Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það var ekki vegna ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, formanns sjútvn. Ed., sem ég kvaddi mér hér hljóðs þó að ýmislegt hafi verið í þeirri ræðu sem er að vissu leyti svara vert. Meginhluti þess kom þó fram í ræðu hans hér í umræðu um þessi mál fyrir nokkrum dögum og þá taldi ég rétt að láta það vera að svara fullyrðingum og útlistunum hv. þm. á stefnu minni og stefnu Alþb. í sambandi við fiskveiðistefnuna. Mér fannst ekki rétt að benda á hvað þessi hv. þm. virtist hafa fylgst lítið með málum í umræðunni á sl. vori og hver sú stefna var sem hver nefndarmaður og hver þingmaður hélt fram í þeirri umræðu. Að eigna mér að einhverju leyti þá tillögu að tekinn skyldi ákveðinn hluti aflakvótans og færður til fiskvinnslunnar finnst mér vera svolítið langt gengið og ég hefði nú gaman af því að hv. þm. benti á það einhvers staðar að það hafi verið tillaga mín eða Alþb. Tillaga Alþb., og tillögur Alþb. til nokkurra ára, hefur verið byggðakvóti þar sem ákveðinn hluti kvótans skyldi vera bundinn við byggðir, en þó alltaf í tengslum og tengingu við skip, þó að Alþb. hafi aldrei viðurkennt að sá kvóti væri eign útgerðarinnar og hafi alltaf vitað um það í sjálfu sér að það væri ekki eðlilegt sem verið hefur, að útgerðin réði þessum kvóta eins og gengið hefur á undanförnum árum og greinilegt er núna. Mér finnst miður að jafnágætur þm. og Stefán Guðmundsson, jafnágætur maður og Stefán Guðmundsson, skuli trekk í trekk hér í ræðu á hv. Alþingi halda fram hlutum sem ekki eru réttir og ég taldi síðast þegar hér var umræða ekki rétt að vera að benda þingheimi á það að formaður sjútvn. deildarinnar hefði ekki fylgst betur með málum en raun ber vitni um. En því miður verð ég að undirstrika það að þannig hefur þetta verið.
    Ég lét þó tillögu um þessa hluti koma í nál. mitt sem minnisatriði vegna þess að þetta var eitt af þeim atriðum sem komu til umræðu í undirbúningsnefndinni og var þar skoðað en fékk ekki mikinn hljómgrunn hjá þeim sem þar réðu og sömdu og gengu frá frv. þó að hv. þm. haldi því fram að það hafi verið nefndin sem hafi unnið það frv. sem við fjölluðum hér um á síðasta vori.
    Ég tel kannski ekki ástæðu til þess að fjalla mikið frekar um það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson nefndi hér í ræðu sinni. Þó vil ég aðeins nefna það að hann gerir mikið úr forkaupsrétti sveitarstjórna í þeim nýju lögum sem við taka um næstu áramót. Ég hef áður gert frekar lítið úr því og talið litla möguleika hjá sveitarfélögum vítt um landið að hamla gegn kvótasölu eða fiskveiðiréttindasölu úr sínum byggðum. Við erum að ræða núna um Grímsey. Upphaf þessarar umræðu var staða mála í Grímsey. Getur hv. þm. búist við því að jafnlítið sveitarfélag og Grímsey hafi möguleika til þess að keppa við stóruútgerðirnar á Vestfjörðum í kaupum á fiskveiðiréttindum? Það er því miður ekki þannig. Þess vegna er þessi lagabókstafur lítið annað en nafnið tómt. Vitaskuld getur hv. borgarstjóri hér í Reykjavík, Davíð Oddsson, sem hv. þm. nefndi líka, gert þetta, en oddvitinn í Grímsey og oddvitinn á Drangsnesi hafa enga möguleika til að beita sveitarfélagi sínu til varnar gegn stóru útgerðarfélögunum, sem núna eru vítt og breitt að kaupa kvóta, til þess að keppa við þau, og það er það sem skiptir máli. Þess vegna er þessi lagabókstafur að meginhluta til gagnslaus.
    Eitt af því sem þeir sem hafa mælt með í fiskveiðistefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum og komum til með að búa við, lítið breytta, eftir áramótin er það að enginn bendi á aðrar leiðir. Þetta er algild regla í umræðum þegar menn eru komnir í þrot með það að réttlæta þá stefnu sem uppi er. En öll vitum við það að einmitt í þessu máli hefur verið bent á margar leiðir, m.a. þá leið sem hv. þm. var að benda á, að kvótanum væri skipt á milli skipa og fiskvinnslu. Í öðru orði gagnrýnir hann það að það skuli hafa verið bent á leiðir en í hinu að ekki hafi verið bent á neinar leiðir.
    Í þessari umræðu hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að breyta þeim lögum sem samþykkt voru í vor til þess að sníða af þá vankanta sem greinilegastir eru á þeim, eins og t.d. hv. 1. þm. Vestf. benti hér á, þá stöðu sem komin er upp á Drangsnesi. Það þyrfti að breyta þessum lögum. Var ekki verið að benda þar á eina leið til þess að forða því sem að er stefnt? Svo geta aðrir þingmenn komið hér upp og sagt að ekki hafi verið bent á neinar leiðir.
    Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að einhver af ræðumönnum hér í dag, hv. þm. sem hér hefðu fjallað um þetta mál, hefði haldið því fram að þannig liti út að það væri raunverulega meðvituð stefna stjórnvalda að fækka smábátum og hæstv. ráðherra mótmælti því að svo væri. En þegar litið er til liðinna ára, fiskveiðistjórnunartímabilsins frá 1984 til þessa dags, hljóta menn að spyrja: Var ekki eitthvað meðvitað í því að neita því ár eftir ár að fara að tillögum smábátamanna, að stöðva fjölgun smábáta? Það hlýtur að hafa verið eitthvað meðvitað í stefnunni sjálfri. Eki gat stefnan verið það laus í reipunum að menn gerðu þetta ekki út frá einhverjum ákveðnum sjónarmiðum. Mér finnst það liggja svo ljóst fyrir í dag að hverju var stefnt með þessari stefnu, og ég nefndi það hér í fyrri umræðu. Það var ekki einleikið að ekki skyldi heyrast um það rödd frá Landssambandi ísl. útvegsmanna á síðustu árum að smábátaflotinn var alltaf að stækka og hann var að taka stærri hluta, eins og hæstv. ráðherra benti á, af hinum sameiginlega afla. Af einhverjum ástæðum var ekki haldið uppi neinum mótmælum þó að smábátafélagið, Félag smábátaeigenda, óskaði eftir því í hvert skipti sem þessum lögum var breytt að sett væri stopp á fjölgun smábátanna. Getur það verið að þeir aðilar, sem eru valdamestir hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna, hafi séð þá mynd sem nú blasir við, að það væri auðvelt að komast yfir veiðiheimildir þessara báta þegar að því kæmi að farið væri að skipta þessu upp? Og er það ekki það sem blasir við í dag, að það eru stóru útgerðarfyrirtækin vítt um landið sem eru að kaupa upp aflakvóta smábátanna? Meira að segja hefur verið farið út í það stórkostlega skipulagningu á þessum málum að eitt stórt útgerðarfyrirtæki hér á landi hefur gert sérstaka stjórnarsamþykkt um það að kaupa ákveðið magn af smábátunum til þess að færa til sinna stóru skipa. Það er Síldarvinnslan í Neskaupstað sem hefur gert þá samþykkt. Þá er hægt að segja að þeir geri það og segja: Við erum að gera það til að forða því að þessi kvóti flytjist úr byggðinni og í einstaka tilfellum er hægt að stilla dæminu þannig upp að eitthvað jákvætt fylgi því, en það er því miður sjaldnar að hægt sé að tengja það á þann veg, ef það er jákvætt að smábátaútgerðin í Neskaupstað minnki og togaraútgerðin eflist.
    Nei, því miður virðist það hafa verið meðvitað að hlutirnir yrðu svona og því miður virðist það líka hafa verið meðvitað á tímabili þessarar fiskveiðistjórnunar að flotinn skyldi stækka áfram. Það getur ekki verið annað en að það hafi verið meðvitað að verksmiðjutogaraflotinn hefur stækkað úr því að vera þrjú skip í upphafi fiskveiðistjórnarinnar upp í það að vera núna milli 20 og 30. Það getur ekki verið að við séum að tala um fiskveiðistjórn og að það hafi ríkt fiskveiðistjórn ef slík útkoma hefur ekki verið meðvituð, bæði staðan gagnvart smábátunum og sú staða sem uppi er núna og sú uppbygging þess stóra flota sem við vitum um að er núna, verksmiðjutogarar á íslenskum fiskimiðum. Þetta gefur auga leið. Þetta er árangur stefnunnar og þetta hlýtur að hafa verið meðvitað. Ef þetta hefur ekki verið meðvitað er þetta náttúrlega ekki stefna sem verður að kasta vegna þess að hún virkar öðruvísi en ætlað er.
    Hæstv. ráðherra nefndi einnig að menn gagnrýndu að verið væri að selja fiskveiðiréttindin, selja kvóta, og þeir menn gerðu sér ekki grein fyrir því að það kerfi yrði að vera í gangi til þess að ná mætti því markmiði að fækka skipum. Og þeir sem ekki skildu það gerðu sér ekki grein fyrir að hverju stefndi ef við gætum ekki minnkað fiskiskipaflotann. Það eru nú ekki minni aðilar en Sjómannasamband Íslands og Farmanna - og fiskimannasamband Íslands sem hafa mótmælt því að óveiddur fiskur sé hafður til sölu. Er hæstv. ráðherra að segja að þessi samtök geri sér ekki grein fyrir því að fiskveiðiflotinn íslenski er búinn að vera stór, og allt of stór, of lengi? Slíkar fullyrðingar sem þessar, að það sé ekki hægt að leita annarra leiða til þess að minnka fiskiskipaflotann en að aflaréttindin séu til sölu, eru náttúrlega alveg út í bláinn og slík fiskveiðistefna sem byggir beinlínis á því þjónar ekki eðlilegum tilgangi. Það verður að leita annarra leiða til að minnka fiskiskipaflotann en að hafa fiskveiðiréttindin á uppboði og láta þá sem eru ríkastir og hafa bestu aðstöðuna til þess að komast yfir þessi réttindi njóta þess til frambúðar. ( Gripið fram í: Hagræðingarsjóðurinn.) Ég veit nú ekki, hv. þm., hvort við eigum að fara að taka upp umræðu sérstaklega um Hagræðingarsjóð. Ég held að hann snerti þetta mál ekki mikið, því miður. Hann er svona ósköp svipað og forkaupsrétturinn sem sveitarfélögin hafa í lögunum og er lítið annað en pappírinn sem hefur farið í það að prenta þau lög og kemur lítið út úr því

enn.
    Ég vildi sérstaklega benda á þau tvö atriði sem hæstv. ráðherra undirstrikaði í ræðu sinni, þ.e. að það væri ekki meðvitað af stjórnvöldum að fækka smábátunum sem ég tel að hljóti að hafa verið. Annars hefði kerfið bara verið ein hringavitleysa. Hitt er að það þurfi að hafa aflaréttindin á markaði til þess að hægt sé að minnka fiskiskipaflotann. A.m.k. er það alveg greinilegt að með þessum markaði erum við ekki að
byggja upp þann hagkvæmasta fiskiskipaflota sem æskilegt er. Við erum ekki að byggja upp þann fiskiskipaflota sem sækir þannig í fiskstofnana að við þurfum ekki óttast að við séum að ofveiða. Við vitum að það sem hefur verið að gerast nú síðustu árin er að við höfum fyrst og fremst verið að stækka, eins og ég sagði hér áðan, stórtogaraflotann okkar, og við vitum það, eins og kom fram í ræðu hv. frummælanda hér í dag, að einmitt sá floti er að taka smæsta fiskinn og hvert tonn sem hann veiðir er með tvöfaldan, þrefaldan fjölda af fiskum miðað við það sem bátaflotinn dregur að landi. Þetta er öfugþróun. Þetta hlýtur samt að vera meðvitað í stefnunni á þann veg að það eru ákveðin hagsmunaöfl í þjóðfélaginu sem eru að byggja upp þetta kerfi, stóra verksmiðjutogarakerfið og stórútgerðakerfið í landinu, og það eru þau sem ráða ferðinni. Það eru þau sem ráða því að það er frekar veiddur eins og hálfs kílós fiskur á verksmiðjutogurum en fjögurra eða fimm kílóa fiskur á línu- og netaveiðum bátaflotans. Þetta er allt meðvitað í kerfinu, það þarf ekki að bera á móti því, annars væri þetta ekki fiskveiðistjórn borin fram af hæstv. sjútvrh. og hans fylgismönnum sem við vitum að eru fyrst og fremst hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna og við vitum að þeir sem stjórna þar eru fyrst og fremst fulltrúar þessara aðila sem ég hef verið að nefna.
    Það er búið að benda á hér í dag þau missmíði sem eru á þeirri úthlutun sem nú stendur yfir og verið er að vinna að í sambandi við smábátana. Það er ekki nóg með það að mjög mikil missmíði sé á úthlutun aflaréttinda fyrir smábátana heldur er það líka á ýmsan veg í sambandi við þó sérstaklega bátaflotann fyrir neðan 50 tonn. Þar hafa komið upp margs konar slys og hv. 1. þm. Vestf. benti t.d. á stöðuna á Drangsnesi. Ég tek þess vegna taka undir ósk hans um það að þessi mál verði endurskoðuð og leitað verði leiða til að laga þessa hluti, til að forða því að áfram haldi sem horfir í þessum málum sem ég hef ekki trú á öðru en að hæstv. sjútvrh. og hv. formaður sjútvn. Ed. geri sér fyllilega grein fyrir að er hættuleg þróun. Flutningur á aflaréttindum þessara minni báta til stærri útgerðanna er hættuleg þróun. Ég tel, og undirstrika það enn, að sú lokatillaga sem ég flutti í hv. Ed. varðandi sölu á aflaheimildum hefði getað lagað mikið í sambandi við smábátaflotann, þ.e. að bann hefði verið á því að selja aflaréttindi á milli skipa, á milli stærðarflokka skipa. Mín tillaga var á þann veg að heimilt væri að versla með aflaréttindi frá smábátunum upp í 30 tonn og 30 tonnum, minnir mig, upp í 100 og síðan áfram og síðan sér togarar og sér

frystitogarar þannig að þetta héldist innan þessara sérstöku greina fiskiskipa. Það hefði ábyggilega breytt þó nokkuð miklu og við hefðum ekki horft á það sem hefur verið að gerast í Grímsey síðustu daga og víðar um landið, að stórútgerðirnar hefðu verið að kaupa aflaréttindi frá smábátunum. Hitt hefði getað átt sér stað, og hefði þó ekkert verið sérstaklega gott, að þetta hefði færst á milli smábátanna, og smábátarnir hefðu getað styrkt sig hver frá öðrum, ef má orða það þannig, og þannig hefði smábátaflotinn getað leitað að eðlilegri stærð. En því miður var þessi tillaga felld eins og aðrar tillögur okkar, m.a. sú að fresta afgreiðslu málsins til sérstaks sumarþings. Hefði verið betri tími til skoðunar á málinu er ég ekki í nokkrum vafa um að annað hefði komið út en raun varð á.
    Ég held að það sem þyrfti að gera og það sem þyrfti að breyta sé m.a. að binda það í lög að ekki sé hægt að selja aflaréttindi. Ef menn vilja endilega standa á því að hægt sé að selja aflaréttindi á milli skipa verði það bundið í lög að það færist ekki á milli stærðarflokka upp á við. Það væri allt í lagi ef keypt væri eitthvað af frystitogurunum og fært niður til trillanna eða smábátanna. Það væri hin rétta þróun. Sú þróun sem við búum við núna og horfum á er algjör öfugþróun og getur ekki leitt til annarra hluta en mjög mikilla vandræða, bæði í íslenskum sjávarútvegi og í byggðunun hringinn í kringum landið, þá ekki aðeins hjá sjómönnum, heldur hjá öllu því fólki sem í þessum byggðum býr, jafnt fiskverkunarfólki og því fólki sem annast þar þjónustu og heldur uppi almennu lífi, almennu starfi í hinum dreifðu byggðum vítt og breitt um landið.