstaklega fara vel út úr þessari skiptingu. Ég hef ekki hitt þá fyrir enn. Má vel vera að hv. þm. hafi gert það. Hér er að vísu sagt að of mikið af afla sé flutt úr landi óunnið, sem er rétt. Jafnframt er sagt að tilraunir til þess að hamla þar á móti sé úrelt skömmtunarkerfi sem ekki fái staðist og lítt lagt þar til mála á móti, enda málið alls ekki einfalt þegar á að reyna að taka utan um svo viðkvæm mál. Því er jafnframt haldið fram að of mikið af fiski sé fryst á hafi úti. Það er rétt að þar hefur verið mikil þróun. Hins vegar hefur sú atvinnugrein verið hagkvæm og skilað miklum tekjum. Og það er nú eðli slíkra atvinnuvega að leita í þær áttir þar sem hagkvæmnin er meiri. Það er jafnframt rétt að allt það sem er að gerast kann að koma illa við marga, þar á meðal ýmis byggðarlög.
    Ég hef ávallt viðurkennt að það þurfi að líta til sérstöðu ákveðinna byggðarlaga. Hins vegar er þar engin auðveld lausn og ég varð ekki var við að hv. 4. þm. Norðurl. e. benti á það. Hann lagði aðaláhersluna á að ekki mætti selja aflaheimildir frá einu skipi til annars. Nú er það svo að á Íslandi hafa fiskveiðiheimildir alltaf fylgt fiskveiðiskipum. Það er ekkert nýtt. Það sem er nýtt er að heimilað hefur verið að framselja aflaheimildir milli skipa þannig að það mætti

takast að minnka fiskiskipaflotann. Því miður er engin önnur leið í þeim efnum en að leyfa slíkt framsal eigi að takast að minnka fiskiskipaflotann.
    Nú má vel vera að menn séu þeirrar skoðunar að það skuli ekki gert og rétt sé að halda úti öllum þeim skipum sem við gerum út í dag. Ég er ekki þeirrar skoðunar og tel það andstætt þeirri stefnu sem við hljótum að fylgja, að byggja upp góð almenn lífskjör í landinu. Það eru hins vegar margir þeirrar skoðunar að þetta eigi alls ekki að heimila. Hins vegar er engum vafa undirorpið, a.m.k. ekki í mínum huga, að slíkt mun leiða til þess að menn verða almennt að sætta sig við verri lífskjör hér á landi þegar fram líða stundir. Ég veit ekki markmið þeirra sem þessu halda fram. Sú niðurstaða sem bæði ég og fleiri, sem að þessum málum hafa komið, höfum komist að, og hef ég ekki efast neitt um það, er að flotinn er of stór og hefur ekki gengið nægilega vel að minnka hann. Ég tel hins vegar ljóst að það mun ganga betur í framtíðinni fái þessi lög að halda gildi sínu.
    Hv. þm. ásakaði mig um hroka í garð þess fólks sem ég hefði verið að tala við í þessu viðkvæma máli og þá sérstaklega í Grímsey. Það má vel vera að hann líti á það sem hroka en það var ekki ætlan mín. Á fundi þar kom það skýrt fram hjá einum sem talaði að þeir Grímseyingar vildu ekki taka við einu né neinu úr einhverjum sjóðum. Nánar tiltekið Hagræðingarsjóði. Það sem ég lagði áherslu á, ég hef ekki nákvæmlega orðalagið en ég býst við að það sé til í upptöku Ríkisútvarpsins og megi fá það prentað upp, var að til þess að við gætum tekið á sameiginlegum málum yrðum við oft að sætta okkur við að gera það með þeim hætti að stofna til sameiginlegra sjóða og sameiginlegra úrræða. Ríkissjóður er þannig úrræði, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Í ríkissjóði kemur fram samtakamáttur fólksins í landinu, í sveitarsjóðunum líka, þar sem menn leita sameiginlegra lausna. Og þegar svo er komið að við höfum viðurkennt að við verðum að takmarka aðganginn að auðlindinni, skipta aðgangi að auðlindinni upp á milli ákveðinna aðila og síðan hafa menn hugsað sér að taka sérstaklega á einstökum atriðum og einstökum málum, þá er ekki hægt að viðurkenna þá sérstöðu og taka á því nema með einhverjum slíkum sameiginlegum hætti. Í því felst enginn hroki heldur almenn viðurkenning á staðreyndum.
    Sumir þeirra hv. þm. sem hér hafa talað eru því miður ekki hér inni og skal ég ekki vera að svara því sem fram hjá þeim hefur komið. Þó get ég ekki annað en svarað hv. 7. þm. Norðurl. e. þegar þingmaðurinn spurði hvort það væri á stefnuskrá stjórnvalda eða unnið markvisst að því að útrýma smábátum, hvort það væri meðvituð aðgerð. Ég held að öllum sé ljóst sem til mála þekkja að ekki er hægt að líta svo á að reynt hafi verið að útrýma smábátum eða fækka þeim með mjög markvissum aðgerðum á undanförnum árum. Hér var það nefnt af einum hv. þm. að hann hefði upplýsingar um að búið væri að selja 200 smábáta. Ég hef því miður ekki neinar upplýsingar um það, enda býst ég ekki við að þær liggi neins staðar

fyrir. En ég vil jafnframt benda hv. þm. á að smábátum fjölgaði á árinu 1990 um 140 og afli smábáta hefur frá árinu 1983 aukist úr 11 þús. þorsktonnum í um 45 þús. þorsktonn. Þessi afli og þessir bátar hafa að sjálfsögðu orðið til þess að auka atvinnu í öllum þeim byggðarlögum þar sem þeir hafa verið keyptir. Þessi afli hefur hins vegar ekki verið viðbót við heildarafla landsmanna heldur hefur afli annarra skipa í flotanum minnkað samsvarandi. Og það vita allir hv. þm. sem að þessu máli komu að það gekk því miður ekki lengur að afli þessara báta væri stöðugt að vaxa. Það varð að reyna að ná saman um það með hvaða hætti afli þessara skipa skyldi takmarkaður eins og annarra. Það þarf engum að koma á óvart að einhverjir þessara báta hafi verið seldir, m.a. vegna þess að til sumra þessara fjárfestinga var stofnað af mikilli bjartsýni eins og gengur og gerist. Og það gekk ekki upp í öllum tilvikum. Margir hafa notað tækifærið og reynt að losa sig frá þeim vanda sem þeir voru komnir í.
    Nú mætti halda af orðum sumra hv. þm. að allir væru að selja þessa báta og allar aflaheimildir landsmanna að þjappast saman á örfá skip. Svo er alls ekki og langt í frá. Það sem er verið að gera með þessum ráðstöfunum er að tryggja til langframa hagsmuni þeirra aðila sem eiga þessa báta og skip vegna þess að það er vitað að ef fleiri skip bætast við mun það taka frá þeim sem fyrir eru og rýra þannig hagsmuni þeirra.
    Nú er sagt að allir fari illa út úr þessu, eins og hv. þm. Kristinn Pétursson segir, öll þjóðin fari illa út úr þessu. Ef rétt er að allir fari illa út úr þessu og þjóðin jafnframt, þá er nú von að menn vilji breyta og gera eitthvað nýtt. Hv. þm. er bjartsýnismaður um íslenska fiskstofna og vonandi hefur hann rétt fyrir sér að það sé ekkert tiltökumál að auka veiðina. Sé það rétt mun það koma í ljós á næstu árum og ekki nokkur vafi á því að komandi kynslóðir munu þá njóta góðs af því.
    Því miður er það samt ekki skoðun allra að fiskstofnarnir séu nægilega sterkir og þess vegna þurfi þeir allmikla friðun og takmarka þurfi afla ef ekki eigi að ganga allt of nærri þeim. Má segja um þá suma að þar hafi í mörgum tilvikum verið gengið heldur nærri.
    Hv. þm. Kristinn Pétursson spurði hvers vegna væri verið að setja kvóta á skarkola og hvers vegna það hefði verið hugmyndin að setja kvóta á steinbít. Það er einfaldlega vegna þess að eftir því sem hert er að sókn í einstaka fiskstofna þá er það gömul reynsla og kemur engum á óvart að í meira mæli er sótt í þá stofna sem sóknin er ekki takmörkuð í. Menn óttuðust það að sóknin mundi vaxa svo mikið í skarkolann að þar yrði illa ráðið við með sama hætti og varð reyndin að því er varðaði grálúðuna og rækjuna, svo eitthvað sé nefnt. Og alveg
sömu rök eiga við steinbít, enda býst ég við að það muni koma berlega í ljós á komandi ári að harðar mun verða sótt að þessum stofnum. Ég býst við því að þeim sem hafa sótt í þessa stofna á undanförnum árum og vilja byggja afkomu sína á þeim muni líka það heldur illa að fleiri og fleiri sæki þar inn og takmarki möguleika þeirra sem fyrir voru.
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal sagði að það hefði ríkt mikill hringlandi og reglum verið breytt. Hann skýrði nánar sjálfur hvers vegna það hefði verið. Það var vegna þess að lög fengust ekki samþykkt nema til takmarkaðs tíma, bæði vegna andstöðu hér á hv. Alþingi, en jafnframt vegna andstöðu þeirra sem búa hvað mest við fiskveiðistjórnunina, svokallaðra hagsmunaaðila. Menn vildu margir hverjir trúa því að hér væri aðeins um bráðabirgðaráðstafanir að ræða og hremmingunum hlyti að ljúka og þá gætu allir verið frjálsir og lítt þyrfti að skipta sér af málum eða a.m.k. með einhverjum allt öðrum hætti. Það er ekki óeðlilegt að menn eigi sér slíka draumsýn og ekki ástæða til að vera hissa á því. Hins vegar hefur það komið í ljós að oft og tíðum voru ákvarðanir sem þessar teknar af skammsýni og þess vegna stöndum við frammi fyrir meiri vandamálum í dag en við annars hefðum þurft.
    Það á jafnframt við um mörg ný fiskiskip sem hafa verið keypt, og líka smábáta, í bjartsýni um það að svokallað sóknarmark og frjálsræði í veiðum mundi geta gilt til langframa, sem auðvitað var allt of mikil bjartsýni, og þar af leiðandi hafa áætlanir margra þeirra aðila sem stofnuðu til slíkra fjárfestinga einfaldlega ekki gengið upp.
    Út af vandamálum ákveðinna byggðarlaga í kjördæmi hans þá er það rétt að það hafa átt sér stað verulegar almennar skuldbreytingar, m.a. í gegnum þá sjóði sem þingmaðurinn fór allháðulegum orðum um. Jafnframt hafa opinberir lánasjóðir reynt að koma þar til aðstoðar og viðskiptabankar viðkomandi aðila. Þetta eru þau ráð sem menn hafa haft til skuldbreytinga í landinu og oft verið gripið til. Hitt er svo annað mál að margir eru svo illa skuldugir að hvað svo sem öllum skuldbreytingum líður þá stendur reksturinn einfaldlega ekki undir því sem á honum hvílir. Þar af leiðandi verða menn oft að grípa til ráðstafana sem eru lítt að skapi, sérstaklega þegar menn missa atvinnutækifærin frá sér.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði þriggja spurninga. Í fyrsta lagi hvort eðlilega væri staðið að kvótaúthlutun til ákveðinna byggðarlaga. Því er til að svara að það er jafneðlilega staðið að úthlutun til þessara byggðarlaga og allra annarra að því leytinu til að úthlutunin miðast við reynslu einstakra fiskiskipa í þessum byggðarlögum, svo sem öllum öðrum, og er þar enginn munur gerður á. Hvort það er eðlilegt eða ekki eðlilegt er að sjálfsögðu umdeilanlegt en þetta eru þær staðreyndir sem menn standa frammi fyrir.
    Í öðru lagi er spurt hvort ég hyggist leggja fram frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða á þessu þingi. Engin slík áform eru uppi af minni hálfu.
    Hv. þm. spurði jafnframt um það hvort frv. til laga um fiskvinnslustefnu yrði lagt fram. Því get ég jafnframt svarað neitandi. Það er engin slík frumvarpsgerð áformuð af minni hálfu á þessu þingi. Hins vegar hefur margt verið gert til þess að tryggja hagsmuni fiskvinnslunnar, og ég skilgreini það sem fiskvinnslustefnu, eins og takmörkun á útflutningi á óunnum afla með starfsemi Aflamiðlunar, með því að skerða aflahlutdeild þeirra sérstaklega sem flytja aflann út, með því að hafa tryggt mun betur með núverandi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar starfsskilyrði fiskvinnslunnar og fjölmargt annað sem þar hefur verið gert.
    Hins vegar halda margir því fram að aflaheimildunum skuli úthlutað til fiskvinnslunnar. Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur verið talsmaður þess að hluta af aflaheimildunum skuli úthlutað til fiskvinnslunnar. Um það flutti hann brtt. hér á Alþingi og fleiri hv. þm. hafa gert það. Það er þetta atriði sem menn eru fyrst og fremst að tala um þegar rætt er um fiskvinnslustefnu, þ.e. sú tillaga að fiskvinnslan fái í sinn hlut hluta af aflaheimildunum. Um það er ekki samstaða og ég hef ekki verið og hef ekki hugsað mér að gerast tillögumaður að slíkri aflaúthlutun.
    Ég vænti þess, hæstv. forseti, að ég hafi svarað að mestu leyti því sem hv. þm. hafa beint hér til mín. Það væri ástæða til þess að fara mörgum orðum um margt fleira sem hér hefur komið fram en tímans vegna ætla ég ekki að taka meiri tíma frá hv. þm. í þau mál.